Skip to main content
Fréttir

Hrein og bein – Ný kvikmynd hlýtur afbragðs dóma og viðtökur

By 10. apríl, 2003No Comments

Frettir Laugardaginn 5. apríl var kvikmyndin HREIN OG BEIN frumsýnd í Regnboganum í Reykjavík. Höfundar hennar eru Hrafnhildur Gunnarsdóttir og Þorvaldur Kristinsson. Kvikmyndin byggist á viðtölum við unga viðmælendur, lesbíur og homma, og er ekki síst ætlað að vera stuðningsefni í umfjöllun um samkynhneigð í skólum. Hér er brotið blað í sögu Íslendinga: Fyrsta kvikmyndin um líf og reynslu samkynhneigðra hér á landi er orðin að veruleika.

Einlægar og persónulegar frásagnir

Í kvikmyndinni birtist kornungt samkynhneigt fólk með andlit og persónuleika og lögð er áhersla á einlægar og persónulegar frásagnir. Hér fléttast saman húmor og alvara og leitast er við að ná fram grundvallarkenndum eða tilfinningum hinnar samkynhneigðu reynslu: Hvernig vitundin um það að vera öðruvísi en hinir vaknaði, tilfinningar einangrunar, og einmanaleika, ástarþráin, óttinn við höfnun, skortur á jákvæðum fyrirmyndum, og svo sú dýrmæta reynsla að rjúfa þennan vítahring og öðlast sátt við eigin hlut í lífinu. Lýst er viðbrögðum fjölskyldunnar, skólans, vinahópsins og hvernig þessi reynsla litar persónuleika og tilfinningar viðkomandi. Áherslan er einkum á hinn sammannlega og tilvistarlega þátt reynslunnar ? hvernig mennirnir mæta flóknum staðreyndum lífsins, leitast við að leysa fjötra sína og eignast virðingarvert líf.

Hvað segja kvikmyndagagnrýnendur?

?Hrein og bein er nákvæmlega það sem titillinn hljóðar upp á. Tilgerðarlaus, vönduð og athyglisverð mynd sem segir sína sögu vafningalaust án þess að fegra eða sverta umfjöllunarefnið. Bæði fyndin og á alvarlegum nótum. Verður fyrir vikið trúverðug og á köflum átakanleg þegar áhorfandinn skynjar kvölina og einangrunina sem umlykur samkynhneigða uns þeir þeir verða að sýna ótvíræðan hetjuskap, að opna skáphurðina og skella henni síðan í lás að baki sér. Fyrir vikið fyllir Hrein og bein það tómarúm sem ríkt hefur hvað snertir framboð á skynsamlegu og hreinskilnu efni til uppfræðslu um málefni samkynhneigðra. Hvort sem er fyrir skóla eða almenning. Hún er samkynhneigðum til sóma, líkt og höfundunum, Þorvaldi Kristinssyni og Hrafnhildi Gunnarsdóttur, kvikmyndagerðarkonunni á bak við gæðamyndirnar Corpus Camera og Hver hengir upp þvottinn, og fleiri.?

Sæbjörn Valdimarsson, Morgunblaðið, 8. apríl 2003

?Hér koma níu ungmenni fram og segja frá því hvernig það var að koma út úr skápnum og segja fjölskyldu og vinum frá því að þau væru samkynhneigð. Þau eru hvert öðru skemmtilegra og það er ekki annað hægt en að hrífast með þeim og dást að hugrekki þeirra og hreinskilni. . . . Myndinni er ekki síst ætlað að hjálpa þeim sem velkjast um í vafa og vita ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga, og ég get ekki ímyndað mér annað en hún muni því verða mörgum kærkomin. Þá ætti hún að slá hressilega á fordóma enda eru krakkarnir ekkert öðruvísi en fólk er flest og væntingar þeirra og drauma kannast allir við hjá sjálfum sér; að njóta lífsins, elska, vera elskuð og finna réttan lífsförunaut. Það er ekkert flóknara en það. Áhrifarík og góð mynd.?

Þórarinn Þórarinsson, Fréttablaðið, 7. apríl 2003.

Styrktaraðilar

Framleiðandi myndarinnar er fyrirtækið Krumma kvikmyndir í samvinnu við Samtökin ´78. Helstu styrktaraðilar kvikmyndarinnar eru Velferðarsjóður barna á Íslandi, Fræðsluráð Reykjavíkur og Jafnréttisnefnd Reykjavíkur. Einnig veitti Frameline/Horizons Completion Fund í San Francisco styrk til að ljúka verkinu.

Á leiðinni á kvikmyndahátíð

Hrein og bein var sýnd á almennum sýningum í Reykjavík dagana eftir frumsýninguna, en verður síðar gefin út á myndbandi. Hún verður tekin til sýninga á virtustu kvikmyndahátíð samkynhneigðra í heiminum, San Francisco Lesbian and Gay Film Festival, í júní nk. Einnig verður myndin tekin til sýninga á kvikmyndahátíðinni Hinsegin bíódögum í Reykjavík í lok október nk.

Leave a Reply