Hlaut heiðursmerki 2021
Stjórn Samtakanna ’78, félags hinsegin fólks á Íslandi, heiðrar Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir ómetanlegt framlag hennar í þágu hinsegin fólks og veitir henni heiðursmerki félagsins í dag, 27. júní, á alþjóðlegum baráttudegi hinsegin fólks og afmæli bæði laga um staðfesta samvist og einna hjúskaparlaga.
Jóhanna Sigurðardóttir tók fyrst sæti á þingi árið 1978, sama ár og Hörður Torfason, Guðni Baldursson og fleiri stofnuðu Samtökin ‘78. Hún var áberandi stjórnmálamaður og sat á þingi samfleytt til ársins 2013, síðast sem forsætisráðherra Íslands. Eftir hrun efnahagskerfisins árið 2008 kom nefnilega á daginn að engri manneskju var betur treyst til að endurreisa Ísland en einmitt Jóhönnu Sigurðardóttur.
Ásamt því að vera fyrsta íslenska konan til þess að gegna embætti forsætisráðherra, þá tók fyrsti opinberlega samkynhneigði forsætisráðherra heims við stjórn landsins í febrúarbyrjun árið 2009. Þegar Jóhanna komst til hæstu metorða mölbraut hún því glerþakið svokallaða, í fleiri en einum skilningi.
Á þessum tíma var tíðarandinn þannig að það þótti nánast aukaatriði að Jóhanna væri lesbía, eins og það væri sjálfsagt að hinsegin manneskja gegndi valdamesta embætti landsins.
En það var auðvitað ekki sjálfsagt og gerðist ekki af sjálfu sér. Á meðan Samtökin ‘78 unnu hörðum höndum að því að breyta viðhorfum samfélagsins til homma og lesbía á níunda og tíunda áratugnum, bjó Jóhanna við ótta um afhjúpun og að kynhneigð hennar yrði notuð gegn henni á pólitískum vettvangi, og ekki að ósekju. Árið 2000 tóku hún og Jónína Leósdóttir loksins skrefið eftir margra ára samband og hófu sambúð, en gerðu ekki mikið úr kynhneigð sinni opinberlega.
Þegar Jóhanna svo tók við forsætisráðherraembættinu árið 2009 voru persónulegir hagir hennar það sem allra augu beindust að. Á einni nóttu varð Jóhanna að fyrirmynd fyrir milljónir manna um allan heim, einmitt fyrir að vera sú sem hún var. Saga Jóhönnu Sigurðardóttur er því saga gífurlegra andstæðna, en einnig saga þrautseigju og sigurs sem endurspegla að miklu leyti réttindabaráttu samkynhneigðra á Íslandi. Jóhanna Sigurðardóttir sýndi svo um munaði að hinsegin fólki væru allir vegir færir.
Sýnileiki Jóhönnu í embætti skipti máli fyrir hinsegin fólk um víða veröld, enda ekki á hverjum degi sem samkynja par fer í opinberar heimsóknir fyrir hönd þjóðríkis. Eftir að Jóhanna lét af embætti hefur hún svo tekið virkan þátt í réttindabaráttu hinsegin fólks og hefur m.a. komið fram á Pride hátíðum víða um heim. Jónína skrifaði stórmerkilega sögu þeirra hjóna í bókinni Við Jóhanna og gaf út árið 2013.
Í dag eru 25 ár liðin frá gildistöku laga um staðfesta samvist og 11 ár frá gildistöku einna hjúskaparlaga. Jóhanna og Jónína voru með þeim fyrstu til að ganga í hjónaband eftir að ein hjúskaparlög voru samþykkt, lög sem ríkisstjórn Jóhönnu setti á dagskrá. Þær eiga því brúðkaupsafmæli í dag og við óskum þeim til hamingju með daginn.
Samtökunum ’78 er sannur heiður að því að mega sæma fyrsta opinberlega samkynhneigða forsætisráðherra heims og mikilvæga fyrirmynd – bæði hér á Íslandi og alþjóðlega – heiðursmerki sínu. Tími Jóhönnu Sigurðardóttur kom svo sannarlega – og okkar allra um leið.
Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna ’78