Skip to main content
search
Uncategorized

Tvær predikanir Síra Bjarna Karlssonar í Laugarneskirkju

By 25. ágúst, 2004No Comments

Hér á eftir fara tvær prédikanir hvor eftir annari eins og ég flutti þær í kirkjunni. Þetta eru ekki blaðagreinar og heldur ekki fræðilegt efni í sjálfu sér, heldur prédikun, trúarvitnisburður. En vegna þess hve illa kirkjunni hefur gengið að skilgreina afstöðu sína í málefnum samkynhneigðra, þá held ég að það skipti miklu máli að sjá orðræðu á ,"málfari kirkjunnar" ef svo má að orði komast, þar sem tekin er afstaða með réttindabaráttu samkynhneigðra af trúarlegum ástæðum.

Hér er sem sagt ekki verið að burtskýra orð Biblíunnar eða hnika til trúarsetningum til þess að komast að fyrirfram pantaðri niðurstöðu, heldur eru þessar prédikanir fluttar með góðri samvisku frammi fyrir Guði og mönnum eftir þeim hugsanabrautum sem Biblían og hefðbundinn kristindómur gjarnan þræðir í leit sinni að sannleikanum. Því bið ég líka þau sem ekki trúa eins og ég, að lesa þennan texta með þolinmæði og skilningi. Því hvort sem okkur líkar það betur eða verr, þá skiptir prédikun kirkjunnar miklu máli, og hennar aldagömlu aðferðir hafa reynst frjóar. Hér er tilraun til að fara eftir þeim í heiðarlegri leit að réttlæti og sannleika.

1.sd. í föstu
1.Mós.3.1-7
2. Kor.6.1-10
Matt. 4.1-11

Náð og friður frá Guði sé með okkur öllum. Amen.

„Ef þú ert eitthvað, ef þú ert maður með mönnum, ef þú ert sá sem þú vonar að þú sért, sannaðu það þá með því að græða á því!“ Kannast þú við þessa hvatningu? Sagan af freistingum Krists er nefnilega nútímasaga. „Ef þú ert sonur Guðs?“ sagði djöfullinn við Jesú.

Samkvæmt Guðspjallinu eru tillögur andskotans þrennar. Það er þrennt sem Jesús á að græða. Fyrsta tillagan er svona. „Ef þú ert sonur Guð, þá bjóð þú að steinar þessir verði að brauðum.“ M.ö.o.: Ef þú ert það sem þú vonar að þú sért, notaðu þá gjafir lífs þíns til að tryggja efnalegt öryggi þitt!
Fyrir nokkru hitti ég mann sem sagði við mig: „Jæja, Bjarni minn, nú ert þú orðinn fertugur. Veistu hvað maður gerir milli fertugs og fimmtugs?“ Nei, það vissi ég ekki alveg. „Maður safnar peningum, góði minn! Þú verður að athuga það að þú hefur rúm tíu ár til að koma ár þinni fyrir borð, áður en ungu strákarnir fara fram úr þér.“ Þá vissi ég það.
Fyrsta freisting Jesú var sú sem eltir okkur öll á röndum, sú hætta að verða blindur á allt nema dauða hluti. Að við förum að treysta á fasteignir, bíla og lífsstíl í lífi og dauða.
„Þá tekur djöfullinn hann með sér í borgina helgu,“ heldur Guðspjallið áfram orðrétt „setur hann á brún musterisins og segir við hann: „Ef þú ert sonur Guðs, þá kasta þér ofan, því að ritað er: Hann mun fela þig englum sínum, og þeir munu bera þig á höndum sér, að þú steytir ekki fót þinn við steini.?“ (v.5-6) M.ö.o.: Ef þú ert eitthvað í áttina við það sem þú vonar að þú sért, gerðu þá eitthvað flott, láttu menn vita hver þú ert, vertu frægur!
Og þegar þetta gengur ekki, og Jesús lætur ekki blekkjast af fagurgala hins illa, ?þá tekur hann Jesú með sér upp á ofurhátt fjall, sýnir honum öll ríki heims og dýrð þeirra og segir: „Allt þetta mun ég gefa þér, ef þú fellur fram og tilbiður mig!“ Og Jesús svaraði: „Vík brott, Satan!“ Ritað er: „Drottin, Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum.“

