Skip to main content
search
Uncategorized

Það sést líka á mér ef ég lýg

By 1. janúar, 2001No Comments

Jón Eggert Víðisson segir frá því þegar hann kom úr felum í enskutíma í menntaskóla. Þau tíðindi gerðust haustið 1998 í Menntaskólanum á Akureyri að fyrsti nemandi skólans kom opinberlega úr skápnum. Jón Eggert Víðisson átti að flytja fyrirlestur um sjálfvalið efni í í enskutíma hjá Ásmundi Jónssyni. Hann valdi efnið samkynhneigð og lauk ræðu sinni á ensku með því að lýsa því yfir að hann væri sjálfur hommi. Þá var Jón Eggert átján ára.

Hann segir svo frá:

Aðdragandi málsins var sá að ég hafði oft rifist við strák í bekknum mínum um samkynhneigð og þessi rifrildi enduðu alltaf á því að hann sagði: „Hvað veist þú um það?“ Ég var orðinn mjög pirraður og þreyttur á þessum málalokum og mig var farið að langa til að ná mér niðri á honum. Reyndar hef ég oft deilt við fólk um þessi mál, fólk sem fyrirlítur samkynhneigða, en þessi rifrildi hafa aldrei endað á neinn hátt. Enda gaf ég sjálfan mig aldrei til kynna. En nú sá ég tækifærið fyrir framan mig. Ég neita því ekki að ég gerði bekkjarfélaga minn mjög hvumsa með því að beita þessari aðferð. Hún var svo afgerandi. Og víst var ég kvikindislegur við hann þótt hann hafi ekki séð ástæðu til að erfa það við mig, við erum ágætis kunningjar í dag.

Ég vissi þegar ég stóð upp í tímanum að ég myndi enda fyrirlesturinn á því að lýsa þessu yfir, en samt man ég að þegar ég stóð þarna upp við töflu og var að segja frá því hver ég væri, þá horfði ég allt í einu á sjálfan mig utan frá og hugsaði: Heyrðu mig nú, hvað ertu eiginlega að gera núna? Þótt ég væri búinn að taka ákvörðunina þá hafði ég eiginlega gleymt að hugsa fyrir framhaldinu, hvað gerðist þegar þetta væri sagt og gert.

Eins og einn á plánetunni

Ég hafði ímyndað mér að með þessu skrefi yrði öllum heimsins áhyggjum létt af herðum mér, en mér kom á óvart að eiginlega breyttist ekki neitt. Enginn kom til mín til að ræða um þetta. Og þegar frá leið fór ég að hugsa um að ég hefði gleymt einhverju. Á þessum tíma átti ég heldur enga vini eða kunningja sem voru hommar eða lesbíur. Ég vissi af strákum í skólanum eða hafði mínar grunsemdir og fékk þann grun seinna staðfestan en ég átti ekki vini meðal annarra samkynhneigðra og það var einmanalegt. Um þetta leyti var ég eiginlega eins og einn á plánetunni.
Eftir á að hyggja sé ég að ég var brautryðjandi í þessum málum hér í MA og slíkt fólk finnur ábyggilega oft til einmanaleika áður en aðrir koma með á bátinn. Og það gerðu þau sem betur fer. Þegar þau fóru að koma út þá gerðu þau það hægt og rólega með því að svara og segja satt þegar þau voru spurð. Auðvitað hefði ég getað farið fram skref fyrir skref, það hefði ábyggilega orðið auðveldara fyrir mig. En menn verða þá að muna að ég hafði enga fyrirmynd, ég hafði ekki rætt við neina homma sem höfðu gert þetta áður, kýldi þetta bara í gegn og það er dæmigert fyrir mitt skaplyndi. Ég geri allt með látum, það er í mér fífldirfska og ákafi sem ég losna ekki við. Ég hef líka lúmskt gaman af því að sjokkera fólk. Samt sé ég ekki eftir neinu, því mér ferst ekki vel að leyna og það sést líka á mér ef ég lýg. Ég veit vel af því og nú er ég endanlega laus við að auðmýkja mig við svoleiðis leiki.

