Í vetur bjóða Samtökin ´78 til hádegisfyrirlestra í Háskóla Íslands. Sex fræðimenn, innlendir og erlendir, fjalla um margvísleg fræðasvið sín undir yfirskriftinni „Kynhneigð – Menning – Saga“. Meðal fyrirlesara eru tveir heimsfrægir fræðimenn, Susan Stryker frá Bandaríkjunum og Ken Plummer frá Bretlandi. Fyrirlestrarnir eru haldnir í samvinnu við félagsvísindadeild HÍ, RIKK – Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum, Hugvísindastofnun HÍ, FSS – Félag STK-stúdenta og Mannréttindaskrifstofu Íslands. Fyrirlestrarnir eru haldnir annan hvern föstudag í stofu 101 í Odda, húsi félagsvísindadeildar, þeir hefjast kl. 12 á hádegi og eru öllum opnir.
HALLDÓR OG HOMMARNIR
Í fyrsta fyrirlestrinum, 27. janúar, mun Halldór Guðmundsson rithöfundur og bókmenntafræðingur fjalla um líf og skáldskap Halldórs Laxness, en erindi sitt nefnir hann Halldór og hommarnir – Pælingar Halldórs Laxness í kynhneigð á þriðja áratugnum. Þar ræðir Halldór um kynni Halldórs Laxness af hommum á þriðja áratugnum, pælingum hans þá í kynhneigð og tilbrigðum kynlífsins, en áhrifa þeirra gætir í fyrstu stóru skáldsögum hans, bæði Vefaranum mikla frá Kasmír og Sölku Völku. Einnig mun Halldór ræða um kunningsskap Halldórs Laxness og Þórðar Sigtryggssonar sem var einn af fáum sýnilegum hommum í Reykjavík á fyrri hluta aldarinnar og löngum talinn að einhverju leyti fyrirmynd organistans í Atómstöðinni.