Skip to main content
search
Uncategorized

Þjóðkirkjan og samkynhneigð – Áfangar á Kirkjudögum

By 27. júní, 2005No Comments

Á Kirkjudögum, sem haldnir voru laugardaginn 25.júní síðastliðinn, hafði Hulda Guðmundsdóttir umsjón með málstofu á vegum Djáknafélagsins þar sem hún kynnti niðurstöður rannsóknar sinnar á viðhorfum presta og djákna til málefna samkynhneigðra. Fjallað var um hvernig viðhorfið til uppruna kynhneigðar virðist móta afstöðuna til samkynhneigðra og hvernig mismunandi guðfræðilegar áherslur birtast í afstöðunni til kirkjulegrar hjónavígslu samkynhneigðra para. Nánar er fjallað um rannsókn þessa í sérriti Kirkjuritsins. Málstofan var ágætlega sótt og rannsókn Huldu gefur sterkar vísbendingar í jákvæða átt.

Vefsíða starfshóps þjóðkirkjunnar um málefni samkynhneigðra og kirkjunnar var opnaður á kirkjudögum (sjá www.kirkjan.is/samkynhneigdogkirkja/). Þar er ætlunin að safna saman á einn stað fjölbreyttu efni um málefnið. Síðan er enn í smíðum og mikið efni á eftir að setja inn, en það verður gert á næstu vikum og mánuðum.

Kirkjuritið hefur nú gefið út sérrit sem kallast Samkynhneigð kirkja og trú. Hvar stöndum við?. Þar er safnað saman framsöguerindum frá þremur málþingum PÍ (Prestafélags Íslands) og FAS (Félags aðstandenda samkynhneigðra) sem haldin voru 2004 og 2005. Þetta er veglegt rit með mörgum fróðlegum erindum fræðimanna á sviði lögfræði, siðfræði og guðfræði og samkynhneigðra frummælenda.

Á nýafstaðinni prestastefnu íslensku þjóðkirkjunnar var samþykkt eftirfarandi ályktun: „Prestastefna Íslands haldin í Neskirkju 22.-24. júní 2005 beinir þeim eindregnu tilmælum til biskups að hann feli ráðgjafarnefnd um kenningarleg málefni að bregðast við óskinni um að þjóðkirkjan komi að hjúskaparstofnun samkynhneigðra para með hliðstæðum hætti og þegar um karl og konu er að ræða.“ Þetta er merkur áfangi því ofangreind ráðgjafanefnd hefur mjög mikið að segja um kenningarleg málefni kirkjunnar. Þetta er í fyrsta sinn sem prestastefna ályktar sérstaklega um málefni samkynhneigðra frá árinu 1997 og í fyrsta sinn sem farið er fram á að ofangreind nefnd taki á málefninu.

Ljóst er að mikill skriður er kominn á mál samkynhneigðra innan þjóðkirkjunnnar og framundan merkilegir tímar á því sviði.

-GE

Leave a Reply