Skip to main content
search
Uncategorized

Um hjónabönd samkynhneigðra

By 1. júní, 2007No Comments

Inngangur

„Þeir menn sem geta börn í frillulífi gjaldi átján álnir hvort um sig að fyrstu barneign. En sex aura að annarri barneign. Að þriðja barni tólf aura hvort um sig. Að fjórðu barneign þrjár merkur hvort u m sig og fariaf fjórðunginum. Kunni þau í fimmta sinn brotleg að verða sín á millumað fimmta barni missi húðina eður eigist. Skal presturinn til skyldur uppá síns embættis vegna og svo sýslumaðurinn uppá síns valds vegna,slíka menn harðlega að áminna, að þau af láti þvílíkum óheyrilegumlifnaði og lifi með öngu móti í slíkum opinberlegum hneykslunum.“ (Úr Stóradómi 1564.)

Þessum lagatexta frá 16. öld var greinilega ætlað að letja menn til barneigna utan hjónabands. Sifjaréttur þess tíma hafði það meginhlutverk að koma í veg fyrir að skillítið fólk hlæði niður ómegð svo það yrðu of margir munnar að fæða. Að þessu kem ég síðar þótt viðfangsefni mitt hér sé ekki barneignir heldur hjónabönd samkynhneigðra, sem leiða sjaldnast til mikillar mannfjölgunar. 

Þegar Ágúst Þór Árnason bað mig flytja erindi um þetta efni hjá Akureyrarakademíunni í nóvember 2006 þótti mér það satt að segja ekki mjög spennandi. Ég sá ekki betur en deila um það hvort leyfa skuli hommum og lesbíum að giftast eins og öðru fólki væri innantóm og án spennandi hugmynda. Þeir sem eru með tala í nafni jafnréttis og þeir sem eru á móti bulla tóma vitleysu. Er þetta ekki bara eitt dæmið enn um átök upplýsingar við afturhaldssöm trúarbrögð, heimsku og fordóma? Er hægt að finna einhvern merkilegan flöt á umræðu þar sem öll skynsamleg rök hníga í eina átt?

Ekki er nóg með að umræðan sé lítið spennandi. Henni virðist lokið. Hér á landi hafa hommar og lesbíur getað gengið í hjónaband síðan lög um staðfesta samvist (nr. 87/1996) tóku gildi fyrir rúmum áratug. Þótt samband þeirra heiti ekki hjónaband heldur staðfest samvist í lögunum er hún jafngild hjónabandi karls og konu. Eftir setningu þessara laga árið 1996 vantaði að vísu nokkuð á fullt jafnrétti hvað varðar fjölskyldurétt samkynhneigðra. Um þetta segir Þorvaldur Kristinsson í grein á vefsíðu Samtakanna ’78 ():

Eftir stóðu þó þau ákvæði laganna frá 1996 sem meina konum í staðfestri samvist rétt til tæknifrjóvgunar; einnig það ákvæði sem meinar pari í staðfestri samvist að ættleiða barn sem er báðum óskylt (frumættleiðing).Þá leyfðist einungis borgaralegum vígslumanni en ekki kirkjulegum að staðfesta samvist fólks af sama kyni. Einnig urðu talsmenn homma og lesbía nú til að vekja rækilega máls á því misrétti sem fólst í stöðu fólks í óvígðri sambúð. Þar lutu gagnkynhneigð pör ýmsum réttindum og skyldum sem samkynhneigðum pörum var meinuð með því að þeim var ekki mögulegt að skrá óvígða sambúð sína á Hagstofu. 

Þessu misrétti var að mestu rutt úr vegi með lögum nr. 65/2006 sem tóku gildi 27. júní sama ár.

Er málið þá ekki útrætt? Er um nokkuð að tala?

Svona hugsaði ég fyrst eftir að ég var beðinn að fjalla um þetta mál. En eftir að hafa velt því fyrir mér nokkra stund áttaði ég mig á að ég vissi minna en ég hélt. Fleiri spurningar vöknuðu og sumar, að mér virtist, nokkuð erfiðar. Eftir að hafa plægt gegnum talsvert af skrifum eftir menn sem eru mótfallnir hjónaböndum samkynhneigðra hef ég áttað mig á því að það sem þeim þykja yfirleitt mikilvægustu rökin í málinu sýnist frá mínum bæjardyrum ekki koma því neitt við. Algengustu ástæður þeirra virðast vera af þrennu tagi.

