Skip to main content
Uncategorized

Staðfest samvist

By 10. janúar, 2001No Comments

Hjúskaparlöggjöf fyrir samkynhneigða, staðfest samvist, öðlaðist gildi hér á landi 27. júní 1996 á alþjóðlegum frelsisdegi lesbía og homma. Þetta er stærsti áfangi í sögu samkynhneigðra á Íslandi og sumir þingmenn héldu því jafnvel fram að um kaflaskil væri að ræða í mannréttindasögu Íslendinga. [1]

Fjögur pör voru vígð samdægurs en Guðrún Elísabet Jónsdóttir og Valgerður Marteinsdóttir voru fyrstar samkynhneigðra hér á landi til að staðfesta samvist sína. Síðdegis buðu Samtökin ´78, félag lesbía og homma á Íslandi, til móttöku og hátíðardagskrár í anddyri Borgarleikhússins. [2] Á miðju ári 2000 höfðu 58 pör staðfest samvist sína skv. upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Hér verður skýrt hvað fólst í lagasetningunni um staðfesta samvist. Einnig verður farið yfir aðdraganda hennar og afgreiðslu á Alþingi. Einnig verður litið á afstöðu þjóðkirkjunnar og að lokum hver áhrif löggjafarinnar voru á samkynhneigða og hverju fleira þeir vilja áorka í réttindamálum sínum.

Hommar og lesbíur hafa verið mjög virk í baráttu sinni fyrir auknum réttindum. Megininntakið í kröfum samkynhneigðra var persónulegt frelsi og tilfinningafrelsi. Frelsi til að haga lífi sínu í samræmi við ástarhneigð. „ . . .slíkt frelsi er í eðli sínu helgur réttur hvers einstaklings í samfélagi sem vill kenna sig við mannréttindi, ekki síður en ritfrelsi, málfrelsi eða félagafrelsi,“ sagði Margrét Pála Ólafsdóttir, fyrrum formaður Samtakanna ´78.[3]

Guðni Baldursson, fyrsti formaður Samtakanna ´78, sagði í helgarblaði einu árið 1989 að hann væri bjartsýnn á að lög um sambúð samkynhneigðra kæmu í ljós fyrir aldamót. [4] „ Þegar elstu þingmennirnir hætta kemur ný kynslóð á þing og þannig breytist þetta smám saman,“ sagði Guðni. Margrét Pála Ólafsdóttir var áberandi talsmaður réttinda homma og lesbía og birti margar greinar í fjölmiðlum um málefni þeirra. Í grein sem birtist í Morgunblaðinu í júní 1994 sagði hún í grófum dráttum frá því félagslega og lagalega misrétti sem samkynhneigðir byggju við: „Enn þann dag í dag eiga samkynhneigðir það á hættu að vera útskúfaðir úr fjölskyldum ef þeir voga sér úr felum. Fordómar umhverfis svipta lesbíur og homma atvinnu og húsnæði ef þau halda einkalífi sínu ekki leyndu. Aðkast á opinberum vettvangi er hlutskipti fjölmargra. Hommar verða fyrir óhugnanlegum líkamsárásum í sjálfri Reykjavík þegar skyggja tekur. Er þá enn ónefnt það algjöra réttleysi sem samkynhneigðir búa við lögum samkvæmt. Sambúð tveggja einstaklinga af sama kyni er einskis metin; skráð sambúð er ekki til, erfðaréttur enginn, réttur til ættleiðinga og barneigna enginn, ekki er einu sinni heimilt að nýta skattkort hins aðiljans ef svo ber undir.“[5]

Ættingjar samkynhneigðra höfðu því meiri rétt en maki. Maki gat ekki farið sameiginlega með forsjá barns hins aðilans. Á sama hátt gátu ættingjar sjúklinga t.d. meinað samkynhneigðum maka hans aðgang að gjörgæsludeild sjúkrahúss og dæmi eru um að það hafi gerst.[6]

Upphaf umræðu um staðfesta samvist

Umræður á Íslandi um málefni samkynhneigðra má að mestu leyti rekja til ályktana og lagasetninga sem gerðar voru erlendis. Ísland var undir þrýstingi, sérstaklega frá öðrum Norðurlöndum, til að skapa sambúðarlöggjöf fyrir samkynhneigða. Evrópuráðið, 1. okt. 1981 og Norðurlandaráð, 1. mars 1984, komu fram með ályktanir sem báðar fjölluðu um afnám misréttis gagnvart samkynhneigðu fólki. Norðmenn juku við ákvæðum í norsk hegningarlög árið 1981 sem kváðu á um refsingu gagnvart þeim sem blésu til andúðar á samkynhneigðu fólki á opinberum vettvangi eða neituðu samkynhneigðu fólki um vöru eða þjónustu sem almenningi væri boðin í atvinnuskyni. [7]

Danir urðu fyrstir til þess að staðfesta lög um skráða sambúð tveggja einstaklinga af sama kyni árið 1989. Norðmenn fylgdu á eftir og lögfestu reglur um einstaklinga með sameiginlegt heimilishald, þar á meðal samkynhneigðra einstaklinga árið 1991. Sérstakar reglur um skráða sambúð samkynhneigðra voru síðan settar í Noregi árið 1993. Tveimur árum síðar, 1995, tóku sambærileg lög gildi í Svíþjóð. Lög Norðurlandaþjóðanna áttu öll það sameiginlegt að ættleiðingar og tæknifrjóvganir voru ekki leyfðar meðal samkynhneigðra í staðfestri samvist. [8]

