Skip to main content
Grein

Það er alltaf von: Samtökin ’78 styðja Píeta

By 21. ágúst, 2024desember 4th, 2024No Comments

Við erum öll svo dýrmæt og hvert eitt og einasta okkar skiptir máli, þó að stundum kunni okkur að líða eins og svo sé ekki. Þetta einstaka dýrmæti hvers okkar þýðir að hvert sjálfsvíg heggur stórt skarð í líf þeirra sem eftir standa og áhrifin ná langt út fyrir innsta hring hvers einstaklings.

Fjöldamargar rannsóknir sýna að hinsegin fólk er í aukinni áhættu á sjálfsskaða og sjálfsvígum. Fólkið sem leitar í ráðgjöf Samtakanna ‘78 á því margt að baki sögur um sjálfsskaða eða sjálfsvígstilraunir. Þess vegna er það okkur, eins og öllum öðrum í samfélaginu, afskaplega mikilvægt að til staðar sé þjónusta sem grípur fólk með sjálfsvígshugsanir áður en það er orðið of seint og styður aðstandendur þeirra sem því miður láta lífið vegna sjálfsvíga.

Píeta samtökin voru stofnuð árið 2016 í nákvæmlega þessum tilgangi. Þau hafa á örfáum árum umbylt aðgengi að aðstoð fyrir fólk sem er í yfirvofandi sjálfsvígshættu. Samhliða hafa þau komið á fót víðtækum stuðningi við aðstandendur. Samtökin ‘78 hafa verið þeirrar gæfu aðnjótandi að geta vísað fólki sem er í bráðavanda á þau frábæru úrræði sem Píeta samtökin bjóða upp á. Við vitum að það hefur bjargað lífum okkar fólks.

Í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka í ár hlaupa Samtökin ‘78 þess vegna fyrir Píeta samtökin. Starf Píeta er nefnilega í þágu okkar allra, sama hver við erum – og þar er hinsegin fólk alltaf velkomið. Við viljum sýna stuðning okkar við þeirra öfluga starf í verki og hvetjum því allt fólk sem þetta les til þess að heita á hlaupara Samtakanna ‘78 í vikunni.

Við skiptum öll máli. Það er alltaf von. Styrkjum Píeta-samtökin.

Höfundur er formaður Samtakanna ‘78.

Greinin birtist fyrst á Vísi 21. ágúst 2024.