Skip to main content
search
Uncategorized

Stígum skrefið til fulls

By 15. janúar, 2008No Comments

Árið 1985 var þingsályktunartillaga um afnám misréttis gagnvart samkynhneigðu fólki í fyrsta sinn borin fram á Alþingi. Tillögunni var vísað til allsherjarnefndar þar sem hún dagaði uppi. Skriður komst ekki á málið fyrr en sjö árum síðar þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir þá þingmaður Kvennalistans bar það óbreytt upp að nýju í félagi við Össur Skarphéðinsson, Ólaf Þ. Þórðarson, Guðrúnu Helgadóttur og Einar Kr. Guðfinnsson.

Í þetta sinn samþykkti þingheimur tillöguna nær einróma og í kjölfarið var skipuð nefnd sem hafði það hlutverk að „…kanna lagalega, menningarlega og félagslega stöðu [samkynhneigðra] og gera tillögur um úrbætur og nauðsynlegar aðgerðir til að misrétti gagnvart samkynhneigðu fólki hverfi hér á landi.“ Þetta var árið 1992. 

Með lögum um staðfesta samvist árið 1996 og viðbótum og breytingum við þau 2000 og 2006 má segja að þingheimi hafi orðið að ósk sinni – að minnsta kosti hvað hið lagalega misrétti varðar. Réttarstaða fólks á Íslandi er nú hin sama óháð kynhneigð og lagalegt misrétti nánast horfið. Það eina sem út af stendur er heimild trúfélaga til þess að framkvæma löggerninginn staðfesta samvist. Þjóðkirkjan hefur all lengi þvælst fyrir í því máli og löggjafinn að sama skapi „hlíft“ henni við slíkri lagasetningu. Vilji nokkurra frjálslyndari trúfélaga svo sem Fríkirkjunnar í Reykjavík, Fríkirkjunnar í Hafnarfirði og Ásatrúarfélagsins hefur verið fyrir borð borinn.  

Með gagnmerkri viljayfirlýsingu Þjóðkirkjunnar frá því á Kirkjuþingi í haust þess efnis að prestum hennar verði heimilt að staðfesta samvist samkynhneigðra fáist til þess heimild í lögum ætti ríkisstjórninni, með gamla flutningsmenn tillögunnar um afnám   misréttis innanbúðar, þau Ingibjörgu Sólrúnu, Össur og Einar, ekki að verða skotaskuld úr því að kippa því í liðinn. Þá yrði sýnilegt misrétti fyrir lögum úr sögunni en eftir stæðu tveir samsvarandi lagabálkar um hjúskaparréttindi fólks, annars vegar hjúskaparlögin og hins vegar lög um staðfesta samvist. Fyrir liggur að þessir lagabálkar fela í sér nákvæmlega sömu réttindi og sömu skyldur.

Þetta er gott og blessað svo langt sem það nær. Frumvarp Kolbrúnar Halldórsdóttur og fleiri þingmanna um breytingu á hjúskaparlögum sem nú liggur fyrir á Alþingi er hins vegar eðlilegt næsta skref. Með þeirri einföldu breytingu að fella burt orðin „maður og kona“ úr hjúskaparlögum og tryggja þess í stað að tveir fullveðja einstaklingar geti gengið í hjónaband er komið í veg fyrir að við sitjum uppi með tvenn algjörlega samsvarandi lög um sama fyrirbærið; hjúskap fólks. Fimm ríki hafa nú þegar stígið slíkt skref, en þau eru Belgía, Holland, Kanada, Spánn og S-Afríka. Þau lönd hafa öll ein hjúskaparlög þar sem ekki er gerður greinarmunur eftir kyni. Fleiri ríki svo sem Svíþjóð íhuga að fylgja fordæmi þeirra. 

Ein hjúskaparlög gefa samkynhneigðum og fjölskyldum þeirra skýr skilaboð og hafa djúpa tilfinningalega þýðingu. Með þeirri leiðréttingu á réttarstöðu samkynhneigðra sem þing og þjóð hafa verið samstíga um á undanförnum árum eru rökin fyrir tvennum hjúskaparlögum einfaldlega að engu orðin. Þau eru orðræða aðskilnaðar, hártoganir um hugtök sem engan annan tilgang hafa en að draga fólk í dilka.

Það er skoðun Samtakanna ´78 að orð þingsályktunartillögunnar frá 1992 um afnám alls lagalegs misréttis nái þá fyrst að rætast þegar sömu hjúskaparlög verða leidd í lög óháð kynhneigð. -HT

Greinin birtist í Fréttabréfi Samtakanna '78 í janúar 2008

Leave a Reply