Skip to main content
MenningTilkynningViðburður

Hýr tákn 2022

By 20. janúar, 2022febrúar 3rd, 2022No Comments

Samtökin ‘78 kynna Hýr tákn í samstarfi við málnefnd um íslenskt táknmál. 

 

Hýryrði hafa á síðustu árum verið reglulegur viðburður hjá Samtökunum ‘78. Hýryrði er samkeppni um nýyrðasmíð hinsegin orða en niðurstöður hennar hafa verið kynntar 16. nóvember á degi íslenskrar tungu. Þar höfum við leitað að íslenskum orðum fyrir bæði hugtök sem þegar eru til á erlendum málum og orðum sem einfaldlega vantar í tungumálið. Í gegn um Hýryrði hafa orðið til nýyrði eins og eikynhneigð, á ensku asexuality, og kvár sem er orð yfir kynsegin manneskju sambærilegt orðunum karl og kona. 

 

Í ár viljum við beina sjónum að öðru opinberu tungumáli á Íslandi, íslensku táknmáli, og höfum við gengið til samstarfs við málnefnd um íslenskt táknmál um að halda Hýr tákn. Í þetta fyrsta skipti sem þessi nýyrðasamkeppni er haldin verður leitað að táknum fyrir fjögur hinsegin orð: eikynhneigð, kvár, stálp, og kynsegin.

 

Opnað verður fyrir innsendar tillögur miðvikudaginn 19. janúar og verður tekið við þeim fram til kl. 23:59 fimmtudaginn 3. febrúar. (Athugið að frestur til að senda inn tillögur hefur verið framlengdur til kl. 23:59 sunnudaginn 6. febrúar). Fulltrúi málnefndarinnar mun endursegja táknin á myndbandi sem berast mun til dómnefndar til að tryggja nafnleysi innsendra tillaga. Dómnefnd mun hafa eina viku til að velja milli þeirra og verða niðurstöður kynntar með viðhöfn á degi íslensks táknmáls, föstudaginn 11. febrúar.

 

Dómnefndin er skipuð fulltrúa Félags heyrnarlausra, fulltrúa málnefndar um íslenskt táknmál og einstakling sem tilheyrir bæði hinsegin og döff samfélaginu.

 

Tillögum skal skila inn í myndbandsformi í gegn um heimasíðu Samtakanna ‘78, https://samtokin78.is/hyrtakn-2022/

 

Orðskýringar:

Eikynhneigð
Eikynhneigt fólk laðast lítið eða ekkert kynferðislega að öðru fólki.

Kynsegin
Þau sem eru kynsegin upplifa sig utan við hina hefðbundnu kynjatvíhyggjuskiptingu í karla og konur. Sum upplifa bæði karlkyns og kvenkyns eða flæðandi þar á milli, sum sem hvorki karl né konu og önnur upplifa ekki að þau hafi eitthvað ákveðið kyn.

Kvár
Orð yfir kynsegin manneskju sambærilegt orðunum karl og kona. 

Stálp
Orð yfir kynsegin börn, sambærilegt orðinu stelpa og strákur.