Skip to main content
FréttirTilkynning

Vegna framboðsfrestar fyrir aðalfund Samtakanna ‘78 2022

Í ljósi athugasemda sem fram komu á aðalfundi Samtakanna ‘78 sunnudaginn 6. mars 2022 vill kjörstjórn félagsins, sem kosin var á aukafélagsfundi 26. nóvember 2021, koma eftirfarandi á framfæri:

Lögmæti fundarins var borið undir fundinn og það samþykkt. Við þá gjörð var farið yfir þau atriði sem talin eru upp hér að aftan. Þessum atriðum viljum við halda til haga enda teljum við þau sýna fram á lögmæti fundarins:

  1. Tilkynnt var um aðalfund í tölvupósti til allra félaga, ásamt auglýsingu á vefsíðu og Facebook-síðu félagsins þann 8. janúar 2022. Til fundarins var boðað skriflega til allra félaga með skráð tölvupóstfang þann 14. febrúar kl. 15:51. Allir félagar sem ekki voru með skráð tölvupóstfang fengu bréfpóst. Hann var póstlagður frá pósthúsinu á Hóteli Sögu miðvikudaginn 9. febrúar kl. 16:20.
  2. Á aukafélagsfundi 26. nóvember 2021 var þriggja manna kjörnefnd kjörin af félagsfólki. Hana skipa Hafdís Erla Hafsteinsdóttir, Hilmar Hildar Magnúsarson og Alexandra Briem. Þau settu sér verklagsreglur og hafa haldið utan um allt sem viðkemur kosningum. Lýst var eftir framboðum til ábyrgðarstarfa fyrir Samtökin ‘78 þann 8. janúar 2022. Framboðsfrestur var skv. lögum Samtakanna ’78 til 13. febrúar 2022.
  3. Öll fyrirliggjandi framboð voru birt á vef Samtakanna ’78 kl. 20:24 sunnudaginn 20. febrúar sl. Einnig birtust þar allar lagabreytingatillögur.
  4. Kjörgengi fundarfólks var athugað við upphaf aðalfundar. Fram kom að utankjörfundaratkvæði hefðu borist kjörnefnd, þ.m.t. rafræn utankjörfundaratkvæði. Fundarstjóri óskaði eftir því að aðalfundur staðfesti lögmæti rafrænna utankjörfundaratkvæða sérstaklega og að skorað yrði á næstu stjórn að hlutast til um að unnið yrði að lagabreytingum til að taka af allan vafa um lögmæti rafrænna utankjörfundaratkvæða. Var þetta samþykkt með sýnilegum meirihluta atkvæða.
  5. Fundarmaður spurði hvers vegna framboðsfrestur til stjórnar hefði verið framlengdur af kjörnefnd. Alexandra Briem fulltrúi kjörnefndar svaraði því til að ekki hefðu nógu mörg framboð borist í félagaráð að mati kjörstjórnar og að heimild til að framlengja framboðsfrest væri að finna í lögum félagsins, eins og nánar er rakið að neðan. Ennfremur upplýsti Daníel E. Arnarsson framkvæmdastjóri að heimasíða hefði legið niðri í nokkrar klukkustundir og hafi það jafnframt spilað inn í ákvarðanatökuna þar sem vilji var til þess að öll sem vildu bjóða fram hefðu á því kost Samkvæmt lögum Samtakanna ’78 er kjörnefnd heimilt að lengja framboðsfrest á grundvelli greinar 3.3 sem segir:

Framboðsfrestur til stjórnar rennur út þremur vikum fyrir aðalfund. Framboðum til stjórnar skal skilað skriflega til kjörnefndar og tilgreina varaframboð ef við á. Frambjóðendur til félagaráðs og skoðunarmanna reikninga skila framboði sínu skriflega til kjörnefndar fyrir aðalfund og tilgreina hvaða embætti þeir sækjast eftir. Öll fyrirliggjandi framboð til stjórnar og félagaráðs skulu kynnt á vefsíðu félagsins. Kjörnefnd getur framlengt framboðsfrest ef svo ber undir.

6. Kjörnefnd tilkynnti opinberlega um lengdan framboðsfrest, bæði á aðalfundarvef Samtakanna ’78 sem og á samfélagsmiðlum. Var skýrt tekið fram í yfirlýsingum kjörnefndar að framboðsfresturinn hefði verið lengdur um fjóra daga. Varðandi þetta vísar kjörnefnd í verklagsreglur sínar, þar sem segir:

„Í störfum sínum leitast kjörnefnd við að tryggja framboð í öll embætti stjórnar auk þess að frambjóðendur endurspegli fjölbreyttan hóp félagsfólks Samtakanna ’78.“

Samtökin ’78 eru frjáls félagasamtök og á lista yfir almannaheillafélög. Engin almenn lög finnast um almenn félagasamtök en lög eru til um almannaheillafélög. Þar segir í 15. gr. Um kosningar á aðalfundi almannaheillafélaga: 

Kosning á fundi er meirihlutakosning sé ekki annars getið í samþykktum félagsins. Tryggja skal öllum sem hafa rétt til áhrifa í félaginu tækifæri til að taka þátt í tilnefningum til framboðs. Við meirihlutakosningu sigrar sá sem fær flest atkvæði mæli samþykktir félagsins ekki fyrir um annað. Kosning á fundi getur verið rafræn enda séu notaðar aðferðir til að tryggja ofangreind skilyrði um þátttöku, ákvarðanir, atkvæðarétt og hæfi.

Að framansögðu getur kjörnefnd ekki annað séð en að kjörnefnd og annað starfsfólk fundarins hafi unnið nákvæmlega eftir lögum. Telur hún því engan vafa ríkja um lögmæti þess að ákveða að lengja framboðsfrest.

Að lokum telur kjörnefnd rétt að geta þess að samkvæmt lögum nr. 110/2021 um félög til almannaheilla ganga samþykktir (lög) hvers félags framar almennum ákvæðum laganna, enda í umræddum lögum gjarnan kveðið á um tiltekin atriði sem fylgt er eftir með orðalaginu: „sé ekki annars getið í samþykktum félagsins“. Samkvæmt sömu lögum eru gerðar kröfur til félaga á almannaheillaskrá um samþykktir og meðal annars kveðið á um aðalfundi í slíkum samþykktum í 5. gr. h sem segir: „hvenær halda eigi aðalfund og með hvaða hætti eigi að boða aðalfund og aðra félagsfundi“.

Að öllu ofangreindu telur kjörnefnd ljóst að hafið sé yfir allan vafa að aðalfundur Samtakanna ’78 hafi verið í fullu samræmi við almenn lög sem og samþykktir félagasamtakanna sjálfra. Sama eigi við um framboð og kosningar á fundinum.

 

Reykjavík, 9. mars 2022

Kjörnefnd Samtakanna ‘78:

Alexandra Briem
Hafdís Erla Hafsteinsdóttir
Hilmar Hildar Magnúsarson