Skip to main content
Uncategorized

Undiraldan í Þjóðkirkjunni

By 15. apríl, 2007No Comments

Á undanförnum vikum hafa fulltrúar Biskupsstofu kynnt í nokkrum sóknum landsins tvær álitsgerðir sem lúta að staðfestingu samvistar samkynhneigðra og blessun staðfestrar samvistar hjá prestum Þjóðkirkjunnar. Annars vegar ályktun kenningarnefndar Þjóðkirkjan og staðfest samvist og hins vegar Blessun staðfestrar samvistar og eru þær gefnar út í tveimur bæklingum af Biskupsstofu.

Forsaga málsins er sú að á prestastefnu árið 2005 var “þeim eindregnu tilmælum” beint til biskups að brugðist yrði við “óskinni um að Þjóðkirkjan komi að hjúskaparstofnun samkynhneigðra para með hliðstæðum hætti og þegar um karl og konu er að ræða”. Í bæklingum þessum er þó ekkert fjallað um óskir samkynhneigðra para um vígslu heldur einungis gert ráð fyrir því að prestum verði áfram heimilt að blessa slík sambönd líkt og verið hefur frá 1999. Ekki verður því betur séð en að tilgangur þeirra sé sá einn að hnykkja á fyrri afstöðu biskups og yfirstjórnar kirkjunnar til vígslu samkynhneigðra para.

Þegar lög um leiðréttingu á réttarstöðu samkynhneigðra voru til meðferðar á síðastliðnu ári barðist kirkjan leynt og ljóst gegn því að hjúskaparlögum yrði breytt á þann veg að hjúskapur samkynhneigðra yrði lagður að jöfnu við hjúskap gagnkynhneigðra og að trúfélög fengju heimild til þess að vígja samkynhneigð pör. Var því borið við að málið væri til meðferðar innan Þjóðkirkjunnar og að slík lög trufluðu það ferli. Í ljósi þess að frjálslyndari trúfélög óskuðu sérstaklega eftir slíkri heimild verður að telja afskipti biskups af þinglegri meðferð löggjafarvaldsins afar ólýðræðisleg. Staðreyndin er hins vegar sú að forsvarmönnum Samtakanna ´78 var gert það ljóst af yfirvöldum að ef fram kæmu tillögur um breytingu á hjúskaparlögum og eða tillögur um leyfi fyrir trúfélög til að framkvæma löggjörninginn staðfesta samvist þá yrði bandormur ríkisstjórnarinnar um þær mikilvægu réttarbætur sem stjórnarfrumvarpið tryggði svæfðar í nefndum þingsins. Þetta var gert að sögn “til þess að leyfa Þjóðkirkjunni að njóta vafans” en ella þyrftu samkynhneigðir að bíða enn um sinn eftir leiðréttingu sinna mála vegna þess að

Þjóðkirkjan væri að hugsa sig um. Þetta dugði til og kirkjan fékk sinn umþóttunartíma. Samhliða þessu fór biskup fram af offorsi gegn hjónabandi samkynhneigðra í fjölmiðlum og gekk svo langt að lýsa því yfir að hjónaband gagnkynhneigðra yrði ómerkingur og mögulega enda á öskuhaugunum ef slíkt yrði framkvæmt. Þá lýsti hann sig jafnframt andsnúinn veigamiklum atriðum í frumvarpi ríkisstjórnarinnar um réttarstöðu samkynhneigðra eins og lesa má í greinargerð hans við frumvarpið.

Þetta er raunar ekki í fyrsta skiptið sem kirkjan biðst undan aðkomu sinni að stofnun hjúskapar samkynhneigðra. Þegar frumvarp til laga um staðfesta samvist var til meðferðar á Alþingi árið 1996 þá leitaði þingið til Þjóðkirkjunnar til þess að kanna hvort hún vildi verða hluti af þeirri lagasetningu, þiggja með öðrum orðum umboð til þess að staðfesta samvist samkynhneigðra. Kirkjan hafnaði þessu þá líkt og stefnir í núna.