Fyrst var Jesús hvattur til að gera efnisleg gæði að grundvelli lífs síns, því næst var hans freistað með frægð, en loks með því sætasta af öllu sætu, með völdum. Tilboð djöfulsins er þá svohljóðandi: „Ef þú elskar peninga, frægð og völd og óttast ekkert nema skort á þessu þrennu þá höfum við komist að samkomulagi og málið er dautt.“

Gallinn við þennan samning er hinsvegar sá að einmitt þessir þrír þættir eru af skornum skammti í veröldinni. Peningar, frægð og völd hafa einnig ríka tilhneigingu til að skipta óvænt um hendur, svo sem forn og ný dæmi sanna. Þess vegna er ótti og kvíði fylgifiskur þeirrar ástar sem djöfullinn vill að við leggjum á umhverfi okkar. Í þessu samhengi mælti Jesús „Sannlega segi ég yður: Torvelt verður auðmanni inn að ganga í himnaríki.“ (Matt.19.23)

Ég hef tekið eftir því stundum þegar ég hef orðið hræddur og jafnvel reiður, að þá er ég líklegastur til að gera eða segja tóma vitleysu. Við eigum vafalaust öll óþægilegar minningar um sjálf okkur af þeim toga. Og við þekkjum það líka hvernig manneskjur sem við elskum og virðum geta umbreyst í reiði, eða öðrum álíka óttaviðbrögðum, svo að þau verða nær óþekkjanleg. „Ha, ert þetta virkilega þú!“ Hugsarðu, horfandi á vin þinn í reiðiham. Þess vegna gerist svo margt heimskulegt í heiminum, ekki vegna þess að manneskjur vilji endilega illt, við erum bara oft svo skelfing hrædd og þá gerum við gjarnan mistök.
Tilboð hins illa eins og það kom til Jesú og kemur til hverrar einustu mannlegrar sálar, er fyrst og síðast kvíðavekjandi.
Ég held aftur að Jesús hafi verið alveg sérstakur áhugam
aður um kvíðastjórnun. Endalaust hóf hann ræður sínar á samskonar hvatningu, „Verið óhræddir!“, „Vertu ekki hrædd litla hjörð.“ „Óttist ekki þá sem líkamann deyða.“ „Hví eruð þér hræddir?“ Og til þess að við getum fækkað kvíðaþáttunum í lífi okkar þá gerir hann okkur tilboð sem er öndvert við tilboð hins illa.

-Í stað þess að við treystum dauðum hlutum hvetur Jesús okkur til að treysta sér.
-Í stað þess að við leggjum ást á frægðina og þráum aðdáun manna vill Jesús gefa okkur ást og aðdáun á manneskjum.
-Í stað þess að við keppumst eftir völdum yfir fólki og náttúru hvetur Jesús okkur til að þjóna umhverfi okkar af virðingu.

Trúfesti, ást og virðing? það eru gjafir Guðs í stað fýsnarinnar í auðæfi, frægð og völd.
Og ætlar þú að segja mér að þetta komi þér ekki við? Ætlar þú að halda því fram að þú kannist ekki við þessi atriði í þínu lífi? Að þú þekkir ekki kalda öfundina í maganum þegar einhver eignast það sem þú getur ekki eignast, lamandi óttann við að vera ósýnilegur innan um fólk, þrána eftir því að geta látið aðra fara að þínum vilja. Það er það yndislega við Biblíuna, að hún segir satt, þess vegna eru allir að lesa hana. Meira að segja djöfullinn les Biblíuna. ?Kasta þér ofan!? sagði hann við Jesú, ?því að ritað er: Hann mun fela þig englum sínum, og þeir munu bera þig á höndum sér, að þú steitir ekki fót þinn við steini.? og vitnaði þar orðrétt í 91. Davíðssálm 11.- 12. vers.

