Skip to main content
Fréttir

Stonewall

By 26. apríl, 2006No Comments

Ég rakst á það að gay nemendur í framhaldsskólum voru einhvern tíma með félag sem hét Stonewall. Af hverju heitir það þetta? Steinveggur? Spurt: Ég rakst á það að gay nemendur í framhaldsskólum voru einhvern tíma með félag sem hét Stonewall. Af hverju heitir það þetta? Steinveggur?

Svarað: Nafnið vísar til krár í Greenwich Village í New York, nánar tiltekið á Christopher Street nr. 51-53, þar sem samkynhneigðir vöndu eitt sinn komur sínar. Þar hófust uppþot aðfararnótt laugardagsins 28. júní árið 1969 sem mörkuðu upphafið að frelsis- og baráttuhreyfingu lesbía og homma og boðuðu nýja tíma og nýjan lífsstíl samkynhneigðra á Vesturlöndum. Lögreglan í borginni birtist þessa nótt eins og svo oft áður til að gera razzíu á staðnum fyrir meint brot á áfengislöggjöfinni. Slíkar heimsóknir hennar voru í rauninni dulbúnar fjarkúganir, þeir staðarhaldarar sem borguðu sitt til löggunnar sluppu við razzíur enda fældu þær frá gesti sem á slíkum kvöldum gátu átt von á því að gista fangageymslur yfir nótt fyrir það eitt að vera til staðar. En í þetta sinn leiddi eitt af öðru, hommarnir á barnum tóku á móti og áður en varði logaði allt í slagsmálum sem bárust út á götu og á nærliggjandi bari. Bæði kynin drógust inn í átökin, lögreglan lýsti yfir vanmætti sínum og réði ekki við nokkurn hlut. Átökunum lauk ekki fyrr en aðfararnótt sunnudags og vöktu strax fjölmiðlaathygli um öll Bandaríkin. Það tók samkynhneigða nokkurn tíma að átta sig á að hér hafði verið brotið blað í sögu þeirra því fáir voru jafn undrandi á átökunum og þeir sjálfir. Þeir höfðu veitt viðnám í stað þess að beygja sig fyrir valdinu. Sumarið 1970 var í fyrsta sinn farið í mikla göngu í New York og fleiri borgum vestan haft til að minnast þessara atburða og þannig skapaðist sá siður að fylkja liði á fagnaðarhátíðum á götum úti. Hátíðahöldin gengu áður undir nafninu Christopher Street Day en núorðið kallast þau Gay Pride Day og dagurinn er haldinn hátíðlegur á ýmsum tímum sumars víða um lönd. Í Reykjavík halda lesbíur og hommar árlega Hinsegin hátíð sem er sprottin af þessari hefð – með skrúðgöngu um miðborgina og útihátíð í Lækjargötu.

Þorvaldur Kristinsson

Leave a Reply