Skip to main content
search
Uncategorized

Stunda samkynhneigðir ekki íþróttir?

By 15. janúar, 2007No Comments

Umfjöllun um málefni samkynhneigðra í íþróttum á sér stutta sögu hér á landi. Fyrir fimm árum var fjallað um málið á vettvangi Samtakanna ’78 og var árangurslaust sótt um opinbera styrki til að gera frumrannsóknir á stöðu lesbía og homma innan íþróttahreyfingarinnar. Í kjölfar málþingsins „Hver er sá veggur“ sem fram fór Akureyri í apríl 2005 var fjallað um stöðu samkynhneigðra í íþróttum og fékk sú umræða nokkra umfjöllun í fjölmiðlum.

Sama gilti um opið málþing trúnaðarráðs Samtakanna ’78 sem fram fór í mars 2006. Síðar á árinu skipaði Íþrótta- og ólympíusamband Íslands starfshóp til að skoða stöðu minnihlutahópa innan íþróttahreyfingarinnar og koma með tillögur um úrbætur. Sá starfshópur er enn að störfum.

Ósýnileiki

Samkynhneigðir eru svo til ósýnilegir innan íslenskrar íþróttahreyfingar. Um 120.000 manns eru á einn eða annan hátt þátttakendur í hreyfingunni og iðkendur tæplega 70.000. Ef samkynhneigðir eru 5% þjóðarinnar (sem er varlega áætlað miðað við erlendar rannsóknir) þá ættu um 600 félagsmenn í hreyfingunni að vera samkynhneigðir og þar af ættu samkynhneigðir íþróttamenn að vera 350. Að undanskildum hádegisfundi ÍSÍ sl. haust hefur lítil umræða verið um þátttöku minnihlutahópa innan íþróttahreyfingarinnar sjálfrar. Helst hefur þó verið fjallað um málefni innflytjenda en aðallega í tengslum við fordómamál sem upp hafa komið.

Rannsóknir

Engar íslenskar rannsóknir hafa verið framkvæmdar sem tengjast þátttöku samkynhneigðra í íþróttum en mikil gróska er í erlendu fræðastarfi og rannsóknum á þessu sviði, t.d. í Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Hollandi, Belgíu og Bandaríkjunum. Engin ástæða er til að halda að staðan sé betri hér á landi en í þessum löndum.

Fordómar algengir

Helstu niðurstöður þessara rannsókna eru að ekki er marktækur munur á íþróttaiðkun samkynhneigðra og gagnkynhneigðra. Sama hlutfall samkynhneigðra og gagnkynhneigðra byrjar í íþróttum en samkynhneigðir hætta frekar í íþróttum en gagnkynhneigðir. Þriðja hver lesbía og fjórði hver hommi í íþróttum hafa mátt þola fordóma. Í öðrum rannsóknum eru þessar tölur enn hærri, en í þeim segjast 74% homma og 59% lesbía hafa orðið fyrir fordómum. Í flestum tilvikum eru þessir fordómar frá eigin liðsfélögum og þá aðallega í formi neikvæðra ummæla. Einungis 3% lesbía og homma í íþróttum eru alveg opin gagnvart kynhneigð sinni innan íþróttahreyfingarinnar en 64% koma út gagnvart útvöldum liðsfélögum. Skráðum misréttismálum hefur fjölgað á síðustu árum, og þar sem misréttismál hafa verið skráð hafa þau flest átt sér stað innan knattspyrnu. Fjöldi misréttismála er í beinu samhengi við sýnileika íþróttamanna.

Aðgerðir

Þessar niðurstöður sýna okkur svo ekki verði um villst að brýn þörf er á markvissum aðgerðum og það sem allra fyrst. Byrja þarf á því að rannsaka brottfall, þátttöku og aðgengi minnihlutahópa. Einnig þarf t.d. að efla kynningu, fræðslu, menntun og umræðu meðal þjálfara, iðkenda og forráðamanna. Það þarf að gera íslenskum lesbíum og hommum sem eru í íþróttum auðveldara með að koma úr felum. Unga samkynhneigða íþróttamenn skortir nauðsynlega fyrirmyndir.

Copyright © Klara Bjartmarz

Þessi grein birtist í Fréttabréfi Samtakanna '78 í janúar 2007

Leave a Reply