Skip to main content
Fréttir

Vel heppnaður stjórnmálafundur í Samtökunum '78

By 21. apríl, 2009No Comments

Það voru góðir straumar sem léku um Regnbogasalinn á stjórnmálafundi sem efnt var til í aðdraganda kosninga. Fulltrúar allra flokka voru mættir á fundinn að Lýðræðishreyfingunni undanskilinni. Frá Sjálfstæðisflokknum kom Erla Ósk Ásgeirsdóttir, frá Frjálslyndum kom Helga Þórðardóttir, frá Vinstri Grænum kom Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, frá Samfylkingunni kom Helgi Hjörvar, frá Borgarahreyfingunni kom Valgeir Skagfjörð og frá Framsóknarflokknum kom Einar Skúlason.

Tæplega 30 manns sóttu fundinn sem var í senn málefnalegur og skemmtilegur. Svanfríður Lárusdóttir stýrði fundinum en í upphafi fundar fluttu Frosti Jónsson formaður Samtakanna ’78 og Anna Jonna Ármannsdóttir formaður Trans-Ísland stutt erindi þar sem tæpt var á stöðu hinsegin fólks í íslensku samfélagi og því fjölbreytta starfi sem fer fram á þeirra vettvangi. Þá fluttu frambjóðendur stutta framsögu og kynntu stefnumál sín en að því loknu svöruðu þeir spurningum úr sal.

Meðal þeirra mála sem voru rædd var hjúskaparlöggjöfin, málefni transgender fólks, fræðslumál, ættleiðingar, breytingar á stjórnarskrá og margt fleira. Í máli allra frambjóðenda kom fram sú afstaða að rétt og eðlilegt sé að sameina hjúskaparlöggjöfina í eina í stað þeirrar tvískiptu löggjafar sem nú er. Þá voru málefni transgender fólks rædd en afar brýnt er að gera bragarbót á réttindum þessa hóps í íslensku samfélagi. Í umræðum var einnig vakin athygli á því hversu lítið virðist vera að finna um samkynhneigða á kosningavefum flokkanna þó ekki hafi fengist einhlít skýring á því hvers vegna svo er. Fundurinn þótti takast í alla staði mjög og undirstrikar mikilvægi þess að hinsegin fólk upplýsi samfélagið um réttar- og félagslega stöðu sína enda er það forsenda breytinga og afnáms misréttis gagnvart því.

FJ

Leave a Reply