Skip to main content
AlþjóðamálFréttir

Samtökin ’78 á fundi Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna (CSW69) í New York

Þorbjörg Þorvaldsdóttir, samskipta- og kynningarstjóri Samtakanna ‘78, er fulltrúi félagsins í sendinefnd Íslands á fundi Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna (CSW69) í New York. 

Fundurinn var settur í gær, en samhliða honum er haldinn fjöldinn allur af hliðarviðburðum á vegum ríkja og félagasamtaka. Þorbjörg mun í vikunni sækja viðburði sem tengjast áherslum Samtakanna ‘78, auk þess sem samtökin eiga aðild að viðburði Kvennaárs 2025 og íslenskra stjórnvalda í dag. Sérstök hliðardagskrá við fundinn er á vegum alþjóðlegra hinsegin félaga og meðal annars verður framlagi lesbía við gerð Peking-sáttmálans um réttindi kvenna, sem samþykktur var fyrir 30 árum, gert hátt undir höfði í dagskránni. 

Hér er ótrúlegt samansafn af ólíku fólki, úr öllum heimshornum. Á fundinum og hliðarviðburðum hans eru ræddar leiðir til þess að takast á við kynbundið ofbeldi, mismunun og mannréttindabrot af öllu tagi auk þess sem valdefling allra kvenna, menntun og virðing fyrir framlagi þeirra er undirtónninn. 

Þrátt fyrir baráttuviljann og kraftinn sem ég skynja hérna þá er þungt hljóð í fólki, því réttindi kvenna og hinsegin fólks eiga undir högg að sækja um allan heim. Það birtist meðal annars í því sem Antonio Guiterres kallaði í ræðu sinni ‘nosedive’ í fjárframlögum til kvenréttindafélaga í heiminum, og sem ég veit fyrir víst að er tilfellið fyrir hinsegin félög líka. Það er verið að draga stoðirnar undan framförum. 

Eftir þennan fyrsta dag er ég enn sannfærðari en áður um það að femínísk barátta og hinsegin barátta eru tengdar órjúfanlegum böndum, enda vinnum við saman að frelsi fyrir allt fólk til þess að haga lífi sínu eins og það kýs sjálft án ótta við ofbeldi. Ég ber regnboganæluna mína og merki Samtakanna ‘78 með stolti á fundinum,“ skrifar Þorbjörg frá New York.

Þorbjörg fyrir utan höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna.

 

Af hliðarviðburði Norrænu ráðherranefndarinnar.