 1. Samkynhneigð er í sjálfri sér slæm, ónáttúruleg eða andstæð vilja guðs.
 2. Það er börnum fyrir bestu að alast upp á heimili með bæði föður og móður.
 3. Hjónabandið er ein af helstu undirstöðum samfélagsins og breytingar á því geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir þróun alls mannlífs.

Fyrstnefnda ástæðan er lítið annað en ómerkilegur sleggjudómur. Þó má ef til vill segja að hún sé að einhverju leyti leifar af viðhorfum sem eitt sinn höfðu nytsamlegu hlutverki að gegna. Fyrir daga getnaðarvarna snerist allnokkur hluti siðferðis um að koma í veg fyrir kynlíf svo samfélagið sæti ekki uppi með of mikla ómegð. Mönnum var innprentað að kynlíf ánægjunnar vegna væri synd. Holdsins lystisemdir voru aðeins fyrir hjón sem ætluðu að eignast börn og höfðu efni á að ala þau upp. Svona siðaboð voru kannski hagkvæm á sínum tíma og þá lá ef til vill beint við að líta á mök samkynhneigðra sem synd því þau voru jú kynlíf ánægjunnar vegna.

Nú gerir flest fólk þetta að gamni sínu eða kannski til þess að rækta ástina og uppfylla þörf fyrir innilegt samband. En hugmyndir eru lengi að deyja. Hagsýni gærdagsins er hluti af samvisku góðra manna í dag og runnin saman við meinfýsi vondra manna á morgun. Úlfúð í garð samkynhneigðra virðist nátengd siðaboðum um kynlíf og kynhegðun sem höfðu hlutverki að gegna á fyrri tíð, en eru nú úrelt orðin.

Hvað atriði númer 2 varðar er það ef til vill fremur rök gegn hjónaskilnuðum en gegn hjónaböndum samkynhneigðra. Það er vægast sagt afar ósennilegt að mörg börn sem alast upp hj&
aacute; samkynhneigðu pari mundu að öðrum kosti alast upp hjá báðum kynforeldrum. Þá hef ég afgreitt ástæðurnar sem taldar voru númer 1 og 2 og eftir stendur ástæða númer 3. Hún vekur að mínu viti áhugaverðar spurningar bæði um hlutverk fjölskyldunnar og um skilgreiningu á hjónabandi. Áður en ég sný mér að þessum áhugaverðu spurningum ætla ég að afgreiða eina, sem er ekki eins áhugaverð, svo hún þvælist ekki fyrir. Þessi spurning varðar merkingu orðsins „hjónaband“, hvort það merki ekki samband karls og konu og það sé því einhvers konar málvilla að tala um hjónaband þegar tveir einstaklingar af sama kyni eiga í hlut.

Við þessu er held ég það einfalda svar að orð breyta um merkingu án þess að veröldin gangi úr skorðum. Við notum orðin „mús“, „diskur“, „skjár“ og „vefur“ t.d. um fleira en gert var fyrir daga tölvu- og upplýsingatækni. Hvað gerir til þótt orðið „hjónaband“ sé notað um fleira nú en áður? Í lifandi máli er lítið vit að reyna að frysta merkingu orða. Þau eru og verða vonandi áfram löguð að nýjum veruleika á hverjum degi. 

Hlutverk fjölskyldunnar

Þar sem oss er ljóst að ríkið samanstendur af heimilum hljótum vér að ræða um heimilishald áður en vér fjöllum um ríkið. Heimili er samsett af pörtum sem svara til þeirra persóna sem á því búa og fullkomið heimili samanstendur af þrælum og frjálsum mönnum. Nú skyldi rannsókn hafin á sem fæstum frumþáttum. Hlutar fjölskyldunnar geta ekki færri verið en herra og þræll, húsbóndi og eiginkona, faðir og börn. Vér verðum því að skoða þessi þrenns konar vensl, hver þau eru og hver þau ættu að vera. … Fjölskyldan hefur svo enn einn þátt, sem er listin að afla auðs, sem sumir telja sömu list og heimilishald en aðrir álíta að sé einn mikilvægasti hluti heimilishaldsins. Vér skulum því einnig skoða eðli þessarar listar. (Aristóteles: Politica I:3 1253a-b)

