Skip to main content
Fréttir

Vetrarstarfið fer á fullt

By 31. ágúst, 2009No Comments

Nú er sumri tekið að halla og vetrarstarfið í Samtökunum ’78 að fara í fullan gang að loknum sumarleyfum. Stór hluti af vetrarstarfi félagsins er helgaður fræðslu af margvíslegum toga.  Líkt og undanfarin ár munu sjálfboðaliðar Samtakanna ’78 bjóða upp á jafningjafræðslu fyrir nemendur á flestum skólastigum og gera nemendum tækifæri til að fræðast um líf og tilveru hinsegin ungmenna

Jafningjafræðsla 

Líkt og undanfarin ár munu sjálfboðaliðar Samtakanna ’78 bjóða upp á jafningjafræðslu fyrir nemendur á flestum skólastigum og gera nemendum tækifæri til að fræðast um líf og tilveru hinsegin ungmenna, hvernig það er að vera samkynhneigð manneskja, hvað sé frábrugðið og hvað sé líkt með þeim og öðrum nemendum á svipuðu reki. Jafningjahópurinn er skipaður krökkum á aldrinum 18 – 24 ára. Á fundunum leggja ungmennin út frá eigin reynslu og eru einnig til svara um fjölbreytt starf innan ungliðahóps Samtakanna ’78 en hópurinn hittist vikulega í félagsheimili Samtakanna ’78 að laugavegi 3. Á undanförnum árum hefur eftirspurn eftir fundum aukist jafnt og þétt og er nú svo komið að eftirspurn er iðulega meiri en félagið getur annað. Þessi þróun endurspeglar í senn breytt viðhorf til samkynhneigðra í samfélaginu en einnig áherslubreytingar í skólastarfinu s.s. með tilkomu lífsleikni samhliða breytingum á lögum um grunnskóla þar sem aukin áhersla er lögð á jafnræði nemenda og afnám mismununar. 

Fræðsla fyrir starfsfólk skóla og aðrar starfsstéttir

Samtökin ´78 bjóða einnig upp á upp á fræðslu um líf og tilveru samkynhneigðra fyrir starfsfólk grunn- og framhaldsskóla. Fyrirkomulag fræðslunnar er eftir samkomulagi hverju sinni. Með þessu starfi er leitast við að auðvelda kennurum og öðru starfsfólki skóla að taka á ýmsum málum sem lúta að samkynhneigðum á raunhæfan og faglegan hátt því að í öllum skólum og flestum bekkjardeildum er að finna ungt fólk sem er að velta fyrir sér kynhneigð sinni eða tengist samkynkynhneigðri manneskju fjölskylduböndum. Öðrum fagstéttum svo sem starfsfólki heilbrigðisstétta stendur einnig til boða að fá fræðslu eftir óskum hverju sinni

Ráðgjöf

Til Samtakanna ’78 leitar fólk úr öllum landsfjórðungum eftir fræðsluráðgjöf og annarri þjónustu. Nokkur sveitarfélög hafa gert þjónustusamning við Samtökin ’78 en markmiðið með slíkum samning er að efla fræðslu til fagstétta í viðkomandi sveitarfélagi, gera félags- og ráðgjafarþjónustu aðgengilegri og efla fræðslu í skólum bæði til nemenda og starfsfólks.

Teymi félagsráðgjafa starfa í Samtökunum ’78 sem hafa áralanga reynslu af því að aðstoða sam- og tvíkynhneigða einstaklinga, aðstandendur þeirra en einnig fagfólk. Fyrir marga er viðtal hjá félagsráðgjafa  fyrsta heimsókn þeirra í húsnæði Samtakanna ’78. Markmið félagsráðgjafar hjá Samtökunum ‘78 er að gefa fólki kost á viðtölum til að ræða sína stöðu, bæði út frá tilfinningalegum þáttum og einnig út frá ýmsu því sem snýr að réttindamálum. Allir sem þess óska geta leitað til félagsráðgjafa og er það þeim að kostnaðarlausu.

Allar nánari upplýsingar um þjónustu félagsins eru veittar í síma 552 7878 eða með því að senda tölvupóst á netfangið skrifstofa@samtokin78.is

 

Leave a Reply