Í vetur bjóða Samtökin ´78 til hádegisfyrirlestra í Háskóla Íslands. Sex fræðimenn, innlendir og erlendir, fjalla um margvísleg fræðasvið sín undir yfirskriftinni „Kynhneigð – Menning – Saga“. Meðal fyrirlesara eru tveir heimsfrægir fræðimenn, Susan Stryker frá Bandaríkjunum og Ken Plummer frá Bretlandi. Fyrirlestrarnir eru haldnir í samvinnu við félagsvísindadeild HÍ, RIKK – Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum, Hugvísindastofnun HÍ, FSS – Félag STK-stúdenta og Mannréttindaskrifstofu Íslands. Fyrirlestrarnir eru haldnir annan hvern föstudag í stofu 101 í Odda, húsi félagsvísindadeildar, þeir hefjast kl. 12 á hádegi og eru öllum opnir.
ÓPERUHOMMINN
Föstudagur 24. febrúar flytur Haukur F. Hannesson, tónlistarmaður og listrekstrarfræðingur, erindi sem hann nefnir Óperuhomminn – List og menningarpólitík frá samkynhneigðu sjónarhorni. Þar fjallar Haukur um það hvernig hommar og lesbíur hafa flúið til listarinnar og hvernig listin hefur flúið þau á harðahlaupum, hvött áfram af gagnkynhneigðarrembu, hómófóbíu og skipulagðri og óskipulagðri menningar¬pólitík sem í eitt skipti fyrir öll átti að koma reglu á óregluna. Hinir samkynhneigðu hafa hins vegar hangið í skottinu á listinni og ekki sleppt henni.