Trúarfíkn er það fyrirbæri þegar iðkun trúarlífs á vettvangi skipulagðra trúarbragða fær einkenni áráttuhegðunar sem hægt er að bera saman við hegðun virkra alkóhólista í neyslu. Helstu einkennin eru þau að trúin fær algeran forgang í lífi viðkomandi einstaklings, trúarfíkilsins, og verður mikilvægari en allt annað – einnig vinna eða fjölskylda. Boð og bönn trúarinnar verða að heilögum reglum, allt er svart eða hvítt, engir gráir tónar eru til í því litrófi, allt er annaðhvort rétt eða rangt, syndugt eða heilagt. Til stuðnings þessu er vitnað í Biblíuna, hún verður óskeikul. Sameiginlegir óvinir, eins og margir trúarfíklar telja samkynhneigða vera, eða sameiginlegt fjandsamlegt málefni, eins og fóstureyðingar, verða mikilvægir þættir í lífi trúarfíkilsins. Hatrið sem trúarfíkillinn nærir til þess sem hann telur vera rangt eða syndugt verður drifkraftur í lífi hans.
Rétt eins og alkohólismi er trúarfíknin fjölskyldusjúkdómur og þróast á líkan hátt. Það sem í byrjun er "hófdrykkja"; messa á sunnudögum, reglulegur biblíulestur, verður að áráttuhegðun þar sem biblíulesturinn, messurnar og starfið í þágu safnaðarins öðlast algjöran forgang. Hegðun fjölskyldunnar er stýrt nákvæmlega, þar skal farið eftir þeim boðum sem viðkomandi telur vera rétt og rangt samkvæmt Biblíunni. Þarfir trúarinnar, safnaðarlífisins, koma á undan þörfum fjölskyldunnar.
Haukur F. Hannesson í Samtakafréttum, ágúst 2000.