Skip to main content
FréttirViðburður

Vel heppnuð þrettándagleði

Sunnudaginn 5. janúar héldu Samtökin ’78 þrettándagleði í samstarfi við Listasafn Íslands í Safnahúsinu.

Líklega eru fáar hátíðir á Íslandi meira hinsegin en þrettándinn, dagurinn þar sem hefðbundnum reglum er snúið á hvolf og þar sem huldufólk og aðrar verur koma fram. Hinsegin fjölskyldum var í tilefni þrettándans (þó degi áður!) boðið í listasmiðju, sem Sigtýr Ægir og Styrmir Kárasynir héldu utan um, en börn og foreldrar fengu tækifæri til þess að búa til sína eigin töfrasprota. Þá voru álfadrottningarnar Álfhildur og Álfheiður á staðnum, hægt var að bragða á töfradrykk álfanna auk þess sem myndatökukassi ásamt álfalegum útbúnaði var á staðnum.

Fjörutíu manns mættu og mikil ánægja var með viðburðinn, sem náði hápunkti sínum í samsöng og stjörnuljósum fyrir utan Safnahúsið. Samhliða fengu gestir aðgang að sýningum Safnahússins, en sýningin Stattu og vertu að steini! Þjóðsögur í íslenskri myndlist átti sérstaklega vel við þema dagsins.

Samtökin ’78 þakka kærlega fyrir góðar viðtökur og stefna á að gera þrettándagleði að árlegum fjölskylduviðburði.

Stjörnuljós og söngur á tröppunum fyrir framan Safnahúsið.

Bjarndís Helga, formaður, var að sjálfsögðu á staðnum.

Álfhildur og Álfheiður, álfadrottningar úr Arnarhóli.