Skip to main content
search
Uncategorized

Yfirlýsing frá Spotlight

By 25. febrúar, 2002No Comments

Greinasafn – Saga og felagslif

Kæru lesendur og allir sem málið kann að varða.

Undanfarnar vikur og mánuði hefur aukið ofbeldi gagnvart samkynhneigðum verið mikið í umræðunni og hefur sú umræða eingöngu snúið að Spotlight. Ég þekki ofbeldi á Spotlight af eigin raun og þekki líka aðra sem hafa lent í ryskingum þar, en ég hef líka svo oft og mörgum sinnum lent í svipuðum aðstæðum á öðrum stöðum svo sem á 22 og Nelly´s svo einhverjir séu nefndir. Samt er ég á engan hátt að réttlæta ofbeldi að neinu leyti – hvort sem það eru hommar og lesbíur eða aðrir sem í því lenda. Auðvitað er það miður að við skulum lenda í þessu á þeim stað sem ætti að vera athvarf homma og lesbía, en því miður – óhöpp gerast.

Eftir flutning úr húsnæði Spotlight við Hverfisgötu og á nýja Spotlight við Hafnarstræti vonast maður til að betur fari og við reynum að sjálfsögðu að sporna við ofbeldi af öllu tagi í samvinnu við dyraverði og gesti staðarins. Ekki er að neinu leyti réttlætanlegt að starfsmenn, hvort sem það eru dyraverðir eða annað starfsfólk, láti það afskiptalaust að samkynhneigðir gestir okkar verði fyrir áreiti. Dyraverðirnir okkar eru nánast allir launaðir starfsmenn Spotlight og eru alls ekki aðkeyptir dyraverðir frá öðrum fyrirtækjum. Þeir eru flestir með nokkuð góða þekkingu á fastakúnnum okkar en geta að sjálfsögðu ekki þekkt alla úr okkar röðum, hvort sem það eru lesbíur eða hommar.

Ég hef heyrt óánægjuraddir um að inn sé hleypt gagnkynhneigðu fólki og þá langar mig að biðja þá, sem yfir því kvarta, að vera eina eða tvær kvöldstundir í dyrunum og velja þá úr!

Oft er áfengi kennt um að hommum og lesbíum er vísað út og í flestum tilfellum hefur það verið réttlætanlegt en á að gerast eins kurteislega og yfirvegað og hægt er. Eins og við flest vitum eru þó sumir samkynhneigðir einstaklingar ekki síður ofstopafullir en gagnkynhneigðir! Þetta verður alltaf svolítið erfitt að leysa en ég vona heils hugar að við vinnum saman að því að leysa það og gott væri að fá ábendingar beint til mín.

Ég hef fengið margar athugasemdir út af síðasta fréttabréfi Samtakanna ´78 en ein af greinunum sem þar var að finna birtist líka lesa hér í Efst á baugi í janúar. Sú umræða finnst mér bæði þörf og nauðsynleg, sérstaklega þar sem við áttum svo heilsíðuauglýsingu aftast í janúarhefti Samtakafrétta.

Spotlight er fyrir homma og lesbíur og alla sem una sér í sátt og samlyndi með okkur þar sem við getum verið við sjálf án fordóma og aðkasts. Ég vona af heilum hug að saman takist okkur í framtíðinni að byggja upp fínan og skemmtilegan stað fyrir okkur öll.

Með kæru þakklæti,

Sigurður Einarsson,
rekstrarstjóri og meðeigandi Spotlight.

Leave a Reply