Skip to main content
Uncategorized

Ég á hvergi almennilega heima – Rasmus Rasmussen í viðtali

By 2. nóvember, 2006No Comments

Allt ungt fólk í Færeyjum veit hver hann er. Hann stýrir tónlistarþættinum Rokkstovan í færeyska útvarpinu og er frægur tónlistarmaður þar í landi, spilar með hljómsveitinni Makrel sem nýtur mikilla vinsælda og hefur sent frá sér þrjár geisladiska, en einnig hefur hann sjálfur gefið út sína eigin sólóskífu, Implosive.

Þau sem hafa fylgst með Músíktilraunum hér á landi minnast þess kannski að hljómsveitin hans tók þátt í þeirri keppni árið 2002 og lenti í þriðja sæti. Sjálfur var Rasmus valinn besti gítarleikari keppninnar. Makrel hefur líka komið fram í Noregi, Danmörku og Sviss. Árið 2005 hlotnaðist Rasmus sá heiður að vera valinn besti gítarleikari Færeyja, því að færeyskt tónlistarlíf hefur getið af sér fleira en þá frábæru Eivør Pálsdóttur. Rasmus Rasmussen er einn af mörgum hæfileikaríkum ungum Færeyingum sem vekja athygli fyrir gáfur sínar langt út fyrir eyjarnar átján. Á dögunum komst Rasmus á forsíðu Dimmalætting, stærsta dagblaðs Færeyja, þó ekki fyrir tónlist sína, heldur fyrir það að vera hommi og neita að fara með veggjum. Það hafði örlagaríkar afleiðingar.

„Það byrjaði í partíi hér í Tórshavn þar sem ég var staddur með vinum mínum. Einhver ókunnugur strákur vatt sér að mér og sagði: „Þú þarft nú ekki að standa þarna og klóra þér í rassgatinu bara af því þú ert hommi!“ Mér brá og ég spurði hvað hann meinti og þá endurtók hann þetta. 

Ég var ekki beint í skapi til að skemmta mér eftir þetta en fór samt með vinum mínum á skemmtistaðinn Glitni. Þegar við settumst niður með fyrsta bjórinn byrjaði ókunnugur strákur við næsta borð að æpa á mig klám og svívirðingar um kynhneigð mína og þá sem ég átti að hafa verið með. Allt í einu missti ég þolinmæðina, rauk til hans og velti honum honum á gólfið. Fjórir félagar hans réðust þá á mig og börðu mig sundur og saman þar til vinir mínir skökkuðu leikinn og drógu mig afsíðis. Starfsliðið reyndi að koma árásargenginu út, en þeir neituðu að fara. Eftir okkrar mínútur stóð stór hópur fyrir utan staðinn, þeir höfðu þá greinilega hringt í félaga sína. Þarna voru um fjörutíu manns sem biðu eftir að fá að ganga í skrokk á mér þegar ég kæmi út, en starfsliðið á Glitni bað mig um að vera kyrr, það væri ekki vogandi að fara út. Lögreglan kom og varð að beita hundum og kylfum til að sundra hópnum og tveir voru handteknir fyrir ofbeldi gegn lögreglumönnunum.“

FORSÍÐUVIÐTAL

„Seinna um nóttina var mér og vinum mínum laumað út í bíl og við fórum heim til mín. Ég bað þá um að gista hjá mér um nóttina, því ég bjóst eins við því að þetta gengi réðist inn í íbúðina. Þetta var bara fyrsti þáttur. Nokkrum dögum seinna hringdi blaðamaður og spurði hvort ég vildi koma í viðtal um það sem gerðist. Ég sagði já, og þegar viðtalið birtist streymdi til mín stuðningur frá fjölskyldunni og vinum mínum. En ég varð að taka mér frí frá vinnu til að jafna mig, ég var bæði dapur og reiður, reyndi að hugsa sem svo að strákarnir hlytu að átta sig á því að þeir hefðu brotið af sér. Var samt alltaf að hugsa um hvað hefði getað gerst hefði ég ekki komist undan þeim þessa nótt.“

MORÐHÓTUN

„Viku eftir að þetta gerðist var hringt. Ég var heima að horfa á sjónvarpið og ætlaði ekki að taka áhættuna og fara út þessa helgi. Í símanum heyrði ég rólega og yfirvegaða rödd sem sagðist vita hvar ég ætti heima og að hann ætlaði að koma og drepa mig. Ég skellti strax á, ég var í svo miklu uppnámi, en þegar síminn hringdi aftur þaut ég upp á loft til foreldra minna sem höfðu samband við lögregluna. Þeim tókst að rekja símtalið og sá sem hringdi var handtekinn með það sama. 

