Skip to main content
search
Uncategorized

Mikilvægt að bæta réttarstöðu transgender fólks á Íslandi

By 15. janúar, 2008No Comments

Réttarstaða og félagsleg staða transgender fólks á Íslandi er afar veik og óljós. Á Íslandi eru engin sérstök lög í gildi um málefni transgender fólks líkt og í mörgum nágrannalanda okkar og margar hindranir sem standa í vegi fyrir lagalegri viðurkenningu og læknisfræðilegri meðferð.

Það er brýnt að bæta stöðu transgender fólks í þjóðfélaginu en fjölmargar hindranir standa í vegi fyrir því að það fái notið sín sem fullgildir einstaklingar. Til dæmis geta þeir einstaklingar sem vilja lifa í nýju kynhlutverki ekki fengið nafni sínu breytt nema að hafa gengist undir aðgerð til leiðréttingar á kyni en aðeins hluti transgender einstaklinga gengst undir slíka aðgerð. Augljósir annmarkar fylgja því að lifa í öðru kynhlutverki en kemur fram í persónuskilríkjum eins og þegar ferðast er til útlanda eða ef framvísa þarf persónuskilríkjum við önnur tilefni. Ýmsir sem hafa skoðað þessi mál frá sjónarmiði mannréttindamála hafa bent á að  breyting á kyni snertir friðhelgi einkalífs og ekki er hægt að meina fólki að breyta útliti, auðkenni eða kyni.

Óljós staða innan heilbrigðiskerfisins

Þegar kemur að málefnum transgender fólks innan heilbrigðisgeirans og læknisfræðilegri meðferð er margt óljóst. Vinnuhópur lækna sem á að sjá um málefni transgender fólks hefur til dæmis enga lagaheimild eða umboð til að fara með mál þessa hóps og á einungis að vera ráðgefandi fyrir Landlæknisembættið þegar taka á ákvarðanir er varða tansgender einstaklinga.

Í misserisskýrslu sem unnin var af nemendum við Háskólann á Bifröst, en þar voru málefni transgender fólks á Íslandi skoðuð sérstaklega, kemur fram að nefnd þeirri sem ætlað var að vera ráðgefandi í málefnum transgender fólks „tekur sér það vald að ákvarða hvort einstaklingur sem óskar eftir meðferð til breytingar á kyni er hæfur eða ekki“. Með öðrum orðum er nefndin sem í upphafi var ætlað að vera til ráðgjafar orðin nokkurskonar úrskurðaraðili í málefnum transgender fólks. Þróunin hafi því orðið sú að „verklagsreglur þeirra eru orðnar ólögfestar reglur sem þeir einstaklingar sem eiga við kynáttunarvanda að stríða telja sig knúna til að fara eftir.“

Úrbóta þörf

Það er nauðsynlegt að taka af allann vafa um það hver skuli fara með úrskurðarvald varðandi mál transgender fólks á Íslandi hvort sem það er innan heilbrigðisgeirans eða í þjóðfélaginu almennt. Eins og staðan er nú fer framkvæmdavaldið með úrskurðavald í þessum málaflokki. Þrátt fyrir það virðist sem sjálfur Dómsmálaráðherra, sá aðili sem framar öllum á að halda lögin, ekki treysta sér til að tryggja að ekki verði framin mannréttindabrot í málum sem upp hafa komið hér á landi, þrátt fyrir að ljóst þyki að verið sé að brjóta á rétti einstaklinga til friðhelgi einkalífs..

Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér málefni transgender fólks á Íslandi betur er bent á félag transgender fólks á Íslandi, Trans Íslands, http://groups.google.com/group/trans-is-frettabreftransiceland@gmail.com

© Anna Jonna Ármansdóttir og Frosti Jónsson 2008

Tilvitnun er öllum heimil sé heimildar getið
þessi grein birtist í Fréttabréfi Samtakanna '78 í janúar 2008

 

Leave a Reply