Skip to main content
search
Uncategorized

Knattspyrnufélagið Styrmir setur markið hátt

By 15. janúar, 2007No Comments

Í gegnum tíðina hefur lítið borið á þátttöku í hópíþróttum meðal homma og áhugi þeirra frekar beinst að ástundun einstaklingsgreina svo og iðkun líkamsræktar í líkamsræktarstöðvum. Ýmsir hafa jafnvel gengið með þá grillu að „samkynhneigður íþóttamaður“ væri mótsögn í sjálfu sér enda hafa fyrirmyndirnar hingað til verið fáar ef nokkrar hér á Íslandi. Síðastliðið sumar varð breyting á þegar íþróttafélagið St. Styrmir var stofnað.

„Þetta byrjaði allt þegar vinur minn Hafsteinn Þórólfsson flutti til landsins frá London. Þar hafði hann spilað fótbolta með Leftfooters FC sem er hommalið. Honum fannst svo gaman að þegar hann kom heim síðasta sumar þá hóaði hann fljótlega saman nokkrum vinum til að spila fótbolta á Miklatúni,“ segir Hannes Pálsson, listrænn stjórnandi St. Styrmis. „Þetta var sunnudag einn í júní og sjö strákar mættu í fyrsta boltann. Þá var ákveðið að gera þetta að föstum viðburði hvern sunnudag og æfingar auglýstar á vefsíðu Samtakanna ’78. Fljótlega spurðist það svo út að klukkan tvö á sunnudögum hittust hommar á Miklatúni til þess að spila saman fótbolta. Og þar með fór boltinn að rúlla!“

Félag verður til

Hópurinn stækkaði fljótt og ekki leyndi sér að þörfin var til staðar. „Þegar við fórum að bera saman bækurnar og ræða reynslu okkar, kom í ljós að við höfðum flestir hrökklast úr hópíþróttum. Þrátt fyrir minni fordóma og bætt lagaumhverfi heyrðum við svipaðar sögur frá yngri strákunum. Þeir höfðu líkt og við sem erum eldri einnig hrökklast úr íþróttum vegna fordóma eða hræðslu við að koma úr skápnum gagnvart liðsfélögunum.

Þeir fundu sig hins vegar hjá St. Styrmi og þá kviknaði ábyrgðartilfinning okkar og við ákváðum að gera þetta óformlega félag að formlegu íþróttafélagi með samfélagsábyrgð,“ segir Hannes stoltur og bætir við að félagsstarf, forvarnir og samfélagsþjónusta verði ofarlega á baugi á næstunni. Hugmyndafræði félagsins byggist líka á því að skapa jákvætt umhverfi þar sem allir fá að vera með óháð getu:. „Við forðumst að skamma meðspilara okkar en leggjum þess í stað áherslu á að hvetja menn til dáða. Þetta hvetjandi hugarfar hefur leitt til mikilla framfara hjá þeim sem hafa mætt reglulega.“ segir Hannes.

Markið sett hátt

En St. Styrmir er einnig félag með heilbrigðan íþróttametnað. „Þótt fornvarnargildi félagsins sé ómetanlegt þá höfum við að sjálfsögðu mikinn metnað eins og vera ber í íþróttum. Síðasta sumar tókum við þátt í Norðurlandamóti „hommaliða“ sem haldið var í Danmörku og síðan er stefnan sett á Evrópumót slíkra liða í London í apríl á þessu ári og svo á heimsmeistarmótið sem haldið verður í Buenos Aires í haust. Með tíð og tíma stefnum við að sjálfsögðu á að ná verðlaunasæti á slíku móti!“ En til þess að ná árangri þurfa samkynhneigðir íþróttamenn vitanlega að æfa rétt eins og aðrir íþróttamenn. „Við æfum yfirleitt tvisvar í viku, spilum saman léttan bolta annað kvöldið og en bjóðum upp á tækniæfingar með þjálfara hitt kvöldið. Svo stefnum við að því að bjóða fljótlega upp á fleiri greinar en bara fótbolta svo sem tennis og dans.“

En hvernig er það, eru aðeins samkynhneigðir boðnir velkomnir í lið með St. Styrmi? „Alls ekki,“ svarar Hannes, „St. Styrmir var stofnað með það að markmiði að hvetja homma til íþróttaþátttöku. Hins vegar útilokum við að sjálfsögðu enga frá því að vera með, og nokkrir gagnkynhneigðir strákar hafa mætt á æfingar hjá okkur og líkað það afskaplega vel.“

Allar nánari upplýsingar um starfsemi félagsins eða þátttöku í starfinu er hægt að finna á vef St. Styrmis.

Viðtalið birtist í Fréttabréfi Samtakanna '78 í janúar 2007

Leave a Reply