Sumum fannst ég svolítið spennandi

Annars átti ég góða bekkjarfélaga sem tóku mér eins og ég er og sýndu mér í rauninni mikla tryggð og virðingu. Ég bjóst við að sjá suma af vinunum hverfa en það gerðist ekki. Ég bjóst við böggi en það kom aldrei. Sumir sögðu að þeir hefðu alltaf vitað þetta en aðrir urðu mjög hissa. Um tíma varð ég var við að sumum fannst ég svolítið spennandi og í augnablikinu þykir sumum víst flott að vera öðruvísi. Menn hæla sér líka margir af því að vera á móti fordómum svo andrúmsloftið er hagstætt. Ég finn líka að eftir þetta var fylgst meira með mér en áður og um tíma varð ég var við einhvern söguburð, en yfirleitt hefur umhverfið verið mér jákvætt og frekar hlutlaust ef nokkuð er. En ég hef líka fengið góðan stuðning. Ég gleymi því aldrei þegar ég var núna í sumar [2000] að vinna á veitingastaðnum Greifanum og var að velta því fyrir mér hvort ég ætti að reyna að fá frí til að komast á Hinsegin daga í Reykjavík. Þá kom eigandinn til mín og skipaði mér hreinlega að drífa mig suður. Það er góð tilfinning þegar maður finnur svoleiðis umhyggju.

Hálft skref úr skápnum og síðan ekki meir

Þegar þetta gerðist hafði ég átt heima í þorpum allt mitt líf, síðast í Ólafsfirði. Það er svolítið annað en í Reykjavík. Þar eru krakkarnir sem ég þekki komin út hvert gagnvart öðru, þau hittast í Samtökunum ´78 og á Spotlight, en mörg þeirra hafa ekki sagt neitt í skólanum sínum eða við foreldrana. Það finnst mér óvirðing gagnvart þeim sem næst manni standa og hafa gefið manni mest, og þetta fer á vi
ssan hátt í taugarnar á mér. Á meðan krakkar á mínum aldri koma ekki út úr skápnum í mennta- og fjölbrautaskólum á Reykjavíkursvæðinu þá breytist heldur ekki neitt. Það er ekki nóg að vera maður sjálfur uppi á 4. hæð í félagsmiðstöð Samtakanna ´78 eða í kjallaranum á Spotlight. Þeir sem láta sér það nægja sitja fastir og bregðast ábyrgð sinni í lífinu. Ég man að Kolla í Stonewall, sem eru gay samtök framhaldsskólanema, sagði mér frá því í hverju hún lenti í fyrravetur þegar hún reyndi að fá leyfi til að hengja upp plaköt frá Stonewall í skólunum. Sums staðar var henni neitað um leyfið og annars staðar voru plakötin rifin niður. Mórallinn gagnvart okkur breytist fyrst þegar við þorum að koma út í skólunum og standa saman sem hópur og raunverulegt afl. Við eigum nú einu sinni sama rétt og aðrir til að lifa og anda.

Þótt ég væri stundum einmana fyrst eftir að ég kom út úr skápnum hérna í menntaskólanum þá er ég mjög feginn því í dag að málin þróuðust svona. Þó að hópur jafnaldra minna sé miklu stærri fyrir sunnan þá finnst mér margir strákanna þar vera einangraðir í sínum litla lokaða heimi. Að því leyti er þessi litli gay hópur sem býr hér fyrir norðan heppinn, við getum ekki einangrað okkur hvert með öðru, við erum svo fá. Aðstæðurnar gera það að verkum að við verðum að lifa sem fullgildir þátttakendur í samfélagi við aðra. Og í mínum augum er það mikill kostur þegar til lengri tíma er litið.

Þorvaldur Kristinsson færði í letur

Copyright © Þorvaldur Kristinsson 2001
Tilvitnun er öllum heimil sé heimildar getið

Leave a Reply