Skip to main content
Fréttir

HINSEGIN BÍÓDAGAR Í REGNBOGANUM – PUNKTAR ÚR LIÐINNI VIKU

By 22. mars, 2006No Comments

Hinsegin bíódagar hafa nú þegar staðið yfir í Regnboganum í eina viku og fer því hver að verða síðastur að skella sér að sjá einhverjar af þeim fjölmörgu glæsilegu myndum sem í boði eru á hátíðinni. Hinsegin bíódagar hafa nú þegar staðið yfir í Regnboganum í eina viku og fer því hver að verða síðastur að skella sér að sjá einhverjar af þeim fjölmörgu glæsilegu myndum sem í boði eru á hátíðinni.

Fimmtudagskvöldið 16. mars var kvikmyndahátíðin opnuð með sýningu á spænsku myndinni Bangsaling (Cachorro). Hún mæltist ágætlega fyrir og þá sérstaklega meðal „bangsanna“ í hópnum. Í kjölfar sýningarinnar fjölmenntu gestir í Iðnó þar sem skálað var fyrir hátíðinni. Meðal gesta á opnunarhátíðinni var hinn hollenski Jankees Boer sem hefur um árabil verið helsta driffjöðurin í hinsegin kvikmyndahátíð Hollendinga, Rozen Filmdagen – Amsterdam Lesbian and Gay Film Festival. Hafði hann orð á því að honum þætti íslenska hátíðin unnin af miklum metnaði en fyrirfram hafði hann aðeins búist við fjögurra daga hátíð í stað tíu daga stórhátíðar. Það kom honum ennfremur ánægjulega á óvart hversu framarlega á merinni Íslendingarnir voru í þessum málum, en hann kom auga á tvær myndir sem hann hugðist bjóða á sína hátíð, hina bresku Sígaunapakk (Gypo) eftir Jan Dunn og indversku myndina Ferðalagið (Sancharam) eftir Ligy J. Pullappally. Er það nýlunda að erlendir sýningarstjórar geti komið til Íslands til að finna myndir á jafn virta kvikmyndahátíð og þessa.

Laugardagurinn hófst á sýningu Einu sinni var … kynvilla en margir muna eflaust eftir þessum þætti úr þáttaröð Evu Maríu Jónsdóttur. Annar viðmælenda þáttarins, Elías Mar, var sjálfur viðstaddur sýninguna ásamt þeim Evu Maríu og Margréti Jónasdóttur og svöruðu þau spurningum bíógesta að sýningu lokinni. Því miður reyndist sýningin ekki nógu vel sótt og helst skorti fulltrúa yngri kynslóðarinnar í bíósalnum. Slík sýning sem þessi, stútfull af mikilsverðum sögulegum og persónulegum fróðleik um samkynhneigð og sér í lagi homma á Íslandi á liðinni öld ætti að vera skyldusýning fyrir unga homma og lesbíur. Þótt virðing og fordómaleysi gagnvart samkynhneigðum hafi aukist mjög á undanförnum árum og áratugum þarf ekki að leita langt aftur til að finna sláandi dæmi um hið gagnstæða. Það er ekki sjálfsagt mál að geta verið opinberlega út úr skápnum á Íslandi án teljandi mótstöðu, og það má ekki gleymast.

Áðurnefnd Sígaunapakk var frumsýnd síðar um kvöldið að viðstöddum höfundum myndarinnar, leikstjóranum Jan Dunn og framleiðandanum Elaine Wickham. Myndin vakti mikla hrifningu áhorfenda en hún er tekin upp eftir dönsku Dogma-reglunum sem Íslendingum eru að góðu kunnar í kjölfar vinsælda danskra mynda í þeim stíl, svo sem Veislunnar (Festen). Líkt og danskættaður fyrirrennari sinn hefur Sígaunapakk hlotið gífurlega athygli víða um heim og var meðal annars sýnd á hinum virtu kvikmyndahátíðum í Cannes og Edinborg. Ennfremur hlaut myndin „Levis Best First Time Feature“-verðlaunin á San Francisco International Lesbian and Gay Film Festival sem er ein stærsta hinsegin kvikmyndahátíð sem til er. Jan og Elaine svöruðu spurningum áhorfenda eftir sýninguna og greindu meðal annars frá því að eftir velgengni Sígaunapakks væru þær komnar með fjármagn fyrir næstu mynd sína. Eftir sýninguna skunduðu stúlkurnar tvær ásamt þeim íslensku á Góugleði KMK sem haldin var á Kaffi Reykjavík. Þar fengu þær að kynnast ekta íslensku ballstuði. Á sunnudeginum voru þær svo sendar í Bláa lónið sem aldrei klikkar og voru þær á endanum svo ánægðar með ferðina að þær reifuðu það að koma jafnvel aftur í framtíðinni og taka upp mynd á Íslandi.

Í gær, þriðjudag, voru svo tvær mjög sterkar sýningar. Fyrst í röðinni voru myndirnar Transplosion eftir Höllu Kristínu Einarsdóttur og 100% manneskja (100% menneske) eftir Trond Winterkjær og Jan Dalchow sýndar saman. Transplosion segir á næman hátt frá lífi og reynslu „transgender“ fólks á Íslandi og voru allar fjórar stúlkurnar sem rætt var við í myndinni mættar á sýninguna, sannkallaðar hversdagshetjur. 100% manneskja fylgdi í kjölfarið en þar er á ferðinni ótrúleg heimildarmynd sem brýtur allar hefðbundnar reglur heimildarmyndagerðar en kemst alfarið upp með það vegna þess hve viðfangsefnið er einstaklega „brilljant“. Hin sýningin var stuttmyndaprógram stelpnanna. Fyrir sýninguna ríkti gífurleg eftirvænting í salnum og var augljóst að sá mikli fjöldi gesta sem þar var saman kominn var afar spenntur fyrir stuttmyndunum, enda um geysilega sterkt prógramm að ræða með fjölmörgum glæsilegum og vel unnum stuttmyndum. Við hvetjum jafnframt strákana til að láta stelpnaprógrammið ekki framhjá sér fara – svo frábært er það!

Aðsóknin á hátíðina hefur verið með besta móti en betur má ef duga skal enda var markið sett hátt: 2000 gestir. Núna þegar hátíðin er hálfnuð er gestafjöldi kominn upp í um 900 manns. Enn eru þá fimm dagar ótaldir og eru vonir aðstandenda bundnar við að brjóta að minnsta kosti 1500 gesta múrinn. Þegar hátíðin var haldin síðast fyrir tveimur árum náðu aðsóknartölur 1100 manns þannig að gera má ráð fyrir talsverðri fjölgun á þessari hátíð.

Hér hafa aðeins örfáar af þeim fjölmörgu meistaraverkum hátíðarinnar verið nefndar enda hafa sumar myndirnar ekki enn verið teknar til sýninga. Þar ber umdeilanlega hæst kvikmyndina Dularfull snerting (Mysterious Skin) sem er frumsýnd í kvöld, miðvikudag klukkan 20:00. Hér er á ferðinni mögnuð mynd eftir Bandaríkjamanninn Gregg Araki sem treysti sig í sessi sem einn frumkvöðla nýbylgjunnar í kvikmyndagerð samkynhneigðra með myndum á borð við The Living End og Totally F***ed Up. Enn eru ótaldar fjölmargar aðrar gæðamyndir sem svíkja engan.

-BKS

Leave a Reply