Skip to main content
search
Aðalfundur

Aðalfundarboð 2017

By 2. mars, 2017nóvember 15th, 2021No Comments

Kæra félagsfólk!

Aðalfundur Samtakanna ‘78 árið 2017 verður haldinn laugardaginn 18. mars kl. 13:00 – 15:30 að Suðurgötu 3.

Rétt til fundarsetu hefur félagsfólk með gilt félagsskírteini. Félagsskírteini má nálgast á opnunartíma skrifstofu og á aðalfundinum, gegn framvísun staðfestingar á greiðslu félagsgjalda fyrir 2017. Hægt er að greiða félagsgjöld við innganginn. Hægt er að skrá sig sem félaga hér.

Dagskrá fundarins

  1. Skipan fundarstjóra og fundarritara
  2. Lögmæti aðalfundar staðfest
  3. Skýrsla stjórnar, trúnaðarráðs, nefnda og starfshópa
  4. Áritaðir reikningar fyrra árs kynntir og bornir upp til samþykktar
  5. Fjárhagsáætlun ársins lögð fram
  6. Laga- og stefnuskrárbreytingar
  7. Kjör formanns, varaformanns, ritara, gjaldkera og alþjóðafulltrúa
  8. Kjör tveggja meðstjórnenda
  9. Kjör tíu félaga í trúnaðarráð
  10. Kjör tveggja skoðunarmanna reikninga
  11. Önnur mál:
    1. Umræður og atkvæðagreiðsla um erindi Íslenskrar erfðagreiningar um formlegt samstarf við rannsókn á erfðafræðilegum grundvelli kynhneigðar

Örnámskeið um fundarsköp kl. 12:00

Fyrir fundinn mun Daníel Arnarsson halda örnámskeið um almenn fundarsköp kl. 12:00–12:45. Við hvetjum öll áhugasöm til að koma og kynnast þeim kúnstarinnar reglum sem gilda um framkvæmd funda sem þessara.

Lagabreytingatillögur

Þann 16. febrúar 2017 skilaði lagabreytinganefnd Samtakanna ‘78, sem skipuð var á félagsfundi 6. október 2016, tillögum sínum að lagabreytingum til stjórnar félagsins. Þær tillögur má sjá á tenglinum hér að framan og hvetjum við alla fundargesti til að kynna sér þær. Tillögurnar voru fyrst kynntar fyrir félögum á félagsfundi 28. febrúar 2017 og verða teknar til umfjöllunar og bornar undir atkvæði á fundinum 18. mars. Engar aðrar lagabreytingartillögur bárust innan tilskilins frests.

Umsóknir um hagsmunaaðild

Engar umsóknir um hagsmunaaðild bárust innan tilskilins frests.

Erindi Íslenskrar erfðagreiningar

Íslensk erfðagreining hefur óskað eftir formlegu samstarfi við Samtökin ‘78 um rannsókn á erfðafræðilegum grundvelli kynhneigðar. Erindið var fyrst kynnt fyrir félögum á félagsfundi 28. febrúar 2017. Á aðalfundinum munu fara fram umræður um þetta erindi og borið verður undir atkvæði hvort Samtökin ’78 skuli ganga til viðræðna um samstarf við rannsóknina.

Túlkun og aðgengi

Fundurinn fer fram á íslensku. Aðgengisþarfir má senda á netfangið skrifstofa@samtokin78.isog verður allt kapp lagt á að mæta þeim. Húsnæði samtakanna er aðgengilegt fyrir fólk með hreyfihömlun.

Brunch sunnudaginn 19. mars

Sunnudaginn eftir aðalfund, þann 19. mars kl. 11–14, verður boðið upp á síðbúinn morgunverð, „brunch“, á Suðurgötu 3. Léttar veitingar verða á boðstólum og öllum velkomið að koma með eitthvað til að bæta við hlaðborðið. Vegan valkostir verða að sjálfsögðu í boði. Við vonum að sem flestir félagar og fjölskyldur þeirra komi og njóti þessarar stundar með okkur. Börn eru hjartanlega velkomin.Við hlökkum til að sjá ykkur sem flest!

Kær kveðja,

stjórn og starfsfólk Samtakanna ‘78

Leave a Reply