Það er ljóst öllum sem vilja vita að fjölskyldulíf og heimilishald hafa breyst mikið frá því sem var í sveitasamfélagi fyrri alda. Systkinahópar eru fámennri, hjónabönd endast að jafnaði skemur og heimili þar sem aðeins býr einn fullorðinn eru orðin hlutfallslega fleiri. Þessar breytingar eru nátengdar breytingum á hlutverkum fjölskyldunnar. Einu sinni var hún allt í senn:

 • Velferðarkerfi sem sá um framfærslu ómaga og veitti mönnum öryggi svo að þeir sultu
 • ekki þótt þeir væru ófærir um að afla sér matar, t.d. vegna sjúkdóma.
 • Uppeldis- og menntastofnun sem sá um nær alla menntun og barnafræðslu, félagsmótun og  félagslegt taumhald.
 • Fyrirtæki sem framleiddi flest efnaleg verðmæti.

Í þá tíð var nánast ekki hægt að vera til nema sem hluti af fjölskyldu. Þá var hjónabandið líka forsenda þess að geta stundað kynlíf með löglegum hætti og skorður settar við því hverjir máttu ganga í hjónaband, verða húsbóndi og húsfreyja. Aðrir hlutu að vera hjú eða vinnufólk. Einhvern veginn svona hafði þetta verið um aldaraðir og það sem Aristóteles sagði um fjölskylduna fyrir meira en tveim árþúsundum, og vitnað er í hér að framan, var ekkert fjarri því að gilda hjá sveitamönnum á Íslandi á 19. öld ef við setjum vinnufólk og hjú í stað þræla.

Fjölskyldan var grunneining gamla samfélagsins. Það var fjölskyldusamfélag þar sem dæmigert heimili var sveitabær undir stjórn húsbónda og húsfreyju. En tímarnir líða og breytast og nú í byrjun 21. aldar urðu þau umskipti í sögu mannkynsins að borgarbúar á jörðinni urðu fleiri en sveitamenn.

Í dæmigerðu fjölskyldusamfélagi var hjúskapur oft ákveðinn af foreldrum brúðar og brúðguma. Ákvörðunin byggðist oftar en ekki að nokkru á efnahagsle gum rökum og hjúskaparslit voru erfið eða ómöguleg. Allt er þetta nú breytt. Hjónaband er ekki lengur samningur sem margir koma að og snýst um að stofna efnahagslega og félagslega einingu með öll þau þrenns konar hlutverk sem talin voru hér að framan. Það er samband tveggja einstaklinga sem ákveða sjálfir að búa saman vegna þess að þeir elska hvor annan. Ákvörðunin kemur öðrum lítið við og hefur nær ekkert með hagstjórn að gera. Ef hún reynist illa er hægt að hætta við því hjón geta auðveldlega skilið.

Í stuttu máli má segja að fjölskyldupólitík gamla samfélagsins hafi snúist um að koma öllum fyrir á heimili og tryggja um leið að ekki yrðu of margir munnar að fæða. Nú á tímum er hver á eigin vegum og fjölskyldupólitík snýst fremur um að koma í veg fyrir að barnsfæðingum fækki enn meir en að hindra að fólk hlaði niður ómegð. Hjónaband nú og hjónaband fyrir 100 eða 200 árum eru gerólíkar stofnanir. Fjölskyldan er að vísu enn hluti af velferðarkerfi samfélagsins og í 46. gr. hjúskaparlaga (nr. 31/1993) segir: „Hjón bera sameiginlega ábyrgð á framfærslu fjölskyldunnar.“ Hún er líka uppeldisstofnun og innan veggja heimilisins er ýmislegt unnið, eins og t.d. matargerð, sem er hluti af efnahagslífinu. En öll þessi hlutverk fjölskyldunnar hafa skroppið saman jafnframt því sem ríkið og markaðurinn uppfylla fleiri og fleiri þarfir. Í ljósi þessa er svolítið undarlegt að menn skuli andmæla hjónaböndum samkynhneigðra á þeim forsendum að þau raski gamalgróinni skipan eða breyti undirstöðum samfélagsins. S&ua
cute; breyting á fjölskyldu- og heimilislífi sem leiðir af hjónaböndum homma og lesbía er næstum örugglega mjög lítil í samanburði við breytingarnar sem orðið hafa vegna:

