Frettir Nú er hálft ár liðið frá því að lögin um stjúpættleiðingar samkynhneigðra gengu í gildi. Ekki er nákvæmlega vitað hve mörg ættleiðingarleyfi hafa verið veitt en þau eru þó nokkur. Hér er um mikla réttarbót fyrir börn okkar að ræða, og fjölskyldur samkynhneigðra hafa þokast skrefi framar í réttindabaráttunni. Nokkur munur er á því hvaða vinnubrögð eru viðhöfð þegar sótt er um leyfi til ættleiðingar og fer það eftir aldri þess sem á að ættleiða. Ef viðkomandi hefur náð 18 ára aldri getur dómsmálaráðuneytið afgreitt beiðnina beint að fenginni umsögn þess foreldris sem ekki hefur farið með forsjá. Ef um er að ræða einstakling undir 18 ára aldri þarf barnaverndarnefnd í sveitarfélagi barnsins að gefa umsögn sína. Þetta getur þýtt að umsóknarferlið taki lengri tíma, og auk þess verða þá bæði starfsmenn barnaverndarnefnda og dómsmálaráðuneytisins að koma að málinu. Þessir starfsmenn eru margir óvanir að fást við okkar málefni, en verða einnig að gæta þess að okkar mál séu afgreidd á sama hátt og ættleiðingarbeiðnir annarra. Af þeim upplýsingum sem fyrir liggja um afgreiðslu ættleiðingarbeiðna er ekki annað að sjá en að þessir starfsmenn hafi lagt sig fram við að sinna beiðnum okkar vel og gæta jafnræðis. Þá er jafnframt ljóst að Samtökin ´78 þurfa að geta boðið þessum starfsmönnum upp á fræðslu og leiðbeiningar og mun hinn nýi fræðslufulltrúi félagsins sinna því verki í framtíðinni.
Þeim börnum og unglingum sem hafa eignast kjörforeldra í krafti hinna nýju lagabreytinga, svo og foreldrum þeirra, óskum við hjartanlega til hamingju.