Undirritaður hefur verið samstarfssamningur til þriggja ára milli Samtakanna ´78 og Glitnis. Markmið samstarfsins er að efla fræðslu um samkynhneigð, vinna gegn fordómum í garð samkynhneigðra og gera upplýsingar um samkynhneigð aðgengilegri en nú er, samkynhneigðum og aðstandendum þeirra til góða. Sérstök áhersla verður lögð á að ná til ungs fólks í grunn- og framhaldsskólum.
Pétur Þ. Óskarsson forstöðumaður kynningarmála og stjórnarmaður í Menningarsjóði Glitnis segir “að það sé fyrirtækinu mikil ánægja að styrkja Samtökin 78 til að efla fræðslustarf félagsins. Það er ljóst að fordómar í garð samkynhneigðra eru enn til staðar og besta leiðin til að vinna gegn fordómum er að auka fræðslu, samkynhneigðum og fjölskyldum þeirra til hagsbóta. Samtökin 78 hafa unnið mikið brautryðjendastarf á undanförnum árum og mjög mikilvægt að þau
hafi tækifæri til að efla starfsemina enn frekar.”
Stuðningur Glitnis gerir Samtökunum ’78 mögulegt að byggja upp fræðslustarf félagsins með markvissari hætti sem skilar sér í bættri líðan samkynhneigðra ungmenna, fjölskyldna þeirra og vina. Samningur Glitnis og samtakanna ’78 markar viss tímamót í starfi félagsins en það er ánægjulegt að íslenskt fyrirtæki á borð við Glitni sýni stuðning sinn við málefni samkynhneigðra í
verki með þessum hætti. Stuðningur af þessu tagi er Samtökunum ´78 mikilsverður og vonandi taka fleiri fyrirtæki Glitni sér til fyrirmyndar.