 • Stjórnmálavæðingar samfélagsins, útþenslu ríkisvaldsins, tilkomu félagslegra
 • velferðarkerfa og skóla fyrir öll börn.
 • Markaðsvæðingar æ fleiri sviða mannlífsins.
 • Ódýrra og þokkalega öruggra getnaðarvarna.

Lítum nánar á tvö fyrrnefndu atriðin. Velferðarkerfi eiga sinn þátt í breytingum á fjölskyldulífi því þau draga úr áhættunni sem fólk tekur við að yfirgefa fjölskylduna. Sá sem lifir einn þarf ekki að óttast hungurdauða þótt hann sé óvinnufær um skeið. Breytingar frá sjálfsþurftarbúskap til aukinnar markaðsvæðingar auðvelda einstaklingum líka að vera óháðir fjölskyldu. Þetta gerist á marga vegu. Sem dæmi má nefna að fólk sem býr eitt getur fengið nóg að borða án þess að hafa mikið fyrir sláturgerð, mjöltum eða bakstri. Markaðurinn og ríkið hafa séð mönnum fyrir útgönguleiðum svo að þeir geta lifað einir án teljandi stuðnings frá fjölskyldu.

Stundum er talað um ríkið og markaðinn sem einhvers konar andstæður. Þeir sem fylkja sér undir merki módernismans og aðhyllast stjórnmálaskoðanir sem rekja má til Johns Locke og Benedicts Spinoza, skiptast í pólitískar fylkingar eftir því hvort þeir vilja fremur aukin ríkisumsvif eða aukna markaðsvæðingu. Jafnaðarmenn vilja að ríkið geri meira og markaðurinn minna, en frjálshyggjumenn að markaðurinn fái fleiri hlutverk og ríkið færri. En útþensla ríkis og markaðar hafa í raun farið saman og þessi tvenns konar átrúnaðargoð nútímans hafa að miklu leyti skipt á milli sín hlutverkum fjölskyldunnar. Trú okkar á þau er nátengd upplýsingarstefnu, skynsemishyggju, áherslu á jafnrétti, vísindalega hugsun, hagvöxt og tækniframfarir. Þau vinna oft saman en eru, eins og guðirnir í Hómerskviðum, dálítið afbrýðisöm ef hinu eru færðar of miklar fórnir.

Meginstefnurnar í stjórnmálum nútímans spanna bilið frá frjálshyggju til jafnaðarstefnu. Flestir stærstu stjórnmálaflokkarnir í Norður- og Vestur-Evrópu eru staðsettir einhvers staðar á þessari breiðu miðju. Við getum kennt það sem þeir eiga sameiginlegt við módernisma, upplýsingu eða frjálslynda einstaklingshyggju. Mögulegir merkimiðar eru fleiri en einn og fleiri en tveir. Þótt þessi breiða miðja sé kannski stundum dálítið sjálfumglöð, er langt því frá að hún sé neitt einráð eða eigi allt pólitíska sviðið. Aðrar stefnur, sem standa á jaðrinum, hafa áhrif og eiga sumar tungu í höfði ólíklegustu manna. Hér má t.d. nefna allmörg afbrigði af vinstri róttækni, þjóðernisstefnu í ýmsum myndum og íhaldssemi sem byggir oft á trúarlegum forsendum og snýst að verulegu leyti um að varðveita siðferði og gildismat fjölskyldusamfélagsins.