Árið 1983 kom Norðurlandaráð homma og lesbía (NRH) saman í Reykjavík. Þar voru mál íslenskra homma og lesbía í brennidepli. Samþykkt var á þeim fundi ályktun til Alþingis og íslensku ríkisstjórnarinnar þar sem þess var krafist að unnið yrði að jafnrétti og verndunarlöggjöf fyrir homma og lesbíur. Einnig var í ályktuninni sett fram sú krafa að mannréttindasamþykktir Evrópuráðsins og Sameinuðu þjóðanna um afnám misréttis gagnvart minnihlutahópum yrðu virtar. [9]

Í Sjónmáli, málgagni Samtakanna ´78, kom fram að staða Íslendinga væri miklu verri en frændþjóðanna og að þeir væru tíu árum á eftir þeim í réttindabaráttunni. Ísland væri því aftarlega á merinni því lög sem tryggðu hommum og lesbíum jafnan rétt hvað varðaði atvinnu, húsnæði, sambúð, skóla og o
pinbera skemmtistaði væru ýmist til eða í undirbúningi á öðrum Norðurlöndum. Reyndar kom einnig fram að baráttuhreyfing íslenskra homma og lesbía, Samtökin ´78 sem kennd eru við stofnár sitt, væru aðeins sex ára gömul en hreyfingarnar á hinum Norðurlöndunum væru 30-40 ára gamlar.

Árið 1985 hófst umræða á Alþingi um aðstæður samkynhneigðra á Íslandi þegar Kristín S. Kvaran, þingmaður Bandalags jafnaðarmanna, bar fram þingsályktunartillögu þess efnis að ríkisstjórn skipaði nefnd til að kanna stöðu samkynhneigðs fólks hér á landi og leggja á ráðin um úrbætur. Flutningsmenn tillögunnar voru Guðrún Agnarsdóttir, Helgi Seljan og Ólafur Þ. Þórðarson. [10] Tillögunni var vísað til allsherjarnefndar og „jörðuð með kransi“ eins og orðað er í Sjónmáli. [11] Málið var látið kyrrt liggja næstu sjö ár eða allt til 1992 en þá var tillagan endurflutt svo til óbreytt að frumkvæði Kvennalistans.

Umræður á Alþingi

Flutningsmenn þingsályktunartillögunnar árið 1992 um stofnun nefndar til að kanna stöðu samkynhneigðra á Íslandi voru Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þingmaður Kvennalista, Össur Skarphéðinsson, Alþýðuflokki, Ólafur Þ. Þórðarson, Framsóknarflokki, Guðrún Helgadóttir, Alþýðubandalagi og Einar K. Guðfinnsson, Sjálfstæðisflokki. Meðal röksemda þessarar tillögu var að Norðurlandaráð hefði gagnrýnt Ísland og Finnland því þau væru einu löndin sem hefðu lítið sem ekkert gert í málum samkynhneigðra. [12] Einnig var lögð áhersla á að veita yrði öllum sama rétt, burtséð frá kynhneigð.

Guðrún Helgadóttir sagði m.a. þann 8. apríl 1992 á þingi: „Það er [. . .] í þágu samfélagsins alls að samkynhneigðir geti lifað eðlilegu fjölskyldulífi því að laumuspil eins og þetta fólk hefur orðið að búa við elur af sér miklu óæskilegri lifnaðarhætti, svo sem lausung og skyndikynni sem eru engum til góðs, hvorki samkynhneigðum né gagnkynhneigðum [. . .] Ég held það hljóti að vera takmark okkar allra að allir þegnar þjóðfélagsins fái að njóta hamingjusams fjölskyldulífs, fái að njóta þess að þurfa ekki að fara með tilfinningar sínar í felur.“ [13]

Einar K. Guðfinnsson sagði einnig þennan sama dag: „. . . vonandi má líta á það að lög sem feli í sér jafnrétti gagnvart því fólki séu líka tilkynning til samfélagsins um að löggjafarsamkoma íslensku þjóðarinnar ætlist til þess að fordómar af þessu taginu séu látnir lönd og leið, heyri fortíðinni til, enda samrýmast þeir ekki upplýstu samfélagi.“ [14]

Tillagan var samþykkt einróma á þingi 19. maí 1992 og var orðuð svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til þess að kanna stöðu samkynhneigðs fólks á Íslandi. Nefndin skal skipuð fulltrúum dómsmálaráðuneytis, menntamálaráðuneytis, félagsmálaráðuneytis og hagmunasamtaka samkynhneigðs fólks. Skal nefndin kanna lagalega, menningarlega og félagslega stöðu þess og gera tillögur og úrbætur og nauðsynlegar aðgerðir til að misrétti gagnvart samkynhneigðu fólki hverfi hér á landi.“ [15]

Ári síðar hafði þessi nefnd ekki enn hafið störf. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir bar því upp fyrirspurn til Davíðs Oddsonar forsætisráðherra og spurði hvort seinvirkni væri um að kenna eða „ákveðnum tepruskap“ eins og hún orðaði það. [16]  Davíð Oddsson svaraði því að seinaganginn mætti rekja til þess að ráðuneytin hefðu misjafnan skilning á eðli verkefna nefndarinnar og hvar bæri að vista hana. Hann hefði því ákveðið að nefndin skyldi starfa á vegum forsætisráðuneytis og verið væri að leita að formanni hjá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. [17] Að lokum fannst formaður en hann var Sigurður Júlíus Grétarsson sálfræðingur og dósent við Háskóla Íslands. Einnig áttu þar sæti Margrét Harðardóttir deildarsérfræðingur í menntamálaráðuneytinu, tilnefnd af menntamálaráðherra, Ingi Valur Jóhannsson deildarstjóri í félagsmálaráðuneytinu, tilnefndur af félagsmálaráðherra, Guðni Baldursson viðskiptafræðingur og Guðrún Gísladóttir deildarstjóri, bæði tilnefnd af Samtökunum ’78. Guðrún Gísladóttir lét af störfum í janúar 1994 og Lana Kolbrún Eddudóttir, þáverandi formaður Samtakanna ’78, kom í hennar stað. [18]

