Skip to main content
Uncategorized

Einn þáttur í æðaslætti lífsins

By 12. desember, 2005No Comments

Þegar heimurinn skríður inn í 21. öldina er ljóst að samkynhneigðir eru sýnilegri á Vesturlöndum en nokkru sinni fyrr, viðurkenndari en nokkru sinni fyrr og með alla burði til að tala fullum rómi. Ef leikhúsið er nógu heiðarlegt til að nálgast þetta líf í allri sinni breidd og fjölbreytileika þá fáum við aragrúa af verkum sem skipta máli, ekki sem lokaður menningarafkimi heldur sem einn þáttur í æðaslætti lífsins. Við munum líka sjá endurmat á eldri verkum þar sem hinn samkynhneigði þáttur fær rými sem hann hafði ekki áður. Víða í uppfærslum má núna sjá Merkútsíó í Rómeó og Júlíu túlkaðan á forsendum homma. Það hefur hleypt nýju gæðablóði í þann pilt. Afturgöngur Ibsens urðu allt í einu smellur dagsins í leikhúsum þegar mönnum hugkvæmdist að tengja hinn unga Osvald Alving við alnæmi án þess nokkurn tíma sé rætt um kynhneigð Alving-fjölskyldunnar í verkinu. Og fleiri verk bíða líkast til fjörugrar endurskoðunar. Skugga-Sveinn og Ketill skrækur! Hvernig var sambandi þeirra eiginlega háttað?

Hvað sem öllu þessu líður þá er það krafa okkar samkynhneigðra að leikhúsið fjalli um okkur á heiðarlegan hátt og ég hef þá trú að það sé að gerast. Bæði í samfélaginu og leikhúsum heimsins eru núna mikil umbrot sem snúast um það að samfélag og leikhús séu samstíga, og helst á leikhúsið að vera skrefi á undan þegar kemur að því að sýna og afhjúpa eðli tímans og ýta við umhverfi sínu. Alls staðar í leikhúslífi á Vesturlöndum er meiri skilningur og opnari umræða um samkynhneigðan veruleika en nokkru sinni áður, og Ísland kemst ekki hjá því að tileinka sér þann skilning og taka þátt í þeirri umræðu.

Viðar Eggertsson í Samtakafréttum, 1999.

Leave a Reply