Ég held að andstöðu margra íhaldsmanna gegn hjónaböndum homma og lesbía verði að skoða í þessu ljósi. Hún er af svipuðu tagi og andstaða þeirra gegn öðrum breytingum frá fjölskyldusamfélagi til markaðs- og velferðarsamfélags. Þessar breytingar hafa fært þorra fólks ríkulegri kjör, aukið frelsi og betra líf. En þær hafa samt ekki verið sársaukalausar. Og vegna þess að menn skilja ekki hvað er að gerast virðast sumir halda að hægt sé að koma í veg fyrir ókosti ríkis- og markaðsvæðingar með því að ríghalda í mynd af fjölskyldunni sem er löngu úrelt. En það er líkast til ekki leiðin til að halda í þau mannlegu verðmæti sem um er að tefla: Hlýju, nálægð, félagslegt taumhald og tilveru þar sem allir hafa hlutverk og lifa fyrir eitthvaðannað og meira en það eitt að þjóna lund sinni.

Andstaða gegn breytingum á fjölskyldu- og heimilislífi lætur lítið á sér kræla þegar þær gerast jöfnum skrefum án þess að neinar pólitískar stórákvarðanir séu teknar um málið. En þegar rætt er um löggjöf, stjórnvaldsákvarðanir eða meiriháttar samfélagsbreytingar sem gera mönnum auðveldara að lifa án hefðbundinnar fjölskyldu þá heyrist hljóð úr horni. Dæmin eru mörg:

 • Afnám vistarbands.
 • Myndun þéttbýlis.
 • Frjáls sala á getnaðarvörnum.
 • Stuðningur við einstæðar mæður.
 • Hjónabönd samkynhneigðra.

Næsti slagur verður kannski um líftækni og fjölbreytilegri tækifæri til að eignast afkvæmi. Menn upplifa þetta sem ógn við fjölskylduna en þetta er í raun og veru ógn við fjölskyldusamfélagið fremur en við gott heimilislíf. Þeir sem telja sig verja fjölskylduna og fjölskyldugildi hvarfla gjarna milli þess að verja siðferði og samfélagshætti úr heimi fjölskyldusamfélagsins og þess að mæla fyrir góðu heimilislífi. En það er engan veginn augljóst að þarna á milli séu nein tengsl.

Íhaldsmenn sem vilja halda í fjölskyldusamfélagið og hægja á framrás ríkis og markaðar byggja rök sín oft á trúarlegum forsendum, enda styðst félagslegt taumhald í fjölskyldusamfélagi kannski fremur við sameiginlega trú, sem helgar einhverja fastskorðaða lífshætti og valdamunstur, en við lög, dómstóla og formlega skilgreind réttindi. Trúarbrögðin eru líka sprottin úr fjölskyldusamfélögum og margt í helgiritum kristinna manna, gyðinga og músli
ma endurspeglar slíka samfélagsgerð og ýtir þar með undir íhaldssemi af þeirri gerð sem hér er til umræðu.

*

Það er alvanalegt að kalla þá sem eru á móti markaðsbúskap vinstri öfgamenn og þá sem amast við velferðarkerfum hægri öfgamenn. Um þá sem eru bæði andvígir markaðsbúskap og velferðarkerfum eru notuð alls konar skammaryrði sem gefa til kynna að þeir séu á ysta jaðri í pólitík. En það eru samt þeir sem eru fylgjandi bæði velferðarkerfum og markaðsbúskap sem ýta helst undir breytingar sem er ekkert fráleitt að kalla öfgafullar, a.m.k. ef það eru öfgar að beita sér fyrir aldahvörfum eða byltingarkenndu umróti.

*

Áður en ég segi skilið við framrás módernismans og andstöðu gegn honum langar mig að segja í örfáum orðum frá athyglisverðri gagnrýni á markaðs- og velferðarsamfélög nútímans sem finna má í skáldsögum Michels Houellebecq. Houellebecq er franskur rithöfundur sem kemur við kviku samtímans. Tvær bækur hans hafa verið þýddar á íslensku af Friðriki Rafnssyni. Þetta eru skáldsögurnar Öreindirnar (Les particules élémentaires) og Áform (Plateforme). Báðar hafa vakið ofsafengin viðbrögð og reiði, en þeim hefur líka verið vel tekið og þær þýddar á fjölmörg tungumál.