Nefndin skilaði skýrslu sinni í október 1994. Þar birtust tillögur hennar um úrbætur í málefnum samkynhneigðra. Einn þáttur tillagnanna laut að því að bæta skyldi réttarstöðu samkynhneigðra í sambúð með því að gefa þeim kost á að fá sambúð sína skráða með sömu réttaráhrifum og um hjúskap væri að ræða. [19]

Með þær tillögur til hliðsjónar var mótað lagafrumvarp um staðfesta samvist samkynhneigðra. Áður en frumvarpið var samþykkt leitaði Alþingi álits nokkurra aðila, m.a. Barnaverndarstofu og Samtakanna ’78. Samtökin ’78 lögðu til að 6. grein laganna yrði breytt á þann hátt að stjúpættleiðingar yrðu leyfðar en þau sögðu það myndi tryggja réttindi barna í fjölskyldum samkynhneigðra. [20] Barnaverndarstofa tók í sama streng og taldi að endurskoða ætti þær
undantekningar varðandi ættleiðingar og tæknifrjóvganir sem voru í frumvarpinu. Hún sagði að ekki lægi sú vitneskja fyrir að börn sem ælust upp hjá samkynhneigðum hlytu skaða af. Barnaverndarstofa taldi því að stíga bæri skrefið til fulls og heimila stjúpforeldri að ættleiða stjúpbarn sitt samkvæmt ættleiðingarlögum. Ekki var tekið tillit til þessara óska við afgreiðslu laganna þrátt fyrir undirtektir margra þingmanna. Að lokum benti Barnaverndarstofa á að æskilegt væri að þjóðkirkjan breytti afstöðu sinni til kirkjulegra vígslna þar sem það gæti orðið þungbært fyrir börn og aðstandendur samkynhneigðra að kirkjan hafni þessum hópi fólks í þessu tilliti.

Þegar lagafrumvarpið var tilbúið fór það í gegnum þingið nokkuð hratt og nær óbreytt og hinn 4. júní 1996 samþykkti Alþingi lögin um staðfesta samvist. Margir þingmenn fögnuðu lagasetningunni og sögðu hana marka tímamót í mannréttindabaráttu hér á landi. Frumvarpið var samþykkt með 44 atkvæðum gegn einu, atkvæði Árna Johnsen Sjálfstæðisflokki. Einar Oddur Kristjánsson, Sjálfstæðisflokki, greiddi ekki atkvæði og 17 þingmenn voru fjarstaddir. [21]

Athyglisvert er hversu mikil almenn ánægja var með lagafrumvarpið meðal þingmanna allra flokka. Enginn munur er á stjórnmálaflokkum vegna afstöðu til þessa máls. Þó má greina meiri velvilja vinstri manna en hægri þar sem þeir tjáðu sig oftar um málið og kröfðust þess að gengið yrði lengra en frumvarpið næði. Þá var sérstaklega átt við ættleiðingar og kirkjulegar vígslur. Eins og Guðný Guðbjörnsdóttir, þingkona Kvennalista, orðaði það: „Þó það sé alveg ljóst að það megi bæta á nokkra vegu held ég að flestir sætti sig við að ekki náist allt í sömu lotunni.“ [22] Sérstaklega var bent á nauðsyn þess að leyfa stjúpættleiðingar þar sem barn, sem kæmi inn í samvist, yrði ættleitt af þeim aðila sem ekki er kynforeldri. Ítrekað var að um réttindi barnsins væri að ræða, t.d. með því að tryggja erfðir barns eftir þann aðila sem ekki er kynforeldri. [23]

Á þessu sama þingi var lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um staðfesta samvist þar sem stjúpættleiðingar yrðu leyfðar. Vísað var til ákvæðis í samningi Sameinuðu þjóðanna, stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu þar sem lagt er bann við því að mismuna börnum. Flutningsmaður þess var Ólafur Örn Haraldsson, þingmaður Framsóknarflokks. Það hlaut ekki afgreiðslu á sínum tíma en var lagt aftur fram ári síðar. Það hefur samt ekki enn verið afgreitt og enn er verið að ræða ættleiðingarmál samkynhneigðra á þingi. (Sjá viðauka: Stjúpættleiðingar samkynhneigðra). Þrátt fyrir það ríkti mikil ánægja meðal flestra þingmanna með þetta frumvarp. „Það er skemmtileg nýbreytni hjá hæstvirtri ríkisstjórn að leggja fram frumvarp sem bætir réttarstöðu fólks,“ sagði Margrét Frímannsdóttir, þingkona Alþýðubandalags. [24]

Hvað er staðfest samvist?

Lög um staðfesta samvist fela í sér að samkynhneigðir geta stofnað til staðfestrar samvistar hjá sýslumanni eða staðgengli hans með sömu réttaráhrifum og ef um hjúskap er að ræða.
Hugtakið staðfest samvist var fundið yfir þetta sambúðarform því að það átti að verða í hugum manna aðgreint frá því sem nú er kallað skráð sambúð eða óvígð sambúð þar sem um er að ræða sambúð karls og konu sem hægt er að skrá hjá Hagstofu.

Skilyrði fyrir staðfestri samvist eru næstum því þau sömu og eiga við um hjúskap. Þó eru nokkrar undantekningar því gerð er krafa um ákveðin tengsl þeirra sem vilja staðfesta samvist sína við Ísland. (Í upphaflegri gerð laganna varð a.m.k annar einstaklinganna að vera íslenskur ríkisborgari með fasta búsetu hér á landi. Þessi ákvæði voru síðan rýmkuð árið 2000 með því að nú geta einnig erlendir ríkisborgarar sem átt hafa fasta búsetu á Íslandi í tvö ár staðfest samvist sína.)

