Skip to main content
FræðslustarfViðtal

Íþróttahreyfing fyrir okkur öll! – Viðtal við Svein Sampsted

Viðtalið birtist fyrst í 3. tbl. Skinfaxa árið 2024 og er hér birt með góðfúslegu leyfi UMFÍ:

Sveinn Sampsted er helsti höfundur að nýju fræðsluefni um hinseginleikann. Þar er fólki kennt að bera kennsl á særandi orðræðu og hvaða áhrif hún getur haft á börn og ungmenni. Skoðað er hvernig er unnið gegn henni og tekið upp heilbrigð samskipti í staðinn.

Sveinn Samsted kynnir nýtt fræðsluefni Samtakanna ’78 á fundi hjá ÍSÍ

„Íþróttahreyfingin þarf að vera meðvituð um fjölbreytileikann, stöðva særandi orðræðu og mismunun. Fólk sem upplifir neikvæðni gegn sér flýr frekar fordómafullar aðstæður og leitar í öruggt skjól. Sú vanlíðan sem fylgir þeim aðstæðum ýtir undir brottfall. Við getum unnið gegn brottfallinu með fræðslu,“ segir íþróttafræðingurinn Sveinn Sampsted, starfsmaður svæðisstöðva íþróttahéraðanna á höfuðborgarsvæðinu og fyrrum fræðari hjá Samtökunum ‘78.

Samtökin gáfu í haust út nýtt fræðsluefni og leiðbeiningar fyrir starfsfólk og sjálfboðaliða í íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarfi fyrir hönd mennta- og barnamálaráðuneytisins. Fræðsluefnið er í formi þriggja myndskreyttra bæklinga. Þeir eru af þrennum toga og fjalla um það hvernig stöðva má fordóma og mismunun, sýnilegan stuðning við hinseginleika og upplýsingar um aðstöðu og mót. Samhliða því voru búin til veggspjöld sem sýna annars vegar vítahring fordóma í íþróttum og hvernig fordómar byggjast upp stig af stigi.

Svarar spurningum fólks

Sveinn er helsti höfundur efnisins sem var unnið í nánu samstarfi við Þorbjörgu Þorvaldsdóttur og Elías Rúna. Það varð til upp úr aðgerðaáætlun stjórnvalda í málefnum hinsegin fólks og var samþykkt á Alþingi árið 2022. Að vissu leyti varð efnið til í kringum fyrirlestra sem Sveinn flutti í tengslum við fræðsluna hjá Samtökunum ‘78.

„Ég byrjaði að halda fyrirlestra haustið 2022. Sá fyrsti var í Borgarnesi og nú eru þeir orðnir 70 talsins og um þrjú þúsund manns um allt land búin að hlusta á þá. Á þessum fyrirlestrum fékk ég rosalega mikið af spurningum og punktaði þær allar niður. Síðan gerði ég félagsfræðilega greiningu út frá þeim og út frá þeim varð stærstur hluti fræðsluefnisins til. Það er tilraun til að svara þeim spurningum sem fólk spurði,“ segir Sveinn.

Alls konar fólk sótti fyrirlestrana, allt frá leikmönnum í meistaraflokki í knattspyrnu, iðkendum og þjálfurum hjá íþróttafélögum um allt land, bókasafnsfræðingum, sjómönnum úr Hnífsdal, starfsmönnum sundlauga á mörgum stöðum og svo má lengi telja.

„Ég fékk smá kvíðakast þegar ég fékk verkefnið fyrst í hendurnar. Ég vissi ekki hvar ég átti að byrja á svona stóru verkefni. En þegar ég notaði spurningarnar af fyrirlestrunum og frá erlendum fyrirmyndum þá byrjaði þetta að taka á sig mynd. Við getum sagt að ég hafi ekki fundið upp hjólið. En ég fann hjól, pumpaði í dekkið og setti glimmer á það,“ segir Sveinn og viðurkennir að hann hafi verið í svolitlu basli í byrjun með að finna út úr framsetningu á fræðsluefninu.

„Mér fannst mikilvægt að fræðsluefnið væri á mannamáli. Því var pælingin að hafa efnið sjónrænt og praktískt, þar sem alvöru dæmi eru tekin fyrir. Þess vegna voru margar upplýsingarnar í formi myndasagna,“ segir Sveinn. Veggspjöldin hafa verið þýdd á ensku en bæklingarnir eru enn sem komið er aðeins til á íslensku.

Mikið af þeim upplýsingum sem Sveinn bjó til eru til með ýmsum hætti á öðrum tungumálum og margt fjallað um mun fleiri þætti en hinseginleikann.

„Við lögðum mikla vinnu í að nota dæmi sem fólk heyrir og hefur upplifað. Við þurftum að sýna hvernig orðræða getur sært og hvernig einelti getur litið út. Það fær fólk til að hugsa og átta sig á ómeðvituðum fordómum og þeim neikvæðu áhrifum sem fólk vissi ekki að það hefði,“ segir Sveinn og bætir við að mikil vinna hafi verið lögð í bæði bæklingana og veggspjöldin.

Hjálpum þjálfaranum að læra

Vítahringur fordóma hefst á því að börn og ungmenni heyra særandi orð frá starfsfólki og öðrum börnum. Mikilvægt er að þau sem bera ábyrgð á starfinu stigi inn í umræðuna og stöðvi hana. Sveinn, samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs, og fleiri sem að fræðsluefninu koma hafa búið til aðgerðaaáætlun sem nær allt frá því særandi orð heyrast fyrst og til hvaða ráða skuli grípa. Aðgerðaáætlunin er búin til úr raunverulegum dæmum.