Umfjöllun Houellebecqs um kynlífsiðnaðinn minnir um sumt á klám en er samt ekki klám heldur tilraun til að lýsa áhrifum þess á fólk. Michel sem er aðalpersónan í sögunni Áform er stórneytandi kláms og vændis og einangrast fyrir vikið. Hann myndar lítil tengsl við annað fólk því hann þarf ekki á því að halda að rækta sambandið við fjölskylduna. Ríkið og markaðurinn gera það auðveldara fyrir hann að standa einn en að takast á við erfiðleika í umgengni við ættingja. Í stað innilegra samskipta koma tilraunir til að kaupa ást. Saman við þessa frásögn blandast býsna róttækar efasemdir um að markaðsvæðing og algerlega sjálfstætt líf hvers og eins leiði til farsældar. Sama má segja um Öreindirnar. Þar fær sögumaður lesanda til að trúa því að gamla samfélagið, þar sem hver var öðrum háður en ekki frjáls að haga lífi sínu að vild, hafi veitt mönnum meiri hamingju en nútímamenn njóta, a.m.k þeir sem búa einir í sinni íbúð og kaupa allt sem þeir þurfa, líka kynferðislega fullnægingu.

Sýn Houellebecqs á tilveruna er líffræðileg og í anda þess Darwinisma sem er nú aftur tekinn að móta umræðu um mannlífið eftir að hafa legið í láginni um áratuga skeið. En öfugt við flesta sem skoða heiminn undir þessu vísindalega sjónarhorni boðar hann, að því mér virðist, íhaldssemi í siðferðisefnum. Í Öreindunum fá 68-byltingin, hipparnir og frjálslyndi í ástarmálum a.m.k. heldur ömurleg eftirmæli.

Í viðtali sem tekið var við Houellebecq árið 2002 (http://www.houellebecq.info/english) sagðist hann ekki mundu gefa út fleiri bækur, því fylgdu of mikil vandræði. Hann bjó þá á afskekktum stað á Írlandi til að vera óáreittur, því að íhaldsmenn hötuðu hann fyrir bersöglina og vinstrimenn lögðu fæð á hann fyrir aðdróttanir í þá veru að einstaklingsréttindi, velferð og samfélag sem gerir hverjum og einum kleift að standa á eigin fótum leiði í raun af sér einsemd og örvæntingu.

Lýsa sögur Houellebecqs upplausn samfélags vegna einstaklingshyggju, velferðarkerfis og markaðsvæðingar eða lýsa þær því bara hvað verður um kynlífsfíkil þegar ha nn er skilinn eftir einn með peninga í borg þar sem klám og vændi eru til sölu? Fyrir slíkan mann getur frelsið verið háski og hefndargjöf alveg eins og fyrir ofætu sem býr ein með fullar hendur fjár í bæ þar sem eru bakarí, sjoppur og ísbúðir. Slíkum manni væri e.t.v. betra að vera í vist þar sem húsfreyja skammtaði mat og menn ætu það sem fyrir þá væri sett, hvorki meira né minna. Ég treysti mér ekki til að leggja annan dóm á sögur Houellebecqs og boðskap þeirra en þann að ekki sé hægt að útiloka að hann hafi nokkuð til síns máls og markaðs- og velferðarsamfélög kunni að ala á einsemd og skapa umhverfi sem er miður hollt, a.m.k. fyrir suma.

*

Rökin sem oftast eru færð gegn hjónaböndum samkynhneigðra eru léleg. En ástæðurnar fyrir því að margir endurtaka þau af allmiklum sannfæringarkrafti eru merkilegt umhugsunarefni. Ég hygg þær séu að miklu leyti sömu ástæður og menn hafa til að amast við módernisma, markaðsvæðingu og útþenslu ríkisvalds og opinberra velferðarkerfa. Kannski hafa þeir sem reyna að halda í fjölskyldusamfélagið eitthvað til síns máls og kannski ættum við sem viljum að markaðs- og velferðarsamfélag þróist áfram að hugleiða hvort ekki sé hægt að koma að einhverju leyti til móts við þá sem álíta farsælla að hver og einn fái meiri stuðning og meira siðferðilegt aðhald af því fólki sem næst honum stendur.