Önnur undantekning er í 4. grein þar sem lagt er til að staðfesting samvistar verði einvörðungu í höndum borgaralegra vígslumanna en ekki í höndum kirkjulegra vígslumanna.

Í 5.grein laganna er vísað til þess að öll önnur ákvæði laga sem varða hjúskap gildi jöfnum höndum um staðfesta samvist. Meðal mikilvægustu réttaráhrifa sem í þessu sambandi má nefna að ákvæði skattalöggjafar gilda jafnt um einstaklinga í staðfestri samvist og um einstaklinga í hjúskap, ákvæði erfðalaga um gagnkvæman lögerfðarétt, reglur almannatrygginga og lög um félagslega aðstoð svo eitthvað sé nefnt.

Í 6. grein laganna má finna þá einu helstu undantekningu frá þeirri meginreglu að staðfest samvist hafi sömu áhrif og hjúskapur. Fyrstu tvær málsgreinar hennar varða börn. Þar kemur fram að ákvæði ættleiðingarlaga og reglur um heimildir til tæknifrjóvgunar, þar sem rætt er um hjón eða hjúskap, gildi ekki um staðfesta samvist. Rökstuðningur þess er að það sé að jafnaði fyrir bestu að börn eigi sér bæði föður- og móðurímynd. Hins vegar mega samkynhneigðir fara sameiginlega með forsjá þeirra barna sem koma inn í væntanlega sambúð. [25] (Við breytingar á lögunum vorið 2000 var stjúpættleiðing heimiluð, sjá viðauka).

Andmæli
gegn staðfestri samvist

Þó að þingmenn hefðu náð mikilli samstöðu um lögin um staðfesta samvist átti það ekki við um alla í þjóðfélaginu. Ýmis mótmæli bárust, einkum frá fylgismönnum ýmissa kristinna safnaða og samtaka. Nokkur blaðaskrif urðu vegna málsins og m.a. barst Morgunblaðinu ályktun hóps forystumanna ýmissa kristinna safnaða og samtaka. Þar segir meðal annars: „Hann stofnaði karl og konu í sinni mynd til að þau skyldu lifa saman og verða eitt hold. Þetta er það hjónaband sem Guð stofnaði í upphafi. Hjónaband tveggja karla og tveggja kvenna er því ósamræmanlegt kristinni trú hvort sem vígslan fer fram í kirkju eða á borgaralegan hátt. Ef yfirvöld setja í lög rétt samkynhneigðra til að giftast og ættleiða börn og viðurkenna þannig samkynhneigt líferni sem eðlilegt, verður það ekki til heilla fyrir þjóðina. Hins vegar er það til blessunar fyrir þjóðfélag okkar að löggjöf sé byggð á kristnu siðferði.“ [26] Við fyrstu umræðu á Alþingi var Árni Johnsen, þingmaður Sjálfstæðisflokks á Suðurlandi, eini þingmaðurinn sem bar upp mótbárur gegn lögunum og kaus gegn þeim. Hann gagnrýndi frumvarpið m.a. á þeirri forsendu að það veitti samkynhneigðum forréttindi umfram aðra þjóðfélagsþegna. „Ef samkynhneigt fólk á að fá sérréttindi til staðfestrar samvistar, sambúðar, eins konar vígslu framhjá kirkjunni, af hverju ættum við þá ekki að leyfa fjölkvæni eða barnagiftingar sem tíðkast víða um heim o.s.frv.?“ Hann taldi að það væri ekki mannréttindabrot að meina samkynhneigðum að giftast og ættleiða börn. Hann vísaði einnig í kristilegan boðskap og talaði um að löggjafinn byggði á kristinni trú og siðfræði. Þingmenn yrðu að taka tillit til þess. Hann sagði að lokum að löggjöfin myndi skapa fleiri vandamál en hún myndi leysa. [27]

Nokkrum árum seinna, árið 1999, birti Kristilegi lýðræðisflokkurinn í stefnuskrá sinni að flokkurinn vildi afnema lög um staðfesta sambúð fólks af sama kyni. Guðmundur Arnar Ragnarsson sem skipaði fyrsta sæti listans í Reykjavík, sagði að flokkurinn liti á sambúð fólks af sama kyni sem kynvillu. [28]

Afstaða þjóðkirkjunnar

Þjóðkirkjan hefur mikið verið gagnrýnd í fjölmiðlum vegna erfiðleika við að komast að sameiginlegri afstöðu til samkynhneigðra. Í annarri umræðu frumvarpsins á Alþingi var m.a. leitað umsagna frá biskupi Íslands og Prestafélagi Íslands.  Í svari frá stjórn Prestafélagsins kom fram að engin afstaða hefði verið tekin til löggjafarinnar og því treysti félagið sér ekki til að mæla með samþykkt þess. Það mælti með því að afgreiðsla laganna yrði látin bíða þar til slík stefna lægi fyrir. [29] Embætti biskups gerði ekki athugasemdir við „anda frumvarpsins sem stefnir að því að veita samkynhneigðum borgaraleg réttindi til jafns á við aðra þegna þessa lands.“ Hins vegar kom fram að kirkjan væri ekki reiðubúin til að heimila vígslu samkynhneigðra. Slík heimild væri ekki fyrir hendi í öðrum löndum. Samt sem áður væri kirkjan reiðubúin til að veita sálgæsluþjónustu til jafns á við aðra. Að lokum taldi embættið eðlilegast að borgaralegir aðilar leituðu sátta og heimiluðu skilnað tækjust sættir ekki. [30]

