Skip to main content
search
Uncategorized

Lesbísk stjórnmálakona skekur þingheim í Japan

By 15. september, 2007No Comments

Vopnuð giftingarhring og háum hugsjónum marserar Kanako Otsuji inn á þing í Japan þessa dagana og er þar með fyrsti opinberlega samkynhneigði þingmaður landsins. Markmið hennar er aðeins eitt: Að breyta gangi sögunnar. Fyrr í sumar giftist Kanako unnustu sinni til fjögurra ára, Maki Kimura, á Gay Pride hátíð í Nagoya, Japan.

Þúsundir voru viðstaddir athöfnina og sagði Kanako að með því að gifta sig opinberlega væri hún að skapa fyrirmynd fyrir hina fjölmörgu Japana sem búa í skápnum og hafa ekki fyrirmyndir í heimalandi sínu til að líta upp til. 

Tilvera samkynheigðra hefur verið óopinberlega viðurkennd í Japan um langt skeið, en engin lög eru til þar í landi sem varða rétt samkynheiðgra til giftinga eða staðfestrar sambúðar, og því er brúðkaup þeirra Kanako og Maki ólöglegt með öllu og ekki viðurkennt fyrir lögum. Þessu hyggst Kanako breyta og segir að með því að hafa komist inn á þing í Japan sé hún komin í aðstöðu til að breyta því hvernig málum er háttað í sínu heimalandi, ásamt því að vera sýnileg fyrirmynd fyrir stóran en mjög svo ósýnilegan hóp samkynhneiðgra í Japan. Því þrátt fyrir að brúðkaup þeirra Maki sé dæmt dautt og ómerkt fyrir lögum, hafi það verið fallegasta stundin í lífi hennar og hún hætti ekki fyrr en samkynhneigðir Japanir geti notið þeirra mannréttinda að geta gifst maka sínum.

En það verður á brattann að sækja fyrir Kanako þrátt fyrir að vera hugsjónamanneskja með háleit markmið. Hin lögfræðimenntaða þingkona verður einungis ein af örfáum konum á Japanska þinginu, en Japan er hundraðasta sæti af 138 löndum hvað varðar hlutfall kvenna á þingi, en þar eru konur í einungis um 10% þingsæta. Japan er mjög íhaldssamt land hvað varðar umfjöllun um kynferðismál almennt og hlutur kvenna í ráðandi stöðum í þjóðfélaginu almennt mjög lítill.

Kanako telur sjálf raunhæft að það taki í það minnsta 10 ár að framkalla nægilega hugarfarsbreytingu meðal ráðamanna í Japan til þess að fá lög um réttindi samkynhneigðra bætt – en lítur svo á að ef hún getur verið sú sem rúllar boltanum af stað þá hafi hún þegar breytt gangi sögunnar. 

Stuðst við greinar frá www.ninemsn.com/au  og www.pinknews.co.uk

Pistillinn birtist í Fréttabréfi Samtakanna '78 í september 2007

Leave a Reply