Samtökin ’78 ásamt Trans Íslandi hafa skrifað leiðbeiningar um kynskráningar sérstaklega miðaðar að lögaðilum sem safna upplýsingum um kyn, t.d. fyrirtæki og opinberar stofnanir
Kynskráningar á eyðublöðum fyrir fyrirtæki, stofnanir eða aðra viðeigandi aðila
Samkvæmt lögum um kynrænt sjálfræði nr. 80/2019 ber bæði opinberum aðilum og einkaaðilum sem skrásetja kyn hjá sér að gera ráð fyrir kynhlutlausri skráningu kyns, t.d. á skilríkjum, eyðublöðum og í gagnasöfnum. Þetta felur í sér að bjóða upp á annan möguleika en eingöngu „karl“ og „kona“ þegar kemur að skrásetningu kyns.
Hvers vegna kynhlutlaus skráning?
Kynhlutlaus skráning er til þess að koma til móts við fólk sem eru ekki karlar eða konur, eru blanda af hvoru tveggja eða upplifa kynvitund sína fljótandi á milli. Innan kynvitundar er mikill fjölbreytileiki og er því mikilvægt að koma til móts við þessa hópa og gera þeim kleift skrásetja kyn sitt í samræmi við kynvitund.
Skráningar á vegabréfum eða opinberum skilríkjum
Þegar kemur að vegabréfum þá er kynhlutlaus kynskráning táknuð með bókstafnum „x“. Sama gildir þar sem kynskráning er almennt táknuð með einum bókstaf eða skammstöfun, t.d. x í stað m eða f, eða kk eða kvk. Ef skráning á opinberum skilríkjum er táknuð með orðunum „karl“ eða „kona“ skal boðið upp á að fá skráninguna „x“.
Skráningar á eyðublöðum
Þegar kemur að eyðublöðum þar sem spurningar eru lagðar fram til að safna upplýsingum er ýmislegt sem þarf að hafa í huga. Til þess að koma til móts við fólk sem eru ekki karlar eða konur þarf í minnsta lagi að hafa einn auka möguleika. Best er í þessu tilfelli að nota kynsegin þar sem það hugtak nær hvað einna best yfir fjölbreytileika kynvitundar þeirra sem skilgreina sig utan karla eða kvenna flokkana. Einnig er mikilvægt að hafa „annað“ ef svo skyldi að „kynsegin“ nái ekki utan um kynvitund viðkomandi. Lagt er því til eftirfarandi fyrirkomulag:
Hvert er kyn þitt?
𐄂 Kona
𐄂 Karl
𐄂 Kvár
𐄂 Annað
𐄂 Vil ekki svara
Vert er að nefna að spurningin að ofan tekur ekki tillit til þess hvort að fólk sé trans karlar og trans konur eða sís karlar og sís konur (fólk sem er ekki trans). Þær upplýsingar geta verið mikilvægar fyrir gagnasöfnun og geta varpað ljósi á mismunandi veruleika fólks eftir hvort það er trans eða sís. Sömuleiðis getur það skipt máli þegar fólk er að leita sér þjónustu á borð við heilbrigðisþjónustu. Til þess að nálgast þær upplýsingar fyrir nákvæma gagnasöfnun er því mikilvægt að bæta við spurningunni:
Er kynvitund þín í samræmi við það kyn sem þú fékkst úthlutað við fæðingu?
𐄂 Já
𐄂 Nei
𐄂 Vil ekki svara
Einnig er mikilvægt að taka tillit til þess að fólk getur verið intersex, en það er algjörlega óháð kynvitund einstaklinga. Intersex fólk eru einstaklingar sem eru með kyneinkenni sem falla ekki inn í líffræðilegu flokkun á karlkyni og kvenkyni. Til þess að nálgast þær upplýsingar þarf að bæta við spurningunni:
Fæddist þú með ódæmigerð kyneinkenni?
𐄂 Já
𐄂 Nei
𐄂 Vil ekki svara
Kynskráning innan skólakerfisins
Mikilvægt er að fólk geti fengið að skrá kyn sitt í samræmi við kynvitund innan skólakerfisins og er því mikilvægt að bjóða upp á þriðja kynskráningarmöguleikann innan innri kerfa skóla. Þar er annarsvegar hægt að bjóða upp á möguleikann „kynsegin/kvár“ eða „x“ (fer eftir skráningarformi) eða jafnvel leyfa einstaklingum sjálfum að skrá kyn sitt eftir eigin höfði ef möguleikinn er fyrir hendi.