Kirkjan var gagnrýnd á Alþingi fyrir afstöðu sína og Margrét Frímannsdóttir, þingmaður Alþýðubandalags, sagði það koma sér á óvart að kirkjunnar menn skyldu ekki taka því með jákvæðu og kristilegu hugarfari að veita samkynhneigðu fólki kirkjuvígslu. Össur Skarphéðinsson, þingmaður Alþýðuflokks, lýsti þeirri skoðun sinni að fordómar fælust í afstöðu kirkjunnar og fleiri þingmenn tóku í sama streng. [31]

Viðbrögð samkynhneigðra

Er lögin tóku gildi, á alþjóðlegum frelsisdegi homma og lesbía þann 27. júní 1996, ríkti mikil hátíðarstemning meðal samkynhneigðra. Margrét Pála skrifaði í Morgunblaðið þann dag: „Mannréttindakrafa samkynhneigðra um tilfinningafrelsi mætir skilningi og stuðningi í síauknum mæli. Hjúskaparréttindi samkynhneigðra líta dagsins ljós í dag, þökk sé framsýni og kjarki ríkisstjórnar og Alþingis á Ísland. . .“ Hátíðardagskrá Samtakanna ‘78 í Borgarleikhúsinu fékk mikla fjölmiðlaumfjöllun. Þangað mætti fólk frá öllum sviðum þjóðfélagsins, þ.á.m. þáverandi forseti Íslands, Vigdís Finnbogadóttir, alþingismenn, prestar, borgarstjóri og fleiri. [32] Viðbrögð samkynhneigðra einkenndust af mikilli gleði en þeir tóku þó fram að þeir litu á nýju lögin sem stórt skref í átt að fullum réttindum, þá var sérstaklega átt við ættleiðingar, tæknifrjóvganir og kirkjulegar vígslur.33 Samtökin ’78 héldu því fram í fréttabréfi sínu að ákvæði frumvarpsins næðu ekki því takmarki að misrétti gagnvart samkynhneigðu fólki hyrfi hér á landi, en það var eitt af markmiðum þeirrar með stofnun þeirrar nefndar sem Alþingi setti um málefni samkynhneigðra. „Það gengur ekki alla leið að fullri jafnstöðu samkynhneigðs og gagnkynhneigðs fólks,“ segir þar meðal annars.[34]

Samtökin ’78 líta svo á að það vanti enn að tryggja réttindi barna samkynhneigðra þrátt fyrir að samvistarlöggjöfin á Norðurlöndum hafi verið stórt skref í jafnréttisátt. Samkv&a
elig;mt fréttatilkynningu segja Samtökin ’78 að: „Hagsmunir barnanna eru ekki hafðir að leiðarljósi eins og best sést á því að fólk í staðfestri samvist gefst ekki kostur á að stjúpættleiða barn og alls staðar nema á Íslandi geta þeir ekki farið sameiginlega forsjá barns. Þessu verður að breyta og gefa samkynhneigðum fullan rétt varðandi forsjá og stjúpættleiðingu barna sem tilheyra fjölskyldum þeirra.“ [35]

Áberandi var að í viðtölum og fjölmiðlaumfjöllun í tengslum við lagasetninguna lögðu hommar og lesbíur meiri áherslu á hið innra frelsi sem þau höfðu öðlast fremur en hin borgaralegu réttindi. „Það sem stóð upp úr í morgun var að finna fyrir þessu tilfinningalega frelsi; að mega elska og segja það upphátt. Það er stærra fyrir okkur en nokkurn tíma lagalega hliðin; skattarnir og allt það,“ sagði Percy B. Stefánsson í samtali við blaðamann Morgunblaðsins.[36] „Mér fannst við ekki vera frjálsar fyrr en við fengum sömu réttindi og annað fólk,“ sagði Guðrún Elísabet Jónsdóttir í viðtali við DV. Hún og eiginkona hennar, Valgerður Marteinsdóttir, sögðust hafa liðið mun betur eftir giftinguna. Þær gætu nú stoltar sýnt sig saman og vilji ekki lengur fela sig fyrir neinum. Þær hafi áður oft skammast sín fyrir að vera samkynhneigðar og reynt að afneita því.

Margrét Pála Ólafsdóttir fær að eiga lokaorðin sem lýsa í hnotskurn afstöðu homma og lesbía: „Enn er eftir að tryggja samkynhneigðum rétt til kirkjulegrar vígslu svo og að veita heimild til ættleiðinga og tæknifrjóvgana til þess að samvist samkynhneigðra sé viðurkennd á sama hátt og hjónabönd annarra. Þrátt fyrir það er Ísland nú fremst í flokki þeirra ríkja sem veita lesbíum og hommum lögverndaðan rétt til að staðfesta sambúð sína með gagnkvæmum réttindum og skyldum og vonandi munu aukin réttindi á næstu árum gera íslensku samfélagi kleift að vera áfram í fararbroddi mannréttinda okkar,“ sagði Margrét Pála. [37]

Samantekt og umræður

Umræða um staðfesta samvist samkynhneigðra á rætur að rekja til baráttu Samtakanna ’78 og ekki síst til sambærilegra laga sem sett voru á Norðurlöndum. Alþingi hafði því ekki beint frumkvæði að þessum málum og óvíst er að lögin hefðu nokkurn tíma verið samþykkt nema af því að nágrannaþjóðir höfðu gert það líka. Lögin á Norðurlöndum voru höfð til hliðsjónar við gerð íslensku laganna. Aukin alþjóðavæðing og samskipti milli þjóða voru því beinn áhrifavaldur, bæði í þessari lagasetningu og í afstöðu kirkjunnar. Alþingi sagðist þurfa að búa til og samþykkja lögin til að vera ekki eftirbátur annarra og kirkjan vildi ekki taka forystu um að leyfa kirkjulegar vígslur því að það hefði ekki verið gert annars staðar

Þær undantekningar sem gerðar voru á lögunum varðandi rétt til ættleiðinga og tæknifrjóvgana eru til samræmis þeim sem gerðar hafa verið á Norðurlöndum. Þau ákvæði hafa valdið einna mestri óánægju meðal samkynhneigðra og þeir hafa lýst því yfir að baráttu þeirra fyrir fullum réttindum á við gagnkynhneigða sé ekki lokið. Þar hafa þeir aðallega bent á hversu brýnt er að fá heimild til stjúpættleiðinga þar sem um réttindi barna þeirra sé að ræða. (Sjá viðauka: Stjúpættleiðingar samkynhneigðra).

