Skip to main content
search
Uncategorized

Um réttarstöðu samkynhneigðra

By 1. nóvember, 2004No Comments

Í ágúst sl. skilaði nefnd sem forsætisráðherra skipaði til að kanna réttarstöðu samkynhneigðs fólks skýrslu með niðurstöðum nefndarstarfsins. Niðurstöður þessar eru athyglisverðar og þokar nokkuð í átt jafnréttis en gætir þó enn fordóma og vantrausts í garð samkynhneigðra.

Einhverra hluta vegna virðist helmingur nefndarmanna ekki hafa lagt sama skilning á hlutverk sitt ef marka má afstöðu þeirra til annars af tveimur helstu umfjöllunarefnum nefndarinnar, sem voru annars vegar réttarstaða samkynhneigðra í sambúð og hins vegar réttur samkynhneigðra til að eignast og ala upp börn. Í skipunarbréfi nefndarinnar kemur skýrt fram að mínu viti að nefndin skuli gera tillögur um úrbætur og benda á nauðsynlegar aðgerðir til þess að jafna stöðu samkynhneigðra og gagnkynhneigðra í samfélaginu.

Þó að í skýrslunni sé sérstaklega tekið fram að enginn skoðanamunur hafi verið hjá nefndarmönnum um að samkynhneigðir einstaklingar séu jafn hæfir uppalendur og gagnkynhneigðir þá er það niðurstaða þriggja nefndarmanna að ekki sé rétt að heimila ættleiðingar samkynhneigðra para á erlendum börnum og að ekki sé rétt að aðrir en gagnkynhneigð pör eigi aðgang að tæknifrjógunum.

Rök nefndarmannana þriggja fyrir ættleiðingum á erlendum börnum eru þau að asíulönd leyfa ekki ættleiðingar til samkynhneigðra og með því að breyta lögunum muni samkynhneigðir "skemma" fyrir gagnkynhneigðum. Á það í alvöru að hafa úrslitaáhrif á okkar löggjöf hvað stendur í lögum Thailands eða Kína? Málið er að á Íslandi getum við haft lög sem kveða á um jafna stöðu samkynhneigðra og gagnkynhneigðra í samfélaginu þó að Asíubúar séu ekki nálægt því jafnlangt á veg komnir og brjóti á mannréttindum sinna þegna hvort sem þeir eru samkynhneigðir eða ekki.

Frændur okkar Svíar breyttu þessu fyrir tveimur árum og ekki hefur það útilokað samstarf þeirra um ættleiðingar til gagnkynhneigðra frá asíulöndunum. Svo ljóst er að nefndarmenn þessir þurfa ekki að óttast að við þessi samkynhneigðu séum að "skemma" fyrir gagnkynhneigðum.

Önnur rök hjá þessum sömu nefndarmönnum sem að mér vega sem samkynhneigðri móðir eru þau að börn samkynhneigðra foreldra verði fyrir ákveðnu félagslegu álagi og ekki sé á sálrænt álag kjörbarna frá öðrum löndum meira leggjandi. Hér er væntanlega verið að vísa í fordóma samfélagsins gagnvart bæði nýbúum og samkynhneigðum. Í sömu skýrslu og fram kemur að fordóma þurfi að uppræta með fræðslu og umræðu sem gerir samkynhneigða sýnilegri í þjóðfélaginu ályktar helmingurinn af nefndinni að fordómum skuli viðhaldið í íslenskri löggjöf.

Og þá eru það sjónarmið sömu nefndarmanna hvað varðar tæknifrjóvganir. Að sama skapi skiptast skoðanir nefndarmanna við þetta atriði eins og ættleiðingarnar og rökin í þetta skipti eru þau að hagsmunum barnsins til að þekkja bæði móðir og föður sé best þjónað með því að neita lesbískum pörum um rétt, sem gagnkynhneigðum er færður á silfurfati. Ég ber nafn föður míns en þekki hann lítið sem ekki neitt. Ég þekki reyndar marga sem svo er fyrirkomið enda sýnir Íslendingabók svo ekki verður um villst að ekki eru allir íslendingar rétt feðraðir og börn getin í lausaleik eru jafnvel algengari en gengur og gerist hjá öðrum vestrænum þjóðum. Hjónaskilnaðir eru tíðir hér á Íslandi og ósjaldan rata forræðisdeilur foreldranna í fjölmiðlana. Oftar en ekki er hagsmunum barnanna best þjónað með því að meina öðru foreldri umgengnisrétt og hvað er þá orðið um rök nefndarmanna um að barn skuli þekkja bæði föður og móður? Í barnalögunum er réttur barna til að þekkja faðerni sitt undirstrikaður og þessu beyta þessir þrír nefndarmenn fyrir sig.

Á sama tíma er gagnkynhneigðum pörum gefin möguleiki á aðstoð lækna til tæknifrjóvgunar með gjafasæði sem sótt er til Danmerkur þar sem nafnleynd ríkir um sæðisgjafana. Á sama tíma eru börn ættleidd til landsins af gagnkynhneigðum pörum og engin möguleiki á að rekja uppruna/faðerni flestra þeirra.

Á sama tíma er lesbískum pörum meinaður aðgangur að tæknifrjógunum af þeirri ástæðu að barnið mun ekki þekkja faðerni sitt? Þetta eru niðurstöður þriggja af sex nefndarmanna sem áttu að gera tillögur um úrbætur og benda á nauðsynlegar aðgerðir til þess að jafna stöðu samkynhneigðra og gagnkynhneigðra.

Af öllu ofansögðu má vera ljóst að málflutningur og rök þessara þriggja nefndarmanna er litaður af hræðsluáróðri og fordómum í garð samkyhneigðra og hvað varðar hugsmuni barnanna þá verður þeim alltaf best þjónað með því að hæfir foreldrar sinni uppeldishlutverkinu burtséð frá því hvort um samkynhneigt eða gagnkynhneigt fólk er að ræða. Eða eins og kom fram í skýrslunni og ég tiltek í upphafi máls míns þá var enginn skoðanamunur hjá nefndarmönnum um að samkynhneigðir einstaklingar séu jafn hæfir uppalendur og gagnkynhneigðir. Ég, samkynhneigð móðir tveggja barna skora á alþingismenn að virða sjálfsögð mannréttindi okkar samkynhneigðs fólks og staðfesta þar með tilverurétt minn og fjölskyldu minnar í íslensku þjóðfélagi.

Svanfríður Lárusd&oa
cute;ttir

Copyright © Morgunblaðið 2004
Tilvitnun er öllum heimil sé heimildar getið

Leave a Reply