Biblían lýsir því að vandamál heimsins er syndin. Syndin, þetta óskiljanlega sundrunarafl sem gerir okkur öll svo hrædd og ókunnug sjálfum okkur. Hún er svo slæg og óvænt að henni er einmitt vel lýst sem skríðandi höggormi sem birtist og setur á sakleysislegt spjall en er í rauninni markvisst að vekja kvíða.
Hefur þú tekið eftir því hvernig hótunin liggur í loftinu í dag? Það er engu líkara en að hótanir séu orðnar að gjaldmiðli í samskiptum manna og þjóða? Í okkar litla þjóðfélagi ganga hótanir, duldar og augljósar, milli áhrifamanna. Þjóðum er hótað hernaði, kynjamisrétti liggur líkt og mara á heiminum, misskipting auðs hefur aldrei verið magnaðri í veröldinni, fordómar milli ólíkra kynþátta vaða uppi og nú hafa átökin um málefni samkynhneigðra náð því hámarki að valdamestu menn veraldar beita hótunum. Og Biblían útskýrir að allir þessir erfiðleikar eiga rót sína í angistinni. Vegna óttans sem vaknar í sál manns þegar maður elskar dauða hluti í stað þess að treysta Guði. Þegar maður vonast eftir að hljóta samþykki í stað þess að veita það. Og þegar mann langar fremur að láta aðra lúta sér, en að virða manneskjur og þjóna þeim.
Þetta er bara svona. Pínulítið asnalegt að vísu. Svolítið aulalegt ef það er satt að vandi heimsins liggi í þessu, en þetta segir nú Biblían. Þegar Jesús var við það að ljúka merkustu ræðu sem flutt hefur verið á þessari jörð, sjálfri fjallræðunni, þá tók hann saman aðalatriðin í fáeinar setningar og sagði: „Dæmið ekki, og þér munuð eigi dæmdir verða. Sakfellið eigi, og þér munuð eigi sakfelldir verða. Sýknið, og þér munuð sýknaðir verða. Gefið, og yður mun gefið verða. Góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur mun lagður í skaut yðar. Því með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða.“ (Lúk. 6.37-38)
Í þessu ljósi finnst mér það svo skrýtið og eiginlega óskiljanlegt að mjög margt gott fólk sem opinberlega kallar sig kristið er alveg sannfært um að samkynhneigðu fólki sé ekki treystandi í þjóðfélaginu. Ég skil ekki af hverju andstaðan við réttindabaráttu samkynhneigðra er hvað sterkust í nafni kristinnar trúar. Mér er það í sannleika óskiljanlegt. Ítrekað hef ég rætt við góðar og grandvarar manneskjur, fólk sem aldrei myndi vilja vinna nokkurri manneskju ógagn, og ver jafnvel stórum hluta frítíma síns í kærleiks- og líknarþjónustu úti í bæ, en þegar talið berst að réttindum samkynhneigðra þá myrkvast svipur þess og yfir varir sem venjulega blessa allt og alla, velta orð sem virka meiðandi og dæmandi á mig.

Og þegar maður talar við fólk um það hvort við ættum ekki bara að láta samkynhneigt fólk í friði og treysta því fyrir sínu lífi rétt eins og öðrum, þá verða margir voða pirraðir, reiðir og smeykir um hitt og þetta. Halda jafnvel að þjóðfélagið muni liðast í sundur af völdum samkynhneigðra, eða að siðferðisvitund almennings muni dala, ef þessu fólki sé ekki haldið í skefjum. Ég játa það fúslega að þegar ég verð pirraður, reiður og smeykur þá hrynur greindarvísitalan. Það kemur stundum fyrir mig ennþá. Og þá á ég það til að grípa í allskonar vitleysisgang. Konan mín og börnin þekkja þetta vel. Og af því að ég er sjálfur að reyna að hætta því að vera hræddur og reiður, hef ég tekið svo vel eftir því hversu reiðir og ráðvilltir margir verða þegar talað er um réttindabaráttu samkynhneigðra. Vissulega eru það mjög stríða
r tilfinningar sem fara af stað hjá okkur öllum í þessari umræðu. En það er grundvallaratriði í öllum samskiptum að maður verður að bera ábyrgð á tilfinningum sínum sjálfur.
Það eru staðreyndir sem ekki verður á móti mælt að samkynhneigt fólk er á engan hátt öðruvísi en annað fólk að því frátöldu að það hneigist til að elska sama kyn. Þau langar til að eiga ævifélaga af sama kyni. Samkynhneigðir eru ekki síðri uppalendur en gagnkynhneigðir, nema síður sé, og börn þeirra eru ekki líklegri en börn annarra til að verða sjálf samkynhneigð, ef einhver skyldi nú óttast það.