Umræðan um málefni samkynhneigðra á Alþingi hófst árið 1985 en ekki fyrir alvöru fyrr en 1992 þegar þingsályktunartillaga um stofnun nefndar til að kanna stöðu samkynhneigðra á Íslandi var samþykkt. Skýrsla og tillögur nefndarinnar bárust Alþingi tæpum tveimur árum síðar eða í október 1994. Árið 1996, eða um einu og hálfu ári síðar, voru lögin um staðfesta samvist samþykkt. Ferlið var í raun fjögur ár sem má telja nokkuð langan tíma. Málið þótti nokkuð nýstárlegt og ekki var fordæmi fyrir slíku áður á Alþingi. Því voru menn ekki sammála um undir hvaða ráðuneyti það heyrði, á endanum fór það undir forsætisráðuneyti.

Lögin hlutu nokkuð skjóta meðhöndlun á Alþingi að því leyti að ekki var mikið deilt um þau og lögð var áhersla á að hraða þeim í gegn því um brýnt mannréttindamál væri að ræða. Helstu mótmæli sem komu fram voru á þá leið að lögin hefðu mátt ganga enn lengra og leyfa stjúpættleiðingar. Gagnrýni á lögin og á opinskáa umræðu um stöðu samkynhneigðra komu helst úr röðum þeirra sem kenndu sig við kristna trú og siðferði. Talið var að vígsla samkynhneigðra samrýmdist ekki orðum Biblíunnar. Árni Johnsen var eini þingmaðurinn sem tjáði sig um málið á þeim nótum. Ekki var vísað til orða Biblíunnar þar sem stendur að allir menn skuli standa jafnir frammi fyrir Guði, eða að menn skuli elska náunga sinn eins og sjálfa sig. Enda hlaut gagnrýni úr þessum röðum lítinn hljómgrunn jafnt meðal almennings og þingmanna.

Með lögum um staðfesta samvist færði Ísland sig nær því sem var að gerast á hinum Norðurlöndunum og gekk aðeins lengra með því að veita samkynhneigðum pörum rétt til sameiginlegrar forsjár barns eða barna sem koma inn í sambúð. Sameiginleg forsjá tryggir að ef kynforeldri fellur frá mun uppeldisforeldri barnsins halda forsjá þess ef þess er óskað. Sameiginleg forsjá er hins vegar ekki eins afge
randi og stjúpættleiðing og tryggir ekki barni erfðarétt eftir uppeldisforeldri nema með sérstakri erfðaskrá. Ákvæði laganna gefur samkynhneigðum því ekki kost á að tryggja börn sín með sama hætti og gagnkynhneigðir geta gert með stjúpættleiðingu. (Sjá viðauka: Stjúpættleiðingar samkynhneigðra).

Þessi lagasetning var brýn fyrir samkynhneigða og samfélagið allt. Hin vestrænu samfélög hafa þjáðst af margvíslegum fordómum gagnvart hommum og lesbíum. Að vísu útrýma lög ein og sér ekki fordómum en þau eru mikilvægur áfangi í réttindabaráttu eins og þeirri sem samkynhneigt fólk hefur háð síðustu áratugi. Því bæta þau úr því misrétti sem hefur viðgengst í samfélagi okkar. Lögin um staðfesta samvist voru mikil réttarbót fyrir samkynhneigða hvað varðar t.d. erfðir, félagsleg réttindi og skyldur en þau höfðu ekki síður mjög táknræn áhrif. Þau voru í augum samkynhneigðra staðfesting og viðurkenning samfélagsins á tilveru þeirra og réttindum og höfðu jákvæð áhrif á sjálfsvitund og sjálfstraust samkynhneigðra.

Samkvæmt þeirri umfjöllun sem átti sér stað um málefni samkynhneigðra á Alþingi er ljóst að afstaða manna virðist ekki ráðast af pólitík. Það var enginn áberandi munur milli flokka og þeir stóðu allir að tillögunni um stofnun nefndar vegna málefna samkynhneigðra. En mesti áhrifavaldur í þá átt að staða samkynhneigðra á Íslandi var bætt með þessum hætti var þrýstingur frá Norðurlöndunum þar sem sambærileg lög höfðu verið samþykkt. Alþingismenn hrósuðu sjálfum sér óspart fyrir framsýni, kjark og dugnað í mannréttindamálum þó að þeir hefðu ekki átt raunverulegt frumkvæði í þessu máli. Þeir svöruðu þrýstingi hagsmunahópa, aðallega Samtakanna ’78, og þrýstingi frá öðrum Norðurlöndum.

Barátta samkynhneigðra fyrir auknum réttindum er enn virk í dag og nýverið hefur farið fram mikil umræða um ættleiðingar samkynhneigðra og kirkjulega vígslu. Þar hefur sýnst sitt hverjum. Spennandi er að sjá hvert sú umræða mun leiða og hvaða mynd réttindabarátta samkynhneigðra mun taka í framtíðinni.

