Skip to main content
search

Hér er erindi sem var haldið af Hafdísi Erlu Hafsteinsdóttur á málþingi um stjórnmálaumræðu. Upptöku af erindinu má nálgast hér.

„Geir slapp í gegnum þetta eins og smjör á smokknum hjá honum þarna Friðriki Ómari,“ –Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokks og fyrrverandi utanríkisráðherra

Þessi undarlega anekdóta fékk að flakka í Klausturumræðunum svokölluðu, en þar líkti Gunnar Bragi skipun Geirs H.Haarde í sendiherrastöðu við endaþarmsmök samkynhneigðra karla. Fyrir utan hið augljósa, það er hversu rætin og óforskömmuð þessi ummæli eru, er ýmislegt við þau sem vekur athygli og er vert að ræða nánar. Það fyrsta er að þessi ummæli, fyrir utan að vera fullkomlega óskiljanleg, þjóna engum tilgangi í samtalinu – nema að eiga að vera fyndin og undirstrika hvað Gunnar Bragi er sniðugur og kaldur kall. Það er að segja, Friðrik Ómar er ekki tekin frekar fyrir, né annað hinsegin fólk almennt, allavega samkvæmt þeim hluta samtalsins sem fjölmiðlar hafa fjallað um. Eini tilgangur þessara ummæla virðist vera að tikka í öll boxin um hatursorðræðu í garð minnihlutahópa, og það kemur ekkert á óvart. Miðað hvernig samtalið hafði þróast, þá heimsmynd og þann valdapýramída sem búið var að draga upp sem byggðist á kvenfyrirlitningu og fötlunarfordómnum í sinni verstu mynd, þá var það nánast orðræðuleg skylda manns á borð við Gunnars Braga að hnýta saman einhvern hómófóbískan þvætting og klína utan í ummæli um sendiherrastöður.
En lítum nú aðeins nánar á hvers konar útgáfu af hómófóbíu Gunnar kaus að bregða fyrir sig. Þetta er frekar gömul orðræða þar sem endaþarmsmök homma eru sett í forgrunn. En nýrri og uppfærðari gerð af hómófóbíu sem oft er viðruð í kommentakerfum og öðrum kimum inernetsins síðastliðin misseri virðist frekar vera upptekin af því að ráðast  á hinsegin fólk fyrir að vera of frekt og heimta sérréttindi. Ef við gefum okkur að Klausturhjalið sé ekki einsdæmi, heldur á einhvern hátt dæmigert fyrir þankagang ákveðins hóps í þjóðfélaginu –  það var jú fyrrverandi forsætisráðherra sem var maestro kvöldsins og því getur konsertinn varla verið einangrað undantekningartilfelli –   kemur glöggt í ljós að enn er grunnt á rætinni orðræðu þar sem hinsegin fólk er smættað niður í kynfæri sín og samkynja kynlífi stillt upp sem einhverju ónáttúrulegu, óþægilegu og óviðeigandi.  Þetta þrástef hefur verið notað til að svívirða homma og lesbíur og annað hinsegin fólk alla síðustu öld og greinilega enn þann dag í dag. Í ljósi þess að þarna voru á ferðinni einstaklingar sem að nafninu til eiga að vera í forsvari fyrir jafnréttisbaráttu sýnir okkur á heldur miskunnarlausan hátt hversu grunnt er ennþá á fordómum af sóðalegasta tagi og hversu sá árangur sem við teljum okkur þó hafa náð í réttindabaráttu síðaltliðinna 40 ára er í raun brothættur.
Í þessu samhengi er áhugavert að skoða viðbrögð Samtakanna ’78, sem sendu út yfirlýsingu í tilefni ummæla Gunnars Braga, en í yfirlýsingunni var tekið fram að  „Samtal Alþingismanna á Klaustri lýsir djúpstæðri kvenfyrirlitningu, hinseginfóbíu og fötlunarfordómum sem ekki er hægt að una. Mannréttindabarátta þessara hópa, sem og annarra minnihlutahópa, tvinnast saman og fylgist að.“ Þetta sjónarhorn, sem unnið er út frá hugmyndum um samtvinnun (e. intersectionality) er um margt áhugavert. Í fyrstu stefnuskrá Samtakanna frá stofnárinu 1978 var tekið fram í 6. grein að „Öll mannréttindi eru samtvinnuð. „Hómósexúalfólk“ á því samleið með öllum öðrum sem farið er í manngreinarálit við. Við „hómósexúalfólk“ á Íslandi viljum því að félag okkar styðji önnur félög er leita mannréttinda og afli stuðnings þeirra.“ En það má segja að oft og tíðum hafi lítið farið fyrir þessari samþættingarhugsjón fyrstu stefnuskrárinnar í starfi og baráttu samtakanna í gegnum tíðina. Það eru engin ný sannindi að hómófóbía og kvenfyrirlitning séu samofin fyrirbæri þar sem eitt væri ekki til án annars, en það er sjaldan sem maður fær að upplifa það svona glöggt í praxís líkt og klausturkonsertinn sannaði. Ljósi punkturinn í þessu frá mínum sjónarhorni er sá að þau samtök sem eiga að vera í forsvari fyrir okkur hómósexualista og annað hinsegin fólk, svo ég bregði fyrir mér orðfæri 8.áratugarins, virðast allavega tilbúin að nálgast vandan frá breiðara sjónarhorni sem ég held að sé lykilhugmynd í þessari baráttu sem virðist vera að upplifa mikið bakslag úr átt hinna nýju popúlistahreyfinga.
Hafdís Erla Hafsteinsdóttir, sagnfræðingur.