Ástæða þess að hjónaband er almennt af hinu góða er sú, að með stofnun þess gengur fólk opinberlega fram fyrir skjöldu, lýsir yfir þeirri hugsjón sinni að vilja lifa saman í trúnaði, ást og virðingu og axlar ábyrgð á eigin lífi. Hvað er það sem okkur finnst svona hræðilegt við það að tveir karlmenn taki þetta skref? Eða tvær konur? Og hver gefur okkur svo leyfi til að velta þeim tilfinningum okkar yfir á ókunnugt fólk, sem er bara að reyna að lifa sínu lífi og langar eins og önnur pör að hljóta opinbert samþykki samfélagsins á tilveru sinni? Það getur ekki verið úr Biblíunni, það getur ekki verið frá Jesú Kristi sú hugmynd, að banna fólki að lýsa yfir gagnkvæmum trúnaði, ást og virðingu og axla opinbera ábyrgð á heimili sínu. Ég hafna því.
Menn hafa lengi bent á að það stendur vissulega á tveimur stöðum í lögmáli Móse og svo á tveimur öðrum stöðum hjá Páli postula að samkynhneigð sé ekki góð. Samt vita allir að allt sem í Biblíunni er skráð á að túlka í ljósi Jesú Krists. Biblían fjallar um Jesú og það er persóna hans sem túlkar allt sem þar stendur. Allir vita að Páll postuli hafði ákveðnar skoðanir á samkiptum kynjanna, sem við erum ekkert að taka allt of hátíðlega, vegna þess hvernig Jesús kom fram við konur. Páll var líka umburðarlyndur í garð þrælahalds, eigum við að vera það? Og hugsið ykkur bara hvað það er skemmtilegt að djöfullinn skuli í freistingasögunni taka Jesú með sér upp á ofurhátt fjall og sýna honum öll ríki heimsins. Ef við túlkum það bókstaflega, nú, þá er jörðin flöt!

Kæri söfnuður. Við höfum margvíslegar skoðanir og tilfinningar í þessu máli. En við getum ekki gegnið framhjá þeirri staðreynd að Jesús bannar okkur að dæma um líf fólks. Hann bannar það! Og hvernig sem við leitum í öllum Guðspjöllunum fjórum þá getum við ekki fundið eina frásögn þar sem Jesús skammar einhvern fyrir siðferði hans eða efast um ábyrgð fólks á eigin lífi. Einu mennirnir sem hann ávítaði voru þeir sem töldu sjálfa sig réttláta en fyrirlitu aðra. Það er þess vegna sem mér finnst svo nöturlegt þegar fólk tortryggir samkynhneigða í nafni trúarinnar.

Vil ég loks láta í ljós þá bæn að þjóðin og leiðtogar kirkjunnar í landinu megi skjótt finna farsælar lausnir í þessum efnum. Því sú tregða sem enn ríkir veldur skelfilegum þjáningum. Hættum nú að beita hvert annað hörðu, þess í stað skulum við hafa Jesú einan fyrir augum okkar og stíga fram í trúardjörfung í málefnum samkynhneigðra. Við erum hérna öll saman og Jesús er handa öllum jafnt. Einfalt mál. Amen.

