Tilkynningar Árið 2003 minnast Samtökin ´78 þess að hafa starfað í aldarfjórðung og af því tilefni býður félagið upp á röð hádegisfyrirlestra í Háskóla Íslands í samvinnu við félagsvísindadeild Háskólans, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Félag samkynhneigðra og tvíkynhneigðra stúdenta, FSS.
Sex fyrirlestrar verða á dagskrá á vormisseri og sá annar í röðinni er haldinn föstudaginn 14. febrúar. Þar mun Þóra Björk Hjartardóttir málfræðingur flytja fyrirlestur sem hún nefnir Orð á hreyfingu. Orð og orðanotkun tengd samkynhneigð. Þóra Björk mun ræða um orð á viðkvæmum eða bannhelgum sviðum, þau viðbrögð sem notkun þeirra vekja og ástæður þess. Fjallað verður um hverju orð miðla og hvað felist í merkingu orða og merkingarbreytingum. Rætt verður um tilraunir til afnáms gildishlaðinna orða eða merkingar sem margir minnihlutahópar hafa beitt sér fyrir í réttinda- og sýnileikabaráttu sinni.
Þóra Björk Hjartardóttir nam málvísindi og íslensku við Háskóla Íslands og lauk þaðan kandídatsprófi. Ennfremur lagði hún stund á nám í norrænum málum við Háskólann í Lundi í Svíþjóð. Hún er nú dósent við heimspekideild Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn er haldinn í stofu 101 í Odda, Háskóla Íslands, og hefst kl. 12 á hádegi 14. febrúar. Að honum loknum gefst áheyrendum kostur á að bera fram spurningar og taka þátt í stuttum umræðum.