Ég get ekki vitað hvað fer forgörðum með fjölskyldusamfélaginu og ekki heldur hvað vinnst á endanum með velferðar- og markaðssamfélaginu. Ég þykist hins vegar vita að hjónabönd samkynhneigðra séu ekki nein raunveruleg ógn við þau gildi úr fjölskyldusamfélaginu sem menn vilja varðveita. En í hugum margra er hjónaband karls og konu einhvers konar tákn fyrir þessi gildi, svolítið eins og hvalir eru orðnir tákn fyrir það sem náttúruverndarsinnum er annt um. Þar sem hva
lir eru hálftrúarleg tákn þýðir lítið að réttlæta hvalveiðar með því að benda á vísindaleg rök fyrir því að stofnarnir sem veitt er úr séu ekki í neinni hættu. Á sama hátt þýðir kannski lítið að benda trúuðum íhaldsmönnum á að hjónabönd samkynhneigðra séusmávægileg breyting í samanburði við aðrar breytingar sem orðið hafa á fjölskyldulífi undanfarna öld.

Skilgreining á hjónabandi

Þorvaldur hét maður son Halldórs Garpsdalsgoða. Hann bjó í Garpsdal í Gilsfirði, auðigur maður og engi hetja. Hann bað Guðrúnar Ósvífursdóttur á alþingi þá er hún var fimmtán vetra gömul. Því máli vareigi fjarri tekið en þó sagði Ósvífur að það mundi á kostum finna að þau Guðrún voru eigi jafnmenni. Þorvaldur talaði óharðfærlega, kvaðst konu biðja en ekki fjár. Síðan var Guðrún föstnuð Þorvaldi og réð Ósvífureinn máldaga … (Laxdæla saga, 34. kafli).

Hér á landi eru sérstök lög um hjúskap, hjúskaparlög (nr. 31/1993) ef um er að ræða hjónaband karls og konu og lög um staðfesta samvist (nr. 87/1996) ef um er að ræða hjónaband tveggja af sama kyni. Um hjónabönd er einnig fjallað í fleiri lagabálkum svo sem 21. kafla almennra hegningarlaga (nr. 19/1940) þar sem tilgreind eru viðurlög við sifskaparbrotum. Lögin útiloka fjölkvæni, fjölveri og hjónabönd náinna skyldmenna og banna að fólk yngra en 18 ára gangi í hjónaband án þess að hafa til þess sérstakt leyfi frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti. Þau tryggja líka rétt giftra einstaklinga til að skilja við maka sinn.

Bann við giftingum barna er innifalið í því að hjúskaparaldur sé jafn sjálfræðisaldri. Feðrum er því ekki heimilt að gefa 15 ára dætur sínar eins og Ósvífur gaf Þorvaldi Guðrúnu dóttur sína og sagt er frá í tilvitnuninni í Laxdæla sögu hér að framan. Varla er um það deilt að menn eigi ekki að gifta börn sín án þeirra samþykkis heldur skuli hjónaband stofnað af sjálfráða einstaklingum sem giftast af fúsum og frjálsum vilja. En hvers vegna ætti að setja fleiri skilyrði? Hvers vegna er lagt bann við fjölveri, fjölkvæni og hjúskap náskyldra? Og hvers vegna þarf að hafa sérstök hjúskaparlög? Hvers vegna má fólk sem giftist ekki ákveða sjálft hvaða skyldur það gengst undir? Hvers vegna ekki að leyfa hverjum sem er,  tveim eða fleirum, að gera samning um sambúð eða hjúskap með hvaða skilmálum sem þeim dettur í hug, að því einu gefnu að þeir séu fullorðnir og samþykki ráðahaginn ótilneyddir?

Ég býst við að mörgum talsmönnum frjálslyndrar einstaklingshyggju vefjist tunga um tönn ef þeir þurfa að svara þessum spurningum og öðrum ámóta, enda kannski ekkert einfalt að rökstyðja að það sé rétt og skynsamlegt að ríkið og lögin skilgreini hjúskap og bindi í leiðinni ýmis fríðindi, eins og samsköttun, við skilyrði hjúskaparlaga og laga um staðfesta samvist. Ef einstaklingshyggjumenn og módernistar geta ekki svarað þessum spurningum, en þykir samt ómögulegt að samþykkja t.d. fjölkvæni eða hjúskap skyldmenna, þýðir það þá að hefðarsinnar og íhaldsmenn standi með pálmann í höndunum og geti sagt: Þið viðurkennið í reynd og ykkur finnst innst inni að það sé meira vit í hefðinni en kenningunum sem þið hampið hvað mest – einstaklingshyggja ykkar og frjálslyndi stríða gegn ykkar eigin betri vitund.