3. sd. í föstu
Sak. 12.10
Ef. 5.1-9
Lúk. 11.14.28

Veistu að samkvæmt Biblíunni snýst trúarlífið, trúarbaráttan, um líf og dauða? Gerir þú þér grein fyrir því að Jesús frá Nasaret boðaði himinn og helvíti? Samkvæmt orðum Jesú er eilíf útskúfun möguleiki sem getur beðið mín og þín. Persónulega ætla ég ekki að taka það með neinni léttúð. Ég óttast Guð. Ég trúi orðum Jesú Krists og ég reiði mig á persónu hans í lífi og dauða.

Í Guðspjalli dagsins mælir Jesús einkar alvarleg orð: „Hver sem er ekki með mér er á móti mér, og hver sem safnar ekki saman með mér, hann sundurdreifir. Þegar óhreinn andi fer út af manni, reikar hann um eyðihrjóstur og leitar hælis. Og er hann finnur það ekki, segir hann: Ég vil hverfa aftur í hús mitt, þaðan sem ég fór. Og er hann kemur og finnur það sópað og prýtt, fer hann og tekur með sér sjö aðra anda sér verri, og þeir fara inn og setjast þar að, og verður svo hlutur þess manns verri eftir en áður. Er hann hafði mælt þetta,“ segir Guðspjallið „hóf kona ein í mannfjöldanum upp rödd sína og sagði við hann: Sæll er sá kviður, er þig bar, og þau brjóst, er þú mylktir. Hann sagði: Já, því sælir eru þeir, sem heyra Guðs orð og varðveita það.“

Hvað er Jesús að fara? Um hvað er hann að tala í þessum undarlegu orðum um illa anda? Ég hvet þig til þess að leggja eitt augnablik frá þér fordóma þína gegn svona andatali, og gefa þig bara orðum Jesú á vald. Taktu við þeim í trú, þá muntu sjá.

„Hver sem er ekki með mér er á móti mér, og hver sem safnar ekki saman með mér, hann sundurdreifir.“ Jesús var að reka út illan anda. Hann var að lækna mállausan mann. Og er hinn illi málleysisandi var farinn út af manninum þá undraðist mannfjöldinn að vonum, og auðvitað komu upp öfundar- og gagnrýnisraddir. Það gerist ætíð þegar verk Krists er unnið. Það þekkja allir
sem starfa í anda Drottins að hvarvetna þar sem hönd Guðs er að verki koma menn og segja sjálfan djöfulinn að störfum og svo koma aðrir til að freista Guðs þjóna og krefja þá um tákn, – Sýndu þig! Sannaðu sjálfan þig! Og Jesús tekur til við að svara báðum aðilum. Fyrst útskýrir hann að væri Satan sjálfum sér sundurþykkur, þá fengi ríki hans ekki staðist, og því sé tómt mál um að tala að hann reki illa anda út í nafni sjálfs Beelsebúls, höfðingja illra anda. Og svo opnar hann huga þeirra fyrir nýjum möguleika: „En ef ég rek illu andana út með fingri Guðs, þá er Guðs ríki þegar yfir yður komið.“
Síðan svarar Jesús þeim sem vilja freista hans til að gera sjálfan sig frægan, og útskýrir eðli andlegrar baráttu, að það getur hreinlega verið hættulegt að heyra Guðs Orð, það er hægt að fara sér að voða í andlegum efnum, ef maður lætur duga það eitt að heyra Orðið en hlýðir því ekki. ?Hver sem er ekki með mér er á móti mér, og hver sem safnar ekki saman með mér, hann sundurdreifir. Þegar óhreinn andi fer út af manni, reikar hann um eyðihrjóstur og leitar hælis. Og er hann finnur það ekki, segir hann: Ég vil hverfa aftur í hús mitt, þaðan sem ég fór. Og er hann kemur og finnur það sópað og prýtt, fer hann og tekur með sér sjö aðra anda sér verri, og þeir fara inn og setjast þar að, og verður svo hlutur þess manns verri eftir en áður.?

Hér er Jesús að tala um djöfullegan, myrkan veruleika, sem er sá, að það er hægt að taka við Orði Guðs, það er hægt að heyra Guðs orð, frelsast frá allskyns synd og reyna hjálpræði Jesú og standa svo eftir, sópaður og prýddur, frelsaður og fínn, en innan tómur og opinn fyrir hverju sem er.