Íhaldssöm íþróttahreyfing þokast í rétta átt

Sveinn segir íþróttahreyfinguna geta verið íhaldssama og á suman hátt gamaldags. Hrista verði upp í henni og færa samskiptamáta til nútímahorfs.

„Þegar ég heimsæki sum íþróttafélög þá líður mér stundum eins og ég sé að stíga inn í tímavél. Þar heyri ég sömu brandarana og þegar ég var yngri. Þar er sama menning og áður, þjálfararnir segja sömu brandarana og viðhalda menningunni, sem stundum er gamaldags og særandi. En enginn þorir að stíga inn í og breyta þessu. Það viðheldur fordómunum. Þvert á móti þurfum við að stöðva fordómafulla menningu. Nýja fræðsluefnið vekur athygli á leiðum til að gera það,” segir Sveinn og bætir við að svo virðist sem gömul viðhorf fylgi gömlum íþróttum.

„Mín kenning er sú að því yngri sem íþróttagrein er, þeim mun líklegri er hún til að hafa tileinkað sér nútímaleg og heilbrigðari viðhorf til ýmissa hópa,“ segir Sveinn.

Vel hægt að vera hommi í íþróttum

„Ég ólst upp við það í barnæsku að heyra að það væri ekki hægt að vera hommi í íþróttum og að enginn hommi væri í fótbolta. En þegar ég var 12 ára á golfmóti í Vestmannaeyjum gekk strákur fram hjá mér. Ég sagði við frænda minn: Vá, hvað þessi er sætur! Hann benti mér á að hommum finnist aðrir strákar sætir. Þá dró ský fyrir sólu. Á því augnabliki kveikti ég á því að orðið hommi átti við um mig, að ég væri samkynhneigður. Það helltist yfir mig ótti. Neikvæð orðræða sem ég hafði heyrt úr æsku spilaðist í hausnum á mér. Á þeim tímapunkti steig ég inn í skápinn, vegna mikils ótta við höfnun, og kom ekki út fyrr en ég var að verða 18 ára,“ segir Sveinn og bætir við að börn geri sér ekki alltaf grein fyrir því að orð særa. Þess vegna sé svo mikilvægt að stöðva orðræðuna og fræða.

„Núna eru 12 ár síðan ég kom út úr skápnum og ég hef verið tengdur íþróttahreyfingunni allan þann tíma. Þannig ég veit í dag að það er vel hægt að vera hommi í íþróttum. Sama má segja um homma í fótbolta. Í fyrra kom Jakub Jankto, leikmaður Cagliari í ítölsku deildinni, út úr skápnum. Hann hefur sagt í viðtölum að hann er ánægður að hafa tekið þessa ákvörðun. Sem er jákvæð þróun þó svo við séum ekki kominn í mark,“ bætir Sveinn við.

Get ég skilgreint mig sem þyrlu?

Svar: Nei, hér er verið að gera grín að trans fólki og gera lítið úr þeirra upplifun. Þetta er upphaf að slæmri orðræðu. Fólk gerir sér ekki grein fyrir særandi áhrifum orða. Að sögn Sveins er þetta einmitt stóra verkefnið, að upplýsa fólk um hvað er særandi orðræða. Særandi orðræða er með fyrstu skrefum og getur þróast út í einelti eða líkamlegt ofbeldi. Eins og ein myndanna á veggspjöldunum gefur til kynna er mikilvægt að kippa stoðunum undan fordómabyggingunni og koma í veg fyrir að hann haldi áfram að þróast, sem er gert með fræðslu og opnu samtali um fjölbreytileikann í íslensku samfélagi á neðstu stigum. Þar á eftir er mikilvægt að stíga inn í og stöðva særandi orðræðu og tilkynna málin til samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs í alvarlegri málum.


Frá áfalli yfir í mannréttindabaráttu

Sveinn varð fyrir áfalli árið 2018. Hann var þá að þjálfa í frjálsum íþróttum. Úti undan sér sá hann um 10 ára strák leika sér með stelpunum á stangarstökksdýnunni. Til hans hlupu eldri strákar og kölluðu til hans: Af hverju ertu að leika þér með stelpunum, helvítis fagginn þinn!

„Ég átti svo erfitt með að horfa upp á þetta. Ég byrjaði að skjálfa, fór fyrr heim af æfingunni og brotnaði saman af því að ég hugsaði til þess að þetta væri ekkert að breytast. Ég sá fyrir mér að krakkar sem fæddir eru í kringum 2010 verði fyrir sömu fordómum og kynslóðin á undan mér og ég líka. Ekkert muni breytast. Þessir sömu krakkar fara kannski áfram í íþróttir, viðhorfin lifa, brandararnir halda áfram og fordómarnir líka. Þau sem nota þessi orð finna ekki fyrir neikvæðu áhrifunum. Sum verða næstu þjálfarar barnanna okkar og stjórnendur íþróttafélaga, sem halda áfram að segja sömu brandara og voru eðlilegir fyrir fimmtíu árum. En það var á þessum tímapunkti árið 2018 sem mín vegferð í lífinu breyttist og ég leiddist út í mannréttindabaráttu. Með það aðalmarkmið að finna leiðir til að stoppa fordóma og mismunun í íþróttum,“ segir Sveinn.

Sveinn fyrir miðju ásamt Þorbjörgu Þorvaldsdóttur, samskipta- og kynningarstjóra Samtakanna ’78, og Kára Garðarssyni, framkvæmdastjóra Samtakanna ’78.

 

Allir bæklingarnir og veggspjöldin sem hér er fjallað um eru á samtokin78.is/utgafa.