Við þessu er að ég held ekkert eitt stutt svar. Ég hallast þó að því að hægt sé að réttlæta ýmis ákvæði hjúskaparlaga með hreinum og klárum nytjarökum sem samrýmast vel módernisma eða frjálslyndri einstaklingshyggju. Þessi lög vernda fólk gegn því að gera samninga sem verða því sjálfu til ama eða tjóns. Frjálsmannleg samfélög setja ýmis lög til að verja menn gegn sjálfum sér. Við bönnum fólki t.d. að selja sig í ánauð. Hér á landi og víðar er raunar gengið talsvert lengra en þetta. Í 7. grein laga um stéttarfélög og vinnudeilur (nr. 80/1938) segir t.d.:

 • Samningar einstakra verkamanna við atvinnurekendur eru ógildir að svo miklu leyti, sem þeir fara í bága viðsamninga stéttarfélags við atvinnurekandann, enda hafi félagið ekki samþykkt þá.

Í lögum um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla (nr. 19/1979) segir í 1. grein:

 • Verkafólki, sem ráðið hefur verið hjá sama atvinnurekanda í þrjú ár samfleytt, ber tveggja mánaða uppsagnarfrestur. Eftir fimm ára samfellda ráðningu hjá sama atvinnurekanda ber verkafólki þriggja mánaða uppsagnarfrestur. … Launþega, sem rétt á til uppsagnarfrests samkvæmt þessari grein, skal skylt að tilkynnameð sama fyrirvara, ef hann óskar að hætta störfum hjá atvinnurekanda sínum.

Og í 10. grein:

 • Ákvæði samnings milli atvinnurekanda og launþega, sem brjóta í bág við lög þessi, eru ógild, ef þau rýra rétt launþegans.

Nú ætla ég svo sem ekki að mæla þessum lögum bót. Ég held að þau gangi of langt í að verja menn gegn því að semja af sér. En ef nytjarök réttlæta lagasetningu sem gengur í þessa átt, þó ekki sé nema eitt hænufet, hljóta þá ekki svipuð rök að mæla með því að fólk sé verndað gegn sjálfu sér á sviði sifjar&e
acute;ttar eins og á sviði vinnuréttar? Hætturnar eru meiri þar ef eitthvað er. Menn gætu í augnabliksástarvímu samið um ævilangt hjónaband þar sem ekki væri kostur á neinni útleið þótt það reyndist hreint helvíti. Það kunna að vera skynsamlegar ástæður til að hafa sérstök lög um hjónabönd.

Þetta svarar vitaskuld ekki spurningum um fjölkvæni, fjölveri og hjónabönd skyldmenna. Ef til vill eru nytjarök fyrir banni við þessu, ef til vill ekki. Það er efni í aðra grein. En hvað sem því líður þá eru skiljanlegustu rökin fyrir því að hafa sérstök hjúskaparlög ekki sérlega hliðholl eldri viðhorfum til hjónabands karls og konu. Það að tryggja útgönguleið og banna giftingar barna útilokar í raun brúðkaup í þeim gamla skilningi að fjölskylda brúðguma kaupi stelpukrakka til ævilangrar eignar. Það má raunar segja að nú til dags sé helsta hlutverk þessara laga að banna og koma í veg fyrir hefðbundnustu gerð af hjónaböndum gagnkynhneigðra.

Þeir sem telja að hjónabönd homma og lesbía grafi undan dýrmætri hefð ættu e.t.v. að hafa í huga að helstu burðarvirki hennar voru orðin ansi fúin áður en samkynhneigðir tóku að krefjast sömu réttinda og gagnkynhneigðir njóta.

Atli Harðarson

Copyright © Skýrnir 2007 vor, 1. tbl. 181 árg. bls. 203-215
Tilvitnun er öllum heimil sé heimildar getið

Leave a Reply