Stundum líður okkur eins og við getum ekkert gert til þess að stöðva hatursfulla umræðu í garð minnihlutahópa. Það er ekki rétt.
Smelltu hér til að fara beint í skráningu á vinnustofu.

Við getum öll haft áhrif. Við getum öll notað gagnræðu.
Í grundvallaratriðum er gagnræða öll tjáning sem miðar að því að minnka áhrif skaðlegrar og hatursfullrar orðræðu á samfélag og einstaklinga. Í reynd felur gagnræða í sér að við tökum þátt í umræðunni með meðvituðum hætti.
Raddir umburðarlyndis og kærleika verða að heyrast. Þannig vinnum við gegn fordómum og minnkum líkur á ofbeldi.
Við notum gagnræðu fyrir samfélagið okkar.
Með því að nota gagnræðu getum við rofið vítahring hatursorðræðu í samfélaginu, minnt fólk á samskiptareglur samfélagsins og ýtt undir samtal, skilning og umburðarlyndi.
Á meðfylgjandi myndum eru samfélagsleg áhrif hatursorðræðu* útskýrð.
*Athugið að hatursorðræða er skilgreind í íslenskum hegningarlögum, en hér er átt við þá orðræðu sem lýsir fyrirlitningu í garð ákveðinna hópa. Sumt myndi teljast lögbrot, annað ekki – en allt hefur þetta áhrif.
Við notum gagnræðu því við erum á móti ofbeldi.
Gagnræða er öflugt mótvægi við stigmögnun hættulegrar orðræðu, eða þeirri orðræðu sem beinlínis veldur því að fólk beitir tiltekna hópa ofbeldi.
Þegar við tölum um hættulega orðræðu er unnið út frá skilgreiningu Dangerous speech project, sem hafa rannsakað efnið um árabil.
Á meðfylgjandi myndum er hugtakið útskýrt með vísan í umræðu um hinsegin fólk.
Helstu aðferðir

Þegar við spyrjum spurninga þarf fólk að rökstyðja mál sitt eða útskýra afstöðu sína. Stundum kemur í ljós að ummæli fólks voru vanhugsuð.
Hverju hefurðu áhyggjur af?
Hvaðan eru þessar upplýsingar?
Hvers vegna skiptir þetta þig máli?
Ertu viss um að þetta sé rétt?
Hefur þú persónulega reynslu af þessu?
Þekkir þú þennan málaflokk vel?

Með því að koma öðru sjónarmiði á framfæri sýnir þú viðkomandi og öðrum sem eru að lesa/hlusta að ekki allir eru á sama máli.
Ég er alveg ósammála þér. Mér finnst…
Ég hef engar áhyggjur af þessu. Mér finnst…
Ég fagna því að…
Mér finnst einmitt svo frábært að…
Ég er ekki sammála þessu, það er…
Ég get ekki tekið undir þetta, mér finnst…

Þegar við köllum eftir stillingu og minnum fólk á samskiptareglur samfélagsins gætir það frekar orða sinna.
Mér finnst að við eigum að sýna fólki lágmarks virðingu.
Mér finnst þessar umræður ekki málefnalegar.
Mér finnst ekki í lagi að tala svona um fólk.
Þessi umræða er særandi fyrir fólk sem mér þykir vænt um.
Mér finnst skipta máli að sýna fólki kurteisi.

Með því að leiðrétta fólk komum við í veg fyrir að fullyrðingar sem standast ekki skoðun fái að standa óáreittar. Hér má finna upplýsingar um álitaefni sem fólk fer oft rangt með.
Þetta er ekki rétt. Staðreyndin er sú…
Ég held að þetta sé ekki rétt hjá þér. Miðað við það sem ég hef heyrt/veit…
Reyndar er það þannig að…
Ég skil að þú hafir áhyggjur, en raunin er sú…
Ég held þú hafir fengið rangar upplýsingar, staðreyndin er…
Gagnræða er í reynd mjög einföld. Hún snýst fyrst og fremst um að finna hjá sér hugrekki til að takast á við skaðlega orðræðu, hvort sem það er á kaffistofunni eða á internetinu. Öryggi okkar er samt alltaf í fyrsta sæti. Þegar við treystum okkur ekki til þess að svara er hægt að biðja annað fólk að stíga inn í.
Það sem skiptir mestu máli er að við látum okkur umræðuna varða og gerum ekki ráð fyrir því að hún lagist af sjálfu sér. Raddir umburðarlyndis verða að heyrast.
Með gagnræðu viljum við ýta undir að fólk finni hjá sér virðingu og kurteisi gagnvart minnihlutahópum. Þess vegna sýnum við fólki virðingu og kurteisi þegar við tökumst á við fordómafulla umræðu með þessari aðferð. Við gerum alltaf ráð fyrir því fólk að vilji vel, jafnvel þegar okkur grunar að svo sé ekki.