Viðauki

Stjúpættleiðingar samkynhneigðra

Nokkuð vatn er runnið til sjávar eftir að þessi grein var upphaflega skrifuð og réttindi samkynhneigðra hafa enn aukist. Hinn 8. maí árið 2000 voru afgreidd lög frá Alþingi sem heimila stjúpættleiðingar barna fólks í staðfestri samvist. Ísland var annað landið í heiminum, á eftir Danmörku, þar sem þessi réttur var lögfestur. Samkynhneigðir geta þó enn ekki leitað eftir tæknifrjóvgun eða frumættleiðingu barna.  Stjúpættleiðingar eiga helst við þegar lítil eða engin tengsl eru milli barnsins og hins forsjárlausa foreldris. Barnið er alið upp hjá þeim sem vill ættleiða barnið og ættleiðingin tryggir hagsmuni og réttindi barnsins, m.a. erfðarétt. Barninu er því tryggður raunverulegur stuðningur tveggja í foreldrahlutverkinu.

Hollendingar hafa orðið brautryðjendur í ættleiðingarmálum samkynhneigðra. Haustið 2000 voru samþykkt þar í landi lög um hjónaband samkynhneigðra og ættleiðingar sem ganga mun lengra en dönsku og íslensku lögin. Þar geta tveir einstaklingar af sama kyni í sambúð, staðfestri samvist eða hjónabandi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sótt um að ættleiða börn sem fædd eru í Hollandi en ekki frá öðrum ríkjum.

Þorvaldur Kristinsson, núverandi formaður Samtakanna ’78, segir að réttur til frumættleiðinga hafi ekki síst siðferðilegt gildi fyrir samkynhneigða. „Með því að meina okkur frumættleiðingar barna er verið að gefa í skyn að við séum óæðri öðrum. Hins vegar er þess langt að bíða að fjarlæg ríki eins og Kína og Kólumbía muni fallast á ættleiðingar til samkynhneigðra og frumættleiðingar barna af íslenskum uppruna eru teljandi á fingrunum á hverju ári – og þeim fer fækkandi. Það er því fyrst og fremst rétturinn til stjúpættleiðinga sem hefur raunverulegt gildi því hann veitir börnum í hjónaböndum okkar mikla réttarvernd.“

Lög um ættleiðingar gera ráð fyrir því að einstaklingur sem hvorki er í sambúð eða hjónabandi geti ættleitt barn ef sérstaklega stendur á og ættleiðingin ótvírætt talin barninu til hagsbóta. Dæmi er um að samkynhneigður einstaklingur hafi fengið slíkt leyfi en þá var tekið skýrt fram að viðkomandi hafi verið sérstaklega vel hæfur til að sinna uppeldi barns. Þetta kom fram í máli Anni G. Haugen, félagsráðgjafa á Barnaverndarstofu, á fundi Samtakanna ´78 um börn og barneignir samkynhneigðra 15. apríl árið 2000. Samkynhneigt par í staðfestri samvist á því enn ekki kost á að ættleiða barn með frumættleiðingu. Aftur á móti er ekki spurt um kynhneigð ef einstaklingur fer fram á hið sama.

(Grein þessi var upphaflega ritgerð, samin á námskeiðinu Fjölmiðlun og íslenskt þjóðfélag hjá Gunnari Helga Kristinssyni, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, haustið 1999.)

——————————————————————————–
1 Svavar Gestsson http://www.althingi.is/altext/120/06/r03191651.sgml 29. sept. 1999
2 Mbl. 28. júní 1996 „Fyrstu pörin gefin saman“
3 Mbl. 27. júní 1996 „Lesbíur og hommar til hamingju!“ Margrét Pála Ólafsdóttir
4 Pressan,
3. ágúst 1989 „Viðhorf fólks fer batnandi“
5 Mbl. 25. júní 1994 „Íslenskt lýðveldi fyrir alla. Lesbíur og hommar krefjast aðildar“
6 Ingibjörg Sólrún Gísladóttir http://www.althingi.is/altext/115/04/r08232100.sgml 9. nóv. 1999
7 Þskj. 564. Frumvarp til laga um staðfesta samvist: http://www.althingi.is/altext/120/s/0564.html 7.sept. 1999
8 Sama
9 Úr felum,júní 1984, nr.4 bls. 18-19
10 Alþingistíðindi þingskjöl 1985: 1791-1976. Þingskjal 138
11 Sjónmál, 1.tbl. 1. ár maí 1991 39 19. júní „Hinsegin fjölskyldur“
12 Guðrún Helgadóttir http://www.althingi.is/altext/115/04/r08233200.sgml 29. sept. 1999
13 Sama
14 Einar K. Guðfinnsson http://www.althingi.is/altext/115/04/r08233700.sgml 29. sept. 1999
15 1050. Þingsályktun http://www.althingi.is/altext/115/s/1050.html 29. sept. 1999
16 Ingibjörg Sólrún Gísladóttir http://www.althingi.is/altext/116/05/r06105700.sgml 29. sept. 1999
17 Forsætisráðherra Davíð Oddsson http://www.althingi.is/altext/116/05/r6105848.sgml 29. sept. 1999
18 Dómsmálaráðherra Þorsteinn Pálsson http://www.althingi.is/altext/116/05/r06105848.sgml 29. sept. 1999
19 Sama
20 Dbnr. 1339, kom 10. apríl 1996 (Samtökin ’78)
21 Staðfest samvist frh. 3. umr. http:// www.althingi.is/altext/120/06/l03241836.sgml 29. sept. 1999
22 Guðný Guðbjörnsdóttir http://www.althingi.is/altext/120/06/r03191326.sgml 29. sept. 1999
23 Ólafur Örn Haraldsson http://www.althingi.is/altext/120/03/r05180718.sgml 27. sept. 1999
24 Margrét Frímannsdóttir http://www.althingi.is/altext/120/03/r/05181310.sgml 27. sept. 1999
25 Lög um staðfesta samvist: http://www.althingi.is/lagas/nuna/1996087.html 27. sept. 1999, Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) http:www.althingi.is/altext/120/03/r05175453.sgml 27. sept. 1999
26 Mbl. 14. feb. 1996 „Löggjöf byggð á kristnu siðferði“
27 Árni Johnsen http://www.althingi.is/altext/120/03/r05190204.sgml 27. sept. 1999
28 Mbl. 13. apríl 1999 „Vilja banna fóstureyðingar og sambúð samkynhneigðra“
29 Dbnr. 1336. Kom 10. 04. 1996. Prestafélag Íslands (umsögn)
30 Dbnr. 1656. Kom 23. 04. 1996 Biskup Íslands (umsögn)
31 Mbl. 8. mars 1996 „Kirkjan gagnrýnd fyrir að mæla gegn vígslu.“
32 DV 29. júní 1996 „Ógleymanlegur hamingjudagur“, DV 27. júní 1996 „Fyrstu pörin í staðfesta samvist“, Mbl. 28. júní 1996 „Fyrstu pörin gefin saman“
33 DV 22. júní 1996 „Eðlilegt framhald á margra ára ástarsambandi“
34 Samtakafréttir, úgefandi: Samtökin ´78
35 Mbl. 21. nóv. 1996. „Samkynhneigðir krefjast fullra réttinda á öllum Norðurlöndum“
36 Mbl. 28. júní 1996 „Fyrstu pörin gefin saman“
37 Mbl. 27. júní 1996 „Lesbíur og hommar til hamingju!“ Margrét Pála Ólafsdóttir
39 Sama
40 Sama

