Samtökin ‘78 fordæma harðlega það regluverk sem leyfir viðlíka aðgerðir og áttu sér stað í nótt þegar hópur hælisleitenda var sendur úr landi í skjóli nætur.
Við minnum á að í hópi flóttafólks og hælisleitenda hérlendis er einnig hinsegin fólk sem hefur flúið ofsóknir vegna kynhneigðar eða kynvitundar sinnar. Við vitum ekki enn hvort einhver þeirra voru numin af landi brott í nótt en sem mannréttindasamtök og talsfólk minnihlutahópa teljum við afar brýnt að við verjum skjólstæðinga okkar og stöndum með þeim jaðarsettu minnihlutahópum sem þeir tilheyra. Aðgerðir næturinnar grafa verulega undan því trausti sem við, og annað baráttufólk, berum til íslenskra stjórnvalda í þessum efnum.
Samtökin ‘78 telja samstöðu minnihlutahópa mikilvæga og vilja leggja sig fram um að standa með þeim hópum sem höllustum fæti standa í samfélaginu, ekki síst þeim sem eiga sér fáa eða enga málsvara. Við styðjum rétt fólks sem býr við ógn og óöryggi í sínu heimalandi að leita sér betra lífs annarsstaðar. Sá réttur er hagsmunamál fyrir hinsegin fólk sem víða um heim býr við engin eða afar skert réttindi og viðvarandi ógn við líf sitt og heilsu.
Samtökin ‘78 skora á stjórnvöld að endurskoða regluverk um útlendinga og krefjast þess um leið að hætt verði tafarlaust öllum brottvísunum flóttafólks og hælisleitenda til Grikklands, Ítalíu og annarra landa þar sem ljóst er að ekki er hægt að tryggja líf og heilsu fólks.
Sýnum mannúð og manngæsku. Það er nóg pláss á Íslandi.