Erindi Jesú við þig og mig er eilíft samfélag. Drifkraftur hjálpræðisins er ást Guðs og þrá hans eftir þér, að þú sért með honum. Því hann þekkir eðli okkar og veit að séum við ekki með honum, þá erum við ekki með sjálfum okkur. ?Hver sem er ekki með mér er á móti mér, og hver sem safnar ekki saman með mér, hann sundurdreifir.? Hér er frelsarinn Jesús að tala í dauðans alvöru um það myrkasta af öllu myrku, um glötun hinna frelsuðu.

Í lok fjallræðunnar í Matteusarguðspjalli segir hann: „Ekki mun hver sá, sem við mig segir: „Herra, herra,“ ganga inn í himnaríki, heldur sá einn, er gjörir vilja föður míns, sem er á himnum. Margir mun segja við mig á þeim degi: „Herra, herra, höfum vér ekki kennt í þínu nafni, rekið út illa anda í þín nafni og gjört í þínu nafni mörg kraftaverk““ Þá mun ég votta þetta: „Aldrei þekkti ég yður. Farið frá mér, illgjörðamenn“.“ (Matt.7.22-23)

Illgjörðamenn!? Hvernig er hægt að vera illjgörðamaður í Jesú nafni? Hvernig er það hægt, að kenna í nafni Jesú, styðja aðra til helgunar í nafni hans og vinna kraftaverk, en vera allan tíman illgjörðamaður? Jesús, segir berum orðum að margir muni hafa alla eilífðina til þess að spyrja sig nákvæmlega þeirrar spurningar. ?Hver sem er ekki með mér er á móti mér, og hver sem safnar ekki saman með mér, hann sundurdreifir.? Það er hægt að boða Guðs orð með brugðnum brandi, hreinsa til og rétta af, áminna og dæma, því það gerir Guðs orð, en hafa algerlega yfirsést að fylla tómarúm syndarinnar með réttlæti, miskunn og trúfesti. Þá verður hlutur hins frelsaða verri, eftir en áður. Og það skelfilega við þessi orð er sú staðreynd að þau sem boða Krist með þessum hætti taka engin orð hans jafn oft sér í munn og þessi: „Hver sem ekki er með mér er á móti mér!“ Því hér er krafa Jesú orðuð, hin útilokandi krafa sem útilokar alla óhlýðni við hann, vilji menn eiga lífið í Kristi. Og vegna þess að orðin eru útilokandi og kröfuhörð þá taka guðrækilegir illgjörðamenn þau og nota að vopnum gegn fólki. Hér sannast orð Jesú: „…af orðum þínum muntu sýknaður, og af orðum þínum muntu sakfelldur verða.“ (Matt. 12:37)
Enginn, enginn getur beitt hinum útilokandi orðum Jesú, nema hann sjálfur og enginn getur heyrt þau, nema sá sem tekur við þeim fyrir sjálfan sig af vörum frelsarans. „Er ég illgjörðamaður í ríki Guðs?“ Þá spurningu ber ég upp við Jesú. Til þess eru orðin skráð að við mættum spegla okkur þar í einverunni með honum. „Þekkir þú mig, Jesús? Er ég með þér?“ Þannig á Orðið að dæma mig og þig.

En til þess að Orð Jesú geti dæmt mig og orðið sálu minni lífgjöf, þá þarf ég að vita og þekkja orðin sem Jesús mælti og skráð eru af skýrum ásetningi tveimur köflum framar í Guðspjallinu. Þar segir frá því í 11. kafla Matteusarguðspjalls að Jóhannes tók til máls: „Meistari, vér sáum mann reka út illa anda í þínu nafni, og vildum vér varna honum þess, af því að hann fygir oss ekki.“ En Jesús sagði við hann: „Varna þess ekki. Sá sem er ekki á móti yður, er með yður.“

