Skip to main content
search

Yfirlýsing Samtakanna ’78, Trans Ísland, Intersex Ísland og Hinsegin daga vegna fregna frá Bandaríkjunum um endurskilgreiningu á hugtakinu kyn.
Enn eina ferðina vegur voldugt þjóðríki að réttindum hinsegin fólks um leið og það hreykir sér af vernd frelsis og mannréttinda.
Þær fréttir berast nú að heilbrigðisráðuneyti Bandaríkjanna hyggist endurskilgreina hugtakið kyn í lögum um jafnan rétt til mennta. Ráðuneytið talar fyrir skilgreiningu á kyni „á líffræðilegum grundvelli sem sé skýr, byggður á vísindalegum grunni og nothæfur í stjórnsýslu“, og er lendingin sú að skipta mannkyninu varanlega í karla og konur út frá útliti kynfæra við fæðingu. Þessi fyrirætlun endurspeglar hvort tveggja í senn: gapandi skort á vísinda- og söguþekkingu og djúpstæða fyrirlitningu í garð trans og intersex fólks.
Sú hugmynd að skipta megi mannkyninu í tvo fullkomlega einsleita líffræðilega flokka, karla og konur, er ofureinföldun sem kannski hentar ágætlega til líffræðikennslu í grunnskólum. Hún fangar þó engan veginn hinn margslungna veruleika líffræðilegs kyns. Í krafti þessarar einföldunar hefur intersex fólk verið afmáð af spjöldum sögunnar og sætt grófum mannréttindabrotum, oft af hálfu opinberra stofnana, sem eru fyrst nú að koma í ljós. Tillaga heilbrigðisráðuneytis Bandaríkjanna væri gríðarlegt bakslag í mannréttindabaráttu intersex fólks og enn ein tilraun yfirvalda til að afmá tilvist þeirra.
Eins hefur ekkert samfélag verið til án fjölbreytileika í kynvitund. Sama hvert er litið í sögunni hafa manneskjur samsamað sig öðru kyni en því sem þeim var úthlutað í frumbernsku. Fólk með fjölbreytta kynvitund hefur alla tíð auðgað mannleg samfélög og menningu. Það er á ábyrgð hvers samfélags fyrir sig að ákveða hvort það bregst við fjölbreytileika með ofbeldi og útskúfun, eða með inngildingu, sátt og samlyndi.
Þessi trans- og intersexfóbíska tillaga er sérlega hneykslanleg í ljósi utanríkisstefnu Bandaríkjanna, sem inniber háværan stuðning við mannréttindarbaráttu hinsegin fólks og ámæli til annarra fyrir mannréttindabrot. Í nóvember 2017 fordæmdu Bandaríkin hómófóbískt ofbeldi í Tsjetsjenínu og í maí síðastliðnum, á Alþjóðlegum degi gegn fordómum í garð hinsegin fólks (IDAHOTB) sagði Mike Pompeo utanríkisráðherra: „Bandaríkin standa með fólki um heim allan og staðfesta reisn og jafnrétti alls fólks, óháð kynhneigð, kynvitund eða kyntjáningu, eða kyneinkennum.“ Þetta ósamræmi sýnir í besta falli fram á skammarlegan skort á stefnu í málefnum hinsegin fólks. Í versta falli er það til vitnis um hroka og hræsni.
Tilvist trans fólks og intersex fólks er óyggjandi veruleiki. Hún verður aldrei afmáð með pennastriki. Það er ekki bandarískra yfirvalda að úrskurða um það hvort trans og intersex fólk sé til, heldur að ákveða hvernig þau muni koma fram við borgara sína. Í sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna er ritað að allir menn séu „skapaðir jafnir og frjálsir, og að af jafnri sköpun þeirra leiði ásköpuð, óafsalanleg réttindi, þar á meðal réttinn til lífs, frelsis og hamingjuleitar“. Spurningin sem Bandaríkin standa nú frammi fyrir er: Ætla þau að standa vörð um þessi réttindi allra borgara sinna – eða troða á þeim?
Yfirlýsing á PDF
In English PDF