Skip to main content
AlþjóðamálFréttir

Samtökin ’78 á fundi Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna (CSW69) í New York

By 11. mars, 2025apríl 2nd, 2025No Comments

Þorbjörg Þorvaldsdóttir, samskipta- og kynningarstjóri Samtakanna ‘78, er fulltrúi félagsins í sendinefnd Íslands á fundi Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna (CSW69) í New York. 

Fundurinn var settur í gær, en samhliða honum er haldinn fjöldinn allur af hliðarviðburðum á vegum ríkja og félagasamtaka. Þorbjörg mun í vikunni sækja viðburði sem tengjast áherslum Samtakanna ‘78, auk þess sem samtökin eiga aðild að viðburði Kvennaárs 2025 og íslenskra stjórnvalda í dag. Sérstök hliðardagskrá við fundinn er á vegum alþjóðlegra hinsegin félaga og meðal annars verður framlagi lesbía við gerð Peking-sáttmálans um réttindi kvenna, sem samþykktur var fyrir 30 árum, gert hátt undir höfði í dagskránni. 

Hér er ótrúlegt samansafn af ólíku fólki, úr öllum heimshornum. Á fundinum og hliðarviðburðum hans eru ræddar leiðir til þess að takast á við kynbundið ofbeldi, mismunun og mannréttindabrot af öllu tagi auk þess sem valdefling allra kvenna, menntun og virðing fyrir framlagi þeirra er undirtónninn. 

Þrátt fyrir baráttuviljann og kraftinn sem ég skynja hérna þá er þungt hljóð í fólki, því réttindi kvenna og hinsegin fólks eiga undir högg að sækja um allan heim. Það birtist meðal annars í því sem Antonio Guiterres kallaði í ræðu sinni ‘nosedive’ í fjárframlögum til kvenréttindafélaga í heiminum, og sem ég veit fyrir víst að er tilfellið fyrir hinsegin félög líka. Það er verið að draga stoðirnar undan framförum. 

Eftir þennan fyrsta dag er ég enn sannfærðari en áður um það að femínísk barátta og hinsegin barátta eru tengdar órjúfanlegum böndum, enda vinnum við saman að frelsi fyrir allt fólk til þess að haga lífi sínu eins og það kýs sjálft án ótta við ofbeldi. Ég ber regnboganæluna mína og merki Samtakanna ‘78 með stolti á fundinum,“ skrifar Þorbjörg frá New York.

Uppfært eftir ferðina: 

Þorbjörg sótti fjölmarga viðburði, m.a. viðburð norrænu ráðherranefndarinnar sem bar heitið Pushing for progress, viðburð Evrópuráðsins og Lúxemborgar Threats and opportunities of digital technologies: Women in the public eye, auk viðburðar íslenskra stjórnvalda og fjölda félagasamtaka (þ.á.m. Samtakanna ’78) um kvenréttindabaráttu á Íslandi sem bar heitið Women’s Strike – 50 years on. Loks tók hún fullan þátt í dagskrá hinsegin félaga í tengslum við fundinn, þar sem hún sat t.d. viðburðina Transfeminist alliances against fascismLived experiences of intersex womenCentering African LBTI women in global gender equality policy frameworks á vegum Outright international og Taking stock and holding the line: A cross-movement dialogue about bodily autonomy á vegum Count Me In! consortium, European Sex Workers’ Association og ILGA World.

Þá tók Þorbjörg þátt í tveimur tvíhliða fundum sem skipulagðir voru af Outright International, annars vegar með Póllandi og hins vegar með Bretlandi. Þar hitti hún fyrir Katarzyna Kotula, jafnréttisráðherra Póllands, og Lord Collins of Highbury, talsmann ríkisstjórnar Bretlands í jafnréttismálum. Þorbjörg lagði áherslu á að framgangur jafnréttismála í Póllandi hefðu áhrif á stóran hóp fólks af pólskum uppruna á Íslandi og hvatti bresku fulltrúana til dáða þegar kemur að lögum um kynrænt sjálfræði og heilbrigðisþjónustu fyrir trans börn og ungmenni.

 

Þorbjörg fyrir utan höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna.

 

Af hliðarviðburði Norrænu ráðherranefndarinnar.