En þá var ég alveg búinn á því. Það eru takmörk fyrir öllu. Ég fékk taugaáfall, gat ekki sofið, skíthræddur því að lögreglan gat ekki haldið manninum inni yfir nóttina, og næstu klukkustundirnar eru alveg í þoku. Ég rauk út án þess að vita hvað ég var að gera og fannst svo meðvitundarlaus niðri við strönd undir morgun. Þá var ég fluttur á sjúkrahús og svo á geðdeild þar sem ég hef verið síðan til að jafna mig.“ 

Kærðirðu þá sem réðust á þig? 
„Nei, ég var í svo ofsalegri varnarstöðu, setti alla sökina á sjálfan mig, hugsaði með mér að ég hefði ekki átt að velta manninum þarna á Glitni af stólnum og allt eftir þessu. Hins vegar var lögreglan mjög almennileg við mig, þótt hún sinnti mér lítið, þeir voru líka svo ofboðslega stressaðir yfir ástandinu. En málið er í rannsókn. Aftur á móti verður sá sem hótaði mér lífláti að mæta fyrir rétti og þar mun ég bera vitni.“

TRÚIN OG PÓLITÍKIN

Torshavn prideHafa fleiri svona mál komið upp í Tórshavn?
„Já, ég veit um fleiri homma sem hafa orðið fyrir slæmu ofbeldi, en &tho
rn;eir kærðu það ekki. Þetta er lítið samfélag og margir hugsa sem svo að það sé bara best að „gleyma þessu“. En mín reynsla er einstök fyrir það að hafa orðið opinber og að málið málið skyldi koma til kasta yfirvalda. Svona gerist ekki oft en samt gerist það, það er að segja ef maður er ekki í felum með sjálfan sig. 

 Svo er ástandið á Lögþinginu ekki til að bæta þetta. Þar er ekki fylgi fyrir því að setja verndarákvæði í hegningarlöggjöfina, og nú á að reyna í þriðja sinn. Margir af þingmönnunum koma úr sértrúarsöfnuðum og hafa sagt hræðilega hluti um samkynhneigt fólk í lögþinginu og í fjölmiðlum. Með þessari afstöðu sinni senda þeir skilaboð til samfélagsins um að hommar og lesbíur eigi ekki sama rétt í samfélaginu og aðrir, þeir senda í rauninni stöðugt út skilaboð um að það sé í lagi að níðast á samkynhneigðum. Það eru engar ýkjur að þessa stundina leiðast trúin og pólitíkin hönd í hönd hér í Færeyjum. Samt veit ég að það sem kom fyrir mig hefur breytt viðhorfum sumra.“ 

Þú varst einn af stofnendum Friðarbogans. Segðu okkur frá því félagi. 
„Félagið var stofnað til að standa vörð um mannréttindi samkynhneigðra og til að hjálpa fólki, ekki síst unglingum sem ekki geta snúið sér neitt annað. Svo héldum við fyrstu gay pride gönguna og útihátíðina hér í Tórshavn í fyrra, 2005. Um líkt leyti héldum við samkomu þar sem lögmaður Færeyja, forsætisráðherrann okkar, hélt ræðu til stuðnings lesbíum og hommum. En það vantar stöðugleika í starfið, flest af þeim sem voru með í byrjun er flutt til útlanda, Ég veit bara um einn annan strák og þrjár stelpur sem ekki eru í felum með samkynhneigð sína núna hér í Færeyjum. Ein af stúlkunum er þekkt fjölmiðlakona. Friðarboginn er að vísu enn til sem félag, en lítið meira en það, held ég.“

KJAFTASÖGURNAR VERSTAR

Það hafa fleiri verið opnir hommar í Færeyjum. Rólant Samuelsen var þekktur maður í Tórshavn fyrr á árum, hæfileikaríkur og mikil hetja í augum þeirra sem muna hann. Það birtist viðtal við hann í færeysku blaði 1975, sama árið og fyrsta blaðaviðtalið við homma birtist á Íslandi, Hörð Torfason. En síðan virðist lítið hafa gerst. Hvernig var það að koma úr skápnum í Færeyjum eftir aldamótin? Var það erfitt? Mörgum finnst það nógu erfitt hér á litla Íslandi. 