Heimildir
1050. Þingsályktun http://www.althingi.is/altext/115/s/1050.html 29. sept. 1999
Alþingistíðindi þingskjöl 1985: 1791-1976. Þ.skj. 138
Árni Johnsen http://www.althingi.is/altext/120/03/r05190204.sgml 27. sept. 1999
Dbnr. 1223, kom 21.3. 1996. Böðvar Magnússon, Bjarnastaðavör 4 (áskorun)
Dbnr. 1336. Kom 10. 04. 1996. Prestafélag Íslands (umsögn)
Dbnr. 1339, kom 10. apríl 1996 (Samtökin ’78)
Dbnr. 1656. Kom 23. 04. 1996 Biskup Íslands (umsögn)
Dómsmálaráðherra Þorsteinn Pálsson: http://www.althingi.is/altext/116/05/r06105848.sgml 29. sept. 1999
DV 22. júní 1996 „Eðlilegt framhald á margra ára ástarsambandi“
DV 27. júní 1996 „Fyrstu pörin í staðfesta samvist“
DV 29. júní 1996 „Ógleymanlegur hamingjudagur“
Einar K. Guðfinnsson http://www.althingi.is/altext/115/04/r08233700.sgml 29. sept. 1999
Forsætisráðherra Davíð Oddsson http://www.althingi.is/altext/116/05/r6105848.sgml 29. sept. 1999
Guðný Guðbjörnsdóttir http://www.althingi.is/altext/120/06/r03191326.sgml 29. sept. 1999
Guðrún Helgadóttir http://www.althingi.is/altext/115/04/r08233200.sgml 29. sept. 1999
Hagstofa Íslands, tafla 2.2 „Breytingar mannfjöldans 1976-1988“, sent í tölvupósti frá Heiðrúnu Sigurðardóttir.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir http://www.althingi.is/altext/115/04/r08232100.sgml 9. nóv. 1999
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir http://www.althingi.is/altext/116/05/r06105700.sgml 29. sept. 1999
Lög um staðfesta samvist: http://www.althingi.is/lagas/nuna/1996087.html 27. sept. 1999
Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) http:www.althingi.is/altext/120/03/r05175453.sgml 27. sept. 1999
Margrét Frímannsdóttir http://www.althingi.is/altext/120/03/r/05181310.sgml 27. sept. 1999
Mbl. 13. apríl 1999 „Vilja banna fóstureyðingar og sambúð samkynhneigðra“
Mbl. 14. feb. 1996 „Löggjöf byggð á kristnu siðferði“

Mbl. 21. nóv. 1996. „Samkynhneigðir krefjast fullra réttinda á öllum Norðurlöndum“
Mbl. 25. júní 1994 „Íslenskt lýðveldi fyrir alla. Lesbíur og hommar krefjast aðildar“
Mbl. 27. júní 1996 „Lesbíur og hommar til hamingju!“ Margrét Pála Ólafsdóttir
Mbl. 28. júní 1996 „Fyrstu pörin gefin saman“
Mbl. 8. mars 1996 „Kirkjan gagnrýnd fyrir að mæla gegn vígslu.“
Ólafur Örn Haraldsson http://www.althingi.is/altext/120/03/r05180718.sgml 27. sept. 1999
Pressan Samtakafréttir, úgefandi: Samtökin ‘78
Sjónmál, 1.tbl. 1. ár maí 1991
Staðfest samvist frh. 3. umr. http:// www.althingi.is/altext/120/06/l03241836.sgml 29. sept. 1999
Svavar Gestsson http://www.althingi.is/altext/120/06/r03191651.sgml 29. sept. 1999
Þskj. 564. Frumvarp til laga um staðfesta samvist http://www.althingi.is/altext/120/s/0564.html 27.sept. 1999
Úr felum, júní 1984, nr.4 bls. 18-19
Ættleiðingar http://www.althingi.is/dba-bin/ferill.pl?ltg=125&mnr=68 11. nóv. 1999, 3. ágúst 1989 „Viðhorf fólk fer batnandi“

Copyright © Ingibjörg Ólafsdóttir
Tilvitnun er öllum heimil sé heimildar getið

Leave a Reply