Hér slær hjarta Guðs.
„Sá sem er ekki á móti yður, er með yður“ og „Hver sem ekki er með mér er á móti mér!“ Hjarta Guðs opnar og lokar, umfaðmar heiminn og krefur um persónulega ábyrgð, elskar skilyrðislaust og gerir skýlausa kröfu.
Ef við boðum kröfuna eina, þá fölsum við Guðs orð og verður hlustskipti hinna
trúuð þá verra eftir en áður, eins og guðspjallið útskýrir. Ef við prédikum ást Guðs í Jesú Kristi en áminnum ekki um góð verk, þá mun Kristur ekki við okkur kannast. Ef við snúum röðinni við og boðum kröfuna fyrst og ástina svo, þá erum við líka í hópi illgjörðamanna. Ekkert er alvarlegra en það, að falsa Guðs Orð. ?Verðið eigi margir kennarar, bræður mínir. Þér vitið að vér munum fá þyngri dóm? skrifaði Jakob postuli. (Jak. 3.1) Það er dauðans alvara að boða fagnaðarerindi Jesú og á því skyldi enginn snerta nema sá sem bæði óttast og elskar Guð.

Um þetta snérist m.a. glíma Jesú við fræðimenn og farísea. „Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar!“ mælir hann í 23. kafla Matteusarguðspjalls. (v. 23) „Þér gjaldið tíund af myntu, anís og kúmeni, en hirðið ekki um það, sem mikilvægast er í lögmálinu, réttlæti, miskunn og trúfesti. Þetta bera að gjöra og hitt eigi ógjört láta. Blindu leiðtogar, þér síið mýfluguna, en svelgið úlfaldann!“
Hver var að tala um bókstafstrú? Hver segir að ekki eigi að greina aðalatriði frá aukaatriðum þegar kemur að lestri Biblíunnar? Jesús kallar þá iðju því nafni „að sía mýfluguna en svelgja úlfaldann“. „Vei yður hræsnarar, segir Jesús. Þið gjaldið tíund af myntu, anís og kúmeni. Þið fylgið siðaboðum Biblíunnar af nákvæmni, kunnið hana spjaldanna á milli en sjáið ekki tengsl hennar við raunveruleikann og hirðið ekki um það, sem mikilvægast er í lögmálinu, réttlæti, miskunn og trúfesti. Þetta ber að gjöra og hitt eigi ógjört láta.“ – Þið greiðið í stöðumælinn, styrkið hjálparstörf og sækið kirkju á sunnudögum en gefið skít í manneskjur.

Í 9. kafla Matteusarguðspjalls er frá því greint að Jesús sat að borði með mörgum tollheimtumönnum og öðrum sem samfélagið fyrirleit. „Þegar farísear sáu það, sögðu þeir við lærisveina hans: „Hvers vegna etur meistari yðar með tollheimtumönnum og bersyndugum““ Jesús heyrði þetta og sagði: „Ekki þurfa heilbrigðir læknis við, heldur þeir sem sjúkir eru. Farið og nemið, hvað þetta merkir: „Miskunnsemi vil ég, ekki fórnir.“ Ég er ekki kominn til að kalla réttláta, heldur syndara.“
Farið og nemið! Sagði Jesús. Fariði bara og hugsið ykkar gang. Af hverju sagði hann þeim að fara? Vegna þess að þeir voru með orðum sínum og yfirlæti að særa og meiða manneskjur sem Jesús elskaði og virti. „Farið og nemið!…Miskunnsemi vil ég ekki fórnir! Ég er ekki kominn til að kalla réttláta, heldur syndara.“
M.ö.o. ef þú ert ekki reiðubúinn að vera einn í hópi syndara, heldur upplifir sjálfan þig á beinni braut með Guði þá ertu ekki í fylgd með Jesú.? Ef hjarta þitt er bara frelsað og fínt, sópað og prýtt, þá er hætt við að ýmsir geri sér bústað í því, svo hlutur þinn verði verri eftir en áður. ?Guði þekkar fórnir eru sundurmarinn andi, sundurmarið og sundurkramið hjarta munt þú, ó Guð eigi fyrirlíta!? segir í Davíðssálmum. (Sálm. 51:19)