Ósannindi kirkjunnar manna

Gert er ráð fyrir því að allir söfnuðir og stofnanir Þjóðkirkjunnar, og raunar allt þjóðkirkjufólk, kynni sér álitsgerðir Biskupsstofu og í því skyni hafa verið haldnir kynningarfundir í sóknum landsins að undanförnu. Á þeim hafa starfsmenn Biskupsstofu kynnt drög að ályktunn kenningarnefndar Þjóðkirkjan og staðfest samvist og þau þrjú blessunarform fyrir blessun staðfestrar samvistar sem Helgisiðanefnd hefur mótað. Á fundunum hafa nokkrir samkynhneigðir einstaklingar sem og félagar í ÁST – áhugahópi samkynhneigðra um trúarlíf lýst sínum persónulegu skoðunum á málinu, en aldrei hefur verið leitað álits Samtakanna ´78 á innihaldi álitsgerðanna sem bárust raunar forsvarsmönnum félagsins eftir krókaleiðum. Engu að síður láta starfsmenn Biskupstofu að því liggja að náið samráð hafi verið haft við samkynhneigða og tekið tillit til óska þeirra.

Formaður Helgisiðanefndar Kristján Valur Ingólfsson hélt því m.a. fram á kynningarfundi í Hjallakirkju þann 28. febrúar, að í vinnu Helgisiðanefndar við mótun þessara blessunarforma hafi verið horft til óska frá samkynhneigðum sjálfum um blessunarformin. Þegar fyrirspurn barst um það hvað væri á bak við “óskir frá samkynhneigðum sjálfum” svaraði hann því til að hann væri að vísa til óska samkynhneigðra einstaklinga erlendis, m.a. í Þýskalandi. Þá hefur það jafnframt verið látið liggja á milli hluta í kynningu á málinu að í álitsgerðum Biskupsstofu er hvergi vakið máls á vígslu, heldur einungis talað um blessun staðfestrar samvistar, með öðrum orðum er gert ráð fyrir óbreyttu ástandi.

Lög um staðfesta samvist úrelt

Ljóst er að bæklingar og ályktanir Biskupsstofu og tillögur hennar um blessunarform hafa þann eina tilgang að festa núverandi stöðu mismununar í sessi innan kirkjunnar og að skilgreina sambönd samkynhneigðra skör lægra en gagkynhneigðu. Ætlunin er að búa til sérstakt ritúal fyrir blessunarform staðfestrar samvistar, sem aðeins er blessun en ekki löggjörningur á staðfestri samvist. Til þess að bíta höfuði&e
th; af skömminni er ekki einu sinni gert ráð fyrir því að allir prestar framkvæmi þessa blessun heldur að hver og einn “eigi það við sína samvisku”. Skilaboðin til samkynhneigðra og fjölskyldna þeirra gætu vart verið skýrari. Því skal þó haldið til haga að allstór hópur presta hefur unnið að því innan kirkjunnar að eitt vígsluritúal verði búið til fyrir alla óháð kynhneigð, en óljóst er hvort sjónarmið þessara presta verði ofan á þegar kosið verðum um málið á Kirkjuþingi næsta haust. Sé mið tekið af því hvernig yfirstjórn kirkjunnar hagar málum nú verður það þó að teljast ólíklegt.

Biskupstofa skákar í því skjóli að ekki sé “lagaleg forsenda fyrir því að kirkjan framkvæmi löggjörninginn staðfesta samvist”. Í ljósi þess að það er kirkjan sjálf sem barist hefur einarðlega gegn þeirri heimild er sá málflutningur hreint ótrúlegur. Hér er ekki aðeins vegið að réttindum samkynhneigðra, heldur einnig að trúfrelsi í landinu þar sem Þjóðkirkjunni hefur hingað til tekist að koma í veg fyrir að önnur frjálslyndari trúfélög fái þann rétt sem hún sjálf heykist á að öðlast. Einbeittur vilji yfirstjórnar kirkjunnar til þess að mismuna samkynhneigðum áfram við stofnun hjúskapar undirstrikar um leið nauðsyn þess að lögin um staðfesta samvist verði sameinuð hjúskaparlöggjöfinni enda fela þessi tvö hjúskaparform í sér sömu réttindi og sömu skyldur hvað svo sem yfirstjórn kirkjunnar kann að finnast um það. Það er þeim sem starfa að mannréttindum samkynhneigðra ljóst að lög um staðfesta samvist eru úrelt þar sem þau er nú notuð til þess að tryggja áframhaldandi mismunun fólks. Réttast væri að leggja niður löggjöf um staðfesta samvist og samræma löggjöf um hjúskap í eina þar sem gagnkynhneigðir og samkynhneigðir eru jafn réttháir.

Greinin birtist í Fréttabréfi Samtakanna '78 í apríl 2007

Leave a Reply