Mikilvægt er að hafa í huga að börn undir 15 ára aldri getur ekki breytt kynskráningu sinni án leyfi foreldra, og getur því kennitalan þeirra gefið upp annað kyn og nafn en það sem fólk gengst við. Mikilvægt er þess vegna að hægt sé að tilgreina innan kerfa að viðkomandi gangist undir öðru nafni og kyni en kennitala gefi til kynna. Það þarf því að tryggja að rétt nafn og kyn sé notað innan skólastarfsins, t.d. í nafnakalli, á verkefnum, prófum og nafnalistum.
Þegar kynskráning og nafn viðkomandi er ekki í samræmi við kynvitund
Upp geta komið aðstæður þar sem kynskráning og nafn viðkomandi er ekki í samræmi við kynvitund. Margar ástæður geta legið þar að baki, t.d. að fólk hefur ekki efni á breytingunni eða fólki hefur ekki komist í það að breyta. Mikilvægt er því að geta komið til móts við þann hóp og sjá til þess að rétt nafn og kyn sé notað í samskiptum, í þjónustu og á vettvangi þar sem nota þarf kynskráningu eða nafn viðkomandi.
Auka skráningarmöguleikar fyrir nákvæmari gagnasöfnun
Þegar um er að ræða skráningar og gagnasöfnun er mikilvægt að skoða þætti sem er sjaldan velt upp innan rannsókna, en upplifun fólks getur verið mismunandi, t.d. eftir kynhneigð viðkomandi, litarhætti eða út frá trú. Hægt er að bæta við frekari skráningarmöguleikum fyrir nákvæmari gagnasöfnun. Þegar kemur að kynhneigð er mikilvægt að gera sér grein fyrir að fjölbreytileikinn þar er mikill. Eftirfarandi er því lagt fram til að reyna að ná utan um allar helstu kynhneigðir:
Hver er kynhneigð þín?
𐄂 Gagnkynhneigð
𐄂 Samkynhneigð
𐄂 Tvíkynhneigð
𐄂 Pankynhneigð
𐄂 Eikynhneigð
𐄂 Annað
𐄂 Vil ekki svara
Kynjaendingar og fornöfn
Þegar kemur að orðalagi, þá innihalda setningar oft kyngreind fornöfn eða lýsingarorð sem taka á sig kynjaðar endingar, sbr. “Ég tek sjálfur/sjálf ábyrgð á xxx”. Lagt er til að forðast slíka setningamyndun, en ef nauðsyn ber til er mikilvægt að bæta við þriðja möguleikanum fyrir fólk sem gengst undir kynhlutlausum fornöfnum (eins og t.d. hán í stað hann eða hún). Dæmið að ofan myndi því verða “ég tek sjálfur/sjálf/sjálft ábyrgð á xxx”.
Orðskýringar
Hinsegin: Regnhlífarhugtak sem nær utan um fjölbreytileika kynhneigðar, kynvitundar og kyneinkenna. Notað á sama hátt og LGBTQIA+ skammstöfunin á ensku.
Kynhneigð: Snýr að hverjum einstaklingur laðast tilfinningalega og/eða kynferðislega.
Kynvitund: Innri vitund fólks á eigin kyni, sem er óháð kynfærum eða kyntjáningu.
Kyneinkenni: Líkamleg einkenni fólks er tengjast flokkun á kyni, t.d. innri og ytri æxlunarfæri, hormónakirtlar og önnur líkamleg einkenni sem myndast út frá hormónaframleiðslu.
Trans (transgender): Regnhlífarhugtak yfir fólk sem hefur kynvitund sem er ekki í samræmi við það kyn sem þeim var úthlutað við fæðingu.
Trans kona: Kona sem var úthlutað karlkyni við fæðingu.
Trans karl: Karl sem var úthlutað kvenkyni við fæðingu.
Kynsegin: Gjarnan notað sem regnhlífarhugtak yfir fólk sem skilgreinir sig ekki eingöngu sem karl eða konu. Getur átt við um fólk sem upplifir kynvitund sína flæðandi (flæðigerva), fólk sem skilgreinir sig sem bæði karl og konu (tvígerva) eða fólk sem fellur algjörlega utan tvíhyggjunnar.
Kvár: Nafnorð um kynsegin fullorðna manneskju samanber karl og kona.
Sís kynja (sís karlar, sís konur): Þegar kynvitund fólks er í samræmi við það kyn sem þeim var úthlutað við fæðingu þá flokkast þau sem sískynja. Andstæða þess að vera trans.
Intersex: Þegar kyneinkenni einstaklings falla út fyrir hefðbundna flokkun á karlkyni og kvenkyni þá flokkast þau undir intersex. Þetta getur tengst innri og ytri æxlunarfærum, hormónakirtlum, kynlitningum eða öðrum líkamlegum þáttum er snúa að flokkun kyns.
Endosex: Fólk sem er ekki intersex flokkast undir að vera endosex.
Nánar um orð- og hugtakaskýringar á vefsíðunni Ö til A.