 „Mér leið alveg hrikalega áður en ég kom út, og þetta var virkilega erfitt skref þótt mér liði auðvitað miklu betur á eftir. Sagan barst líka strax um allan bæ. Ég sagði fyrst nokkrum vinum mínum frá þessu og það gekk bara vel, en svo varð ég að segja foreldrum mínum það áður en ég var eiginlega tilbúinn til þess. Ég vildi ekki að þau fengju að heyra það í kjaftasögum utan úr bæ. En ég var heppinn, bæði vinirnir og fjölskyldan tóku þessu skynsamlega og standa með mér. Ég á tvíburasystur og þrjú eldri systkini, og þegar lætin urðu um daginn kom pabbi fram í stóru blaðaviðtali og í útvarpi, og sýndi algjöra samstöðu með mér. Kjaftasögurnar eru verstar, þegar fólk ekur framhjá og hrópar og bendir á mann úr bílunum, eða þegar sumir koma með grófar athugasemdir um einkalíf mitt. Ég slapp þó eiginlega við beinan fjandskap í skólanum og á vinnustað, en maður finnur að sumir eru rosalega mikið á varðbergi þegar ég nálgast. Jú, auðvitað finn ég stundum til útskúfunar. 

 Þetta var verst í sambandi við vinina. Einn góður félagi minn var talinn hommi af því að við vorum svo mikið saman. Annar góður vinur minn varð fyrir því að mamma hans spurði af hverju hann væri alltaf með mér, „geturðu ekki fundið þér annan félaga?“ sagði hún. Og ég man eftir því að einu sinni þegar ég sást kyssa strák niðri í bæ, þá fóru sögurnar af stað og við áttum að hafa farið í rúmið saman og gert þetta og hitt og hvað veit ég. Það er engin lygi, einkalíf manns er á milli tannanna á fólki.“

VANÞAKKLÁTT HLUTVERK

Á Íslandi nota samkynhneigðir mikið Netið til að kynnast. Hvernig er þetta hjá ykkur? 
„Jú, það er líka mjög vinsælt hérna og ég veit um að minnsta kosti fimmtíu auglýsingar frá Færeyjum á www.boyfriend.dk. En við erum sárafá sem þorum að standa við það sem við erum, og þess vegna er líka svo ofsalega mikill þrýstingur á okkur sem erum sýnileg. Það má segja að við séum eins konar „umboðsmenn“ þeirra sem eru í felum og það er vægast sagt vanþakklátt hlutverk. Sumir sýna manni virðingu, aðrir þögla fyrirlitningu og svo eru þeir þriðju sem senda manni tóninn, með árásum og auðmýkingum.“ 

 Hér áður fyrr fluttu íslenskir hommar og lesbíur í hópum landi brott til að geta dregið andann, ef svo má segja. Hefurðu velt því fyrir þér að flytja frá Færeyjum? 
„Já, og meira að segja reynt að flýja nokkrum sinnum. En ég sakna vinanna og fjölskyldu minnar, þá hef ég heldur ekki lengur lífið í kringum hljómsveitina, og svo sakna ég færeysku náttúrunnar. Í hvert sinn sem ég fer af landinu ætlar heimþráin mig lifandi að drepa og ég kem alltaf aftur, og svona gengur &
thorn;etta fram og aftur. Ef ég á að vera hreinskilinn þá er alveg búinn að fá nóg af þessu eirðarleysi, þessari tilfinningu að eiga hvergi almennilega heima.“

Rasmus RasmussenKENNA TIT RASMUS ?

Hefur það einhver áhrif á stöðuna að þú ert vinsæll tónlistarmaður? 
„Já, að vissu leyti. Það er sérstaklega í lífinu kringum músíkina sem mér finnst ég njóta viðurkenningar og virðingar og að vera talinn eitthvað fleira en hommi. Því ég kann að spila á gítar og það kunna margir að meta. Fólkið sem er í kringum tónlistarbransann er yfirleitt fordómalaust. Flest vita að Rasmus í Makrel er hommi, og ef þeim finnst varið í músíkina okkar þá hugsa þau sig tvisvar um áður en þau fordæma mig. En ef ég á að meta stöðuna eftir allt sem gengið hefur á, þá breytir engu fyrir suma hvað ég get og kann. Í þeirra augum er ég bara helvítis hommi!“ 

 En Rasmus Rasmussen frá degi til dags – hver er hann? 
„Hann er 26 ára strákur úr stórri fjölskyldu sem stendur þétt saman, búinn með tvo vetur af þremur í Verslunarskólanum, tónlistarmaður og Dj, þáttagerðarmaður í útvarpinu og svo býr hann í kjallaranum hjá mömmu og pabba. Mikið af tímanum fer í tónlistina og að horfa á eitthvað gott í sjónvarpinu, breska sakamálaþætti og flottar heimildamyndir. Þegar hann opnar bók þá er það oftast sagnfræði og eitthvað um náttúru og dýralíf. Svo finnst honum gaman að fara út á lífið með vinunum – þrátt fyrir allt.“

Diskar með hljómsveitinni Makrel eru til sölu á bókasafni Samtakanna ´78

Neðri myndin með viðtalinu sýnir göngu samkynhneigðra og stuðningsfólks þeirra í Tórshavn sumarið 2005. Ljósm: Jens Rydström

 

Leave a Reply