Skip to main content
search
Uncategorized

Þing foreldra og aðstandenda samkynhneigðra í Þýskalandi

By 15. apríl, 2008No Comments

Helgina 24. – 25. nóvember 2007 sótti ég þing þýsku foreldrasamtakanna BEFAH (www.befah.de), sem haldið var í Hamborg. Foreldrasamtökin voru að halda upp á 10 ára afmæli sitt, en félög í ýmsum borgum Þýskalands eru eldri, það elsta einmitt í Hamborg og var að fagna 25 ára afmæli sínu.

Á þingið mættu um 80 manns frá öllu Þýskalandi, flestir foreldrar en einnig samkynhneigt fólk á ýmsum aldri. Hátíðarræðu flutti Marten Kofahl, samkynhneigður menntaskólarektor í Hamborg, og fjallaði um sögu foreldrafélaganna. Þetta var 10. foreldraþingið, það fyrsta var haldið 1993.

Fyrrverandi saksóknari hjá embætti ríkissaksóknara, Manfred Bruns, sem kom út úr skápnum árið 1985 (og var næstum því rekinn úr embætti fyrir vikið), flutti erindi um lagalegt umhverfi í Vestur- og Austur-Þýskalandi eftir lok seinni heimsstyrjaldar, en lög nasista frá 1934 giltu allt til 1968-69 í þýsku ríkjunum, og yfir 100 þúsund hommar voru dæmdir til refsingar samkvæmt þeim (það var ekki (eins) refsivert að vera lesbía). AIDS-ógnin á 9. áratugnum varð til góðs að því leyti að hún jók mjög á sýnileika og samstöðu homma. Frá 2001 eru í gildi í Þýskalandi lög um staðfesta samvist, þó með talsvert minni réttindum en við þekkjum hér.

Rithöfundurinn Stephan Niederwieser, sem hefur skrifað fjölda bóka, bæði skáldsögur og handbækur, velti fyrir sér hvort það væri auðveldara að koma út úr skápnum nú en fyrir 20 árum – það er það að sumu leyti en á móti kemur að mörgum veitist auðveldara að vera lengur í skápnum vegna internetsins, þ.e. þeir leita sér að félögum þar en lifa dagsdaglega í felum. Sjálfur sagðist hann hafa áttað sig á því fimm ára gamall á leikskóla að hann hneigðist til eigin kyns. Í framhaldi af erindi hans var töluvert mikið rætt um kirkjuna, einkum þá kaþólsku sem er mjög hatrömm í málflutningi sínum gegn samkynhneigð. (Almenn skoðun þingfulltrúa var reyndar að páfinn, sem er þýskur, væri hommi!)

Renate Rampf, fjölmiðlafulltrúi LSVD, þýsku ,,Samtakanna ‘78” (www.lsvd.de), hélt erindi þar sem hún lýsti því hve mikilvægt foreldrastarfið væri fyrir LSVD. Það hefði t.d. skipt miklu máli í réttindabaráttu samkynhneigðra að hafa foreldrana með. Hún lagði áherslu á að foreldrafélögin væru brú milli samkynhneigða heimsins og þess gagnkynhneigða, þar sem foreldrar þekkja til í báðum. Samkynhneigð væri fjölskyldumál, samkynhneigðir eins og aðrir hefðu þörf fyrir fjölskyldur sínar og foreldrar ættu að nota hvert tækifæri til að vera sýnileg sem slík og sýna stuðning – bara það að binda regnbogaborða á ferðatöskuna sína gæti vakið upp gagnlegar og skemmtilegar umræður á flugvöllum!

Ofbeldi gagnvart samkynhneigðum að aukast

Haldnar voru pallborðsumræður þar sem fulltrúar fjögurra stærstu stjórnmálaflokka Þýskalands, prestur og annar starfsmaður frá lútersku kirkjunni og fulltrúi frá samtökum samkynhneigðra stjórnenda í atvinnulífinu ræddu málin. Þar kom m.a. fram að ofbeldi gagnvart samkynhneigðum hefur verið að aukast, einkum í austurhluta landsins. Afstaða stjórnmálaflokkanna til réttindabaráttu samkynhneigðra var útskýrð. Kirkjurnar voru harðlega gagnrýndar, sér í lagi sú kaþólska. Einnig var rætt um skort á fyrirmyndum meðal stjórnmálamanna, kennara, íþróttamanna og á fleiri sviðum. Það var dálítið fyndið að ekki kom fram fyrr en nokkuð var liðið á umræðurnar að þau sem sátu í pallborðinu voru öll samkynhneigð – stjórnmálaflokkarnir máttu senda hvern sem var en ákváðu sem sagt að senda ,,hommana sína”.

Ísland vekur athygli

Ég fékk síðan að segja stuttlega frá stöðu samkynhneigðra á Íslandi og starfsemi FAS og Samtakanna ’78. Sá mikli árangur sem náðst hefur í réttindamálum samkynhneigðra á Íslandi vakti verðskuldaða athygli. Utan dagskrár reyndi ég að tala við sem allra flesta foreldra og fékk að heyra margar og mismunandi sögur. Elsta mamman á þinginu var yfir nírætt, en ég talaði líka við foreldra 17 ára drengs sem var nýkominn út úr skápnum. Það var reyndar dálítið merkilegt að þarna voru miklu fleiri foreldrar homma en lesbía, líklega um tvöfalt fleiri. Einnig ræddi ég nokkuð við tvo homma á sjötugsaldri sem hafa verið saman í 40 ár og staðfestu samvist sína um leið og það var mögulegt. Þrátt fyrir ákveðin lagaleg réttindi sem samvistinni fylgja þá standa þeir frammi fyrir því að sá þeirra sem lengur lifir mun þurfa að selja húsið þeirra til að greiða erfðafjárskatt, þar sem hann er lagður á samvistarmaka eins og um óskyldan aðila væri að ræða. Þessu eru samkynhneigðir í Þýskalandi að berjast fyrir að fá breytt, ásamt fleiri atriðum sem aðgreina staðfesta samvist frá hjúskap gagnkynhneigðra.

Mér fannst ferðin í heild hafa verið afskaplega fróðleg, gagnleg og skemmtileg, og mun verða áfram í sambandi við forsvarsmenn BEFAH. Vonandi kemur það bæði FAS og BEFAH til góða í framtíðinni.

Samtök foreldra og aðstandenda samkynhneigðra eru sjálfsprottinn félagsskapur sem byggir á starfi foreldra sem hittust reglulega í félagsmiðstöð Samtakanna ´78 á árunum 2000 til 2003 og lögðu grunninn að starfinu, bæði með stuðningsfundum tvisvar í mán
uði og einnig opnum fræðslufundum. Markmið FAS er að efla umræðu um samkynhneigð í okkar nánasta umhverfi og í samfélaginu. FAS sinnir fræðslu, bæði með opnum fundum og innan félagsins með það að markmiði að auka skilning og þekkingu á því að samkynhneigð er fjölskyldumál.

Guðrún Rögnvaldardóttir, Formaður FAS
Greinin birtist í Fréttabréfi Samtakanna '78 í apríl 2008

Leave a Reply