Niðurstaða mín er þessi:
Ef réttlæti, miskunn og trúfesti á ekki bústað í sál minni fyrir heilagan anda, þá munu ekki færri en sjö aðrir andar taka sér bólefestu þar. Ég veit ekki hvað þeir heita allir, en þeir eru nokkrir sem ég hef kynnst af eigin raun í mínu eigin hjarta. Einn heitir hroki, annar heitir sjálfsupphafning, þriðji heitir trúaroflæti og sá fjórði mannfyrirlitning. Þessum öndum hef ég kynnst hér inni og ég veit að ekkert nema iðrunarbænir í Jesú nafni reka þá á braut. Ekkert nema það að auðmýkja mig undir Guðs voldugu hönd, krjúpa við kross Krists og játa syndir mínar hefur frelsað mig frá þessum öndum. Og það væri ekki fyrir nein persónuleg gæði af minni hálfu ef mér auðnaðist að hrokast ekki upp gagnvart fólki, heldur væri það bara vegna þess að ég þekki Jesú. Ég veit á hvern ég trúi. Ef ég færi að eðli mínu og prédikaði í Jesú nafni t.d. fyrirlitningu á samkynhneigðu fólki, þá veit ég, af því að ég þekki Jesú og elska hann og óttast, að hann myndi kalla mig illgjörðamann á efsta degi.
Eðli mitt segir mér það ekki. Eðli mitt segir mér að fyrirlíta allt sem ég óttast. Eðli mitt segir mér að fara ódýrustu leiðina og þá áhættuminnstu. Eðli mitt segir mér að taka þátt í einelti, en rísa ekki upp gegn því. En vegna þess að ég þekki Jesú og hann hefur með endalausri þolinmæði afhjúpað fyrir augum mínum hverja syndina á fætur annari í lífi mínu og er alltaf að leiða mig nær og nær vilja sínum og sýnir mér fyllsta traust, þótt ég eigi það síst skilið af öllum mönnum, af þeirri ástæðu þori ég ekki annað en að sýna öðru fólki traust og virðingu. Guð veit að samstaða mín með réttindabaráttu samkynhneigðra kemur ekki til af neinum kjarki, heldur vegna þess eins að ég óttast Guð og veit að hann á erindi við manneskjur eins og mig. Það er allt og sumt. Og sem þjónn fagnaðarerindisins spyr ég þig, kristni karl og kristna kona, og ég spyr ekki síst þau ykkar sem boðið Orð Guðs í Jesú nafni: Þorið þið í alvöru að dæma samkynhneigða frá borði Jesú? Hrís ykkur ekki, eins o
g mér, hugur við þeirri tilhugsun að standa við hlið þeirra sem spurðu: ?Hvers vegna etur meistari yðar með tollheimtumönnum og bersyndugum?? Hljótum við ekki að hlýða orðum Jesú og fordæmi og boða öllu fólki miskunn Guðs, svo að dómurinn megi vakna í sál hvers manns frammi fyrir Jesú einum? Ætlum við að halda áfram að umsnúa fagnaðarerindinu með handafli og ræna Jesú tign sinni? Hann mun dæma, ekki ég, ekki þú.

Verðum við ekki að játa okkur sigruð? Verðum við ekki að gefast upp fyrir Drottni Jesú og auðmýkja okkur undir hans voldugu hönd? Verðum við ekki að viðurkenna að ?kirkjan er oss kristnum móðir?, eins og við sungum hér áðan á undan prédikuninni. Verðum við ekki að feta í fótspor þeirra hundruða íslenskra mæðra sem hafa látið hjartað ráða og lagt samkynhneigðu börnin sín að hjarta sér og staðið með þeim gegn kirkjunni og þjóðfélaginu? Gegn kirkjunni! ?Sæll er sá kviður, er þig bar, og þau brjóst, er þú mylktir!? hrópaði konan í mannfjöldanum, vegna þess að orð Jesú snertu það dýpsta og fegursta í barmi hennar. Þegar móðurástin er orðin gegn kirkjunni, þegar svo er komið, þá er eitthvað að kirkjunni.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.

Leave a Reply