Samtökin ‘78 hafa gert þjónustusamninga við ýmis sveitarfélög um hinsegin fræðslu í grunnskólum. Hér eru upplýsingar um þá fræðslu Samtakanna ’78 sem ætluð er grunnskólabörnum. Allt efni byggir að grunni til á fræðsluvefnum okkar Hinsegin frá Ö til A
Af hverju hinsegin fræðsla?
Hinsegin fræðsla styður við mannréttinda- og jafnréttiskennslu í grunnskólum og hefur hæfniviðmið aðalnámskrár til grundvallar.
Markmið fræðslunnar er einnig að búa hinsegin börnum og ungmennum, sem og börnum hinsegin foreldra, öruggara umhverfi. Fræðslan eykur sýnileika hinsegin fólks og stuðlar að opnara og frjálsara skólasamfélagi, sem gagnast öllum börnum.
Hvernig fer fræðslan fram?
Fræðsluerindi í grunnskólum samanstanda af fyrirlestri og umræðutíma. Hver fræðsla er á bilinu 30-80 mínútur, en oftast ein kennslustund. Við leggjum áherslu á að mæta nemendum þar sem þau eru stödd og nægur tími gefst í umræður og spurningar.
Kennari fylgir bekknum alltaf í hinsegin fræðslu hjá Samtökunum ‘78, enda er mikilvægt að kennarar geti tekið umræðu með börnunum í framhaldi fræðslunnar.
Eftir fræðsluna fylla nemendur á mið- og unglingastigi út endurgjafarblöð.
3. bekkur
Hér má sjá kennsluáætlun (smellið á myndina til að stækka hana) og þær glærur sem notaðar eru til stuðnings á yngsta stigi. Miðað er við 3. bekk.
6. bekkur
Hér má sjá kennsluáætlun (smellið á myndina til að stækka hana) og þær glærur sem notaðar eru til stuðnings á miðstigi. Miðað er við 6. bekk.
9. bekkur
Hér má sjá kennsluáætlun (smellið á myndina til að stækka hana) og þær glærur sem notaðar eru til stuðnings á unglingastigi. Miðað er við 9. bekk.
Hverjir eru fræðararnir?
Fræðslustýra Samtakanna ’78 hefur umsjón með öllu fræðslustarfi, vinnur fræðsluefnið og sér um þjálfun og undirbúning fræðara.
Fræðslustýra er Edda Sigurðardóttir en hún hefur margra ára kennslureynslu bæði í leik- og grunnskólum, er menntaður heimspekingur og kennari. Hún hlaut ásamt samkennurum sínum hvatningarverðlaun Skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur árið 2023 fyrir framsækið námsefni um hinseginleika fyrir unglingastig grunnskóla.
Fræðarar Samtakanna ‘78 eru öll sérstaklega vel að sér í málefnum hinsegin fólks, eru hinsegin sjálf, auk þess að hafa fjölbreytta reynslu af þátttöku og starfi innan hinsegin samfélagsins og með öðru hinsegin fólki. Þau hafa einnig fjölbreytta menntun allt frá kynjafræði, íþrótta- og heilsufræði, tómstunda- og félagsmálafræði og félagsráðgjöf. Þau hafa líka reynslu af því að starfa með ungu fólki á sviði leiklistar og/eða félagsmiðstöðva.
Við þjálfun fræðara er lögð áhersla á að mæta hverjum nemendahóp þar sem hann er staddur, rætt um ólíkan þroska og skilning barna eftir aldri og gildi spurninga frá nemendunum sjálfum.
Er sveitarfélagið þitt með samning við Samtökin?
Samtökin ’78 hafa gert fræðslusamninga við þessi sveitarfélög. Til að bóka fræðslu þar eða til að athuga hvort að þinn skóli falli undir fræðslusamninginn vinsamlegast hafðu samband til að fá nánari upplýsingar.