Skip to main content
Uncategorized

Ráðgjöfin er mikilvæg þjónusta við þá sem eru að koma út

By 30. janúar, 2008No Comments

Félagsráðgjöf Samtakanna ’78 hefur verið starfrækt í nokkur ár en hjá  félaginu starfa tveir félagsráðgjafar, þær Anni Haugen og Guðbjörg Ottósdóttir. Ráðgjöfin en mikilvæg þjónusta við þá sem eru að „koma út“ sem samkynhneigðir einstaklingar en ekki síður  fyrir foreldra og aðstandendur sem leita svara við þeim ótal spurningum sem vakna þegar einhver nákominn kemur út úr skápnum. 

Félagsráðgjafarnir hafa mikla reynslu af því að ræða við samkynhneigða en boðið er upp á 1-3 viðtöl. Ef þörf er talin á fleiri viðtölum eða meðferð er bent á aðra sérfræðinga utan félagsins.   Guðbjörg Óttósdóttur er annar félagsráðgjafa Samtakanna og spurðum við hana hvaða ástæður liggi að baki heimsóknum ráðgjafanna

„Flestir af þeim konum og körlum sem leita til okkar koma vegna óöryggis með eigin kynhneigð. Þessir einstaklingar hafa yfirleitt ekki leitað til Samtakann ‘78 áður. Sumir eru foreldrar barna og eru í hjónabandi eða sambúð.  Til okkar leita einnig foreldrar og aðstandendur þar á meðal makar.  Nokkrir  einstaklingar hafa komið vegna óöryggis með eigið kyn. Nú svo hafa leitað samkynhneigðir einstaklingar vegna annarra mála, t.d. vegna sambandserfiðleika. Fram til ársins 2006 leituðu til okkar töluvert af lesbískum pörum sem voru að fara að eignast börn eftir að hafa gengið í gegnum tæknifrjóvgun í Danmörku. Flestir af þeim sem koma í ráðgjöf koma í  2-3 viðtöl.“

 Hefur ráðgjöfin breyst frá því að hún fór af stað? 

 „Viðtölum hefur fjölgað lítillega á milli ára. Einnig hefur snarlega dregið úr ráðgjöf vegna tæknifrjóvgana enda hefur réttindastaða samkynhneigðra breyst eftir að ný lög um tæknifrjóvganir og ættleiðingar tóku gildi á árinu 2006.“

Þurfum að ná betur til foreldra samkynhneigðra
„Það er langt því frá einsleitur hópur sem leitar til félagsráðgjafa og bakgrunnur eða félagsleg staða einstaklinganna er mismunandi. Þá virðast foreldrar vera í sívaxandi mæli opnari fyrir því að leita til ráðgjafa ekki síst til að sækja sér upplýsingar og fræðslu.”

Er einhver einn hópur sem sækir ráðgjöf meira en annar?

 „Flestir sem leita til okkar eru einstaklingar á aldrinum 30 til 40 ára og aðeins fleiri konur en karlar hafa leitað til okkar frá því ráðgjöfin hófst árið 2001 ef allir eru taldir, þ.e. hommar, lesbíur og aðstandendur. Fólk yngra en 20 ára sækist lítið eftir ráðgjöf og kannski vegna þess að þessi aldurshópur elst upp í öðru og jákvæðara samfélagi hvað viðhorf til samkynhneigðra varðar en eldri hópurinn. Einnig virðist sem þessi hópur leiti beint til ungliðahóps Samtakanna ‘78 og myndi tengsl við annað ungt fólk á netinu. Hinsvegar hafa foreldrar þessa hóps (yngra en 20 ára) leitað eftir ráðgjöf hjá okkur og þá aðallega undir jákvæðum formerkjum. Þetta eru yfirleitt foreldrar sem eru ekki með fordóma og koma þá í ráðgjöf með forvörn að sjónarmiði því þeir vilja tryggja að þau geti sem best stutt við barnið sitt. Foreldrar sem eiga í erfiðleikum með að viðurkenna kynhneigð barnsins síns leita ekki til okkar en við þurfum að ná betur til þess hóps.“

 Hvaðan eru þeir sem koma?

„Þetta er fólk alls staðar að á landinu, flestir frá Reykjavík og nágrannasveitarfélögunum.“

Margir þeirra sem leita til ráðgjafa hafa leitað annað áður
Aðspurð hvort það sé algengt að þeir sem óski eftir viðtali við ráðgjafa á vegum félagsins hafi leitað annað áður segir Guðbjörg svo vera. Guðbjörg bendir á að sumir hafi verið í samtalsmeðferð hjá sálfræðingum eða geðlæknum, jafnvel án þess að nokkurn tímann hafi verið rætt um kynhneigð. Aðrir hafa rætt við námsráðgjafa eða heimilislækni og verið bent á að leita til ráðgjafa Samtakanna ‘78.

Sjáið þið einhverja þróun varðandi ástæður þess að leitað er til ykkar?

 „Það má kannski segja að á undanförnum tveimur árum leiti til okkar fleiri en áður vegna óöryggis með eigið kyn sem vekur spurningar um hversu aðgengileg þjónusta fyrir þennan hóp sé innan geð- og heilbrigðiskerfisins. Einnig kemur það okkur á óvart hve margir af þeim sem hafa verið í einhverskonar viðtalsmeðferð úti í bæ hafa ekki unnið með tilfinningar sínar og viðhorf þar. Tilvísanir frá sálfræðingum og geðlæknum hafa aukist og oftar en ekki er ráðgjöfin hjá okkur liður í þeirri meðferð sem fólk er í annars staðar. Það virðist ekki liggja fyrir sérþekking hjá sálfræðingum og geðlæknum en hún þyrfti svo sannarlega að vera til. Það er ekki nóg að hafa jákvæð viðhorf til samkynhneigðra þegar veita á ráðgjöf. Það þarf þekkingu og innsýn inn í það flókna sálarferli sem á sér stað þegar fólk er að horfast í augu við kynhneigð sína. Við erum sjálfar samkynhneigðar og getum því auðveldlega sett okkur í spor fólksins sem leitar til okkar en einnig höfum við aflað okkur þekkingar á málefnum samkynhneigðra.  Reynslan í öðrum vestrænum löndum er að samkynhneigðir og aðrir sem eru að velta fyrir sér kynhneigð leita gjarnan til fagaðila sem búa yfir sérþekkingu í þessum málaflokki.“

Ráðgjöf

Þeir sem vilja panta tíma hjá ráðgjöfum geta haft samband við skrifstofu Samtakanna ‘78 eða sent tölvupóst á netfangið skrifstofa@samtokin78.is. Ráðgjöfin stendur öllum til boða og er ókeypis.

Frosti Jónsson tók viðtalið
Viðtalið birtist í Fréttabréfi Samtakanna '78 í janúar 2008

Leave a Reply