Skip to main content
Viðtal

,,Ömurlegt fyrir öll börn að missa af hinsegin fræðslu“

By 27. september, 2024desember 4th, 2024No Comments

Viðtal við nýjan framkvæmdastjóra Samtakanna ’78, Kára Garðarsson:

Kári kemur úr íþróttaheiminum og velti því alvarlega fyrir sér hvort það að koma út úr skápnum þýddi að hann yrði að hætta í handboltanum og snúa sér að öðru. Svo varð blessunarlega ekki og í dag er Kári Garðarsson nýtekinn við sem framkvæmdastjóri Samtakanna ‘78. 

„Ég er 42 ára, fæddur í Reykjavík en uppalinn á Akureyri. Hef svo komið við í Vesturbænum en bý í dag á Seltjarnarnesi með manninum mínum, ketti og hundi. Áður en ég tók við framkvæmdastjórastöðu Samtakanna ‘78 í sumar var ég framkvæmdastjóri íþróttafélagsins Gróttu á Seltjarnarnesi en hef annars starfað í skólakerfinu og var aðstoðarskólastjóri þar á undan.“

Hann segir eitt og annað vera líkt með starfi íþróttafélaga og hagsmunafélaga þegar kemur að rekstrarhlutanum. Í báðum tilfellum er verið að eiga við þriðja geirann og reyna að fjármagna starfsemina með aðkomu ríkis og sveitarfélaga og stuðningi frá fyrirtækjum og einstaklingum. Í hvoru tveggja er hópur starfsfólks og sjálfboðaliða. Stjórnarfólk stýri starfseminni og framkvæmdastjórinn vinni í umboði þeirra. 

„Hins vegar er líka margt ólíkt og þó svo að íþróttastarfið hafi mikið forvarnagildi og sé reyndar stundum eins og trúarbrögð hjá sumum, þá er það ekki sambærilegt við mannréttindabaráttu fólks til að fá að lifa mannsæmandi lífi á sömu forsendum og aðrir í þjóðfélaginu.“

Heilu liðin þar sem enginn er hinsegin
Sjálfur segist Kári hafa komið frekar seint út úr skápnum eða 27 ára, og fagnar því að fólk sé sífellt yngra þegar það tekur sig sjálft í sátt. 

„Ég kom eiginlega óvart út fyrir bróður mínum en var samt byrjaður að stíga lítil skref í þessa átt og hugsaði með mér að ég yrði einfaldlega að horfast í augu við þennan hluta af sjálfum mér. Í íþróttahreyfingunni var ekki mikið af fyrirmyndum sem ég gat litið til í þessum efnum. Ein af ástæðum þess að ég beið með að taka þetta skref var líklega sú að ég hélt að ég yrði bara að hætta í handboltanum og snúa mér að einhverju öðru. En svo var sem betur fer ekki. Ég man að á þeim tíma sem ég kom út hugsaði ég með mér að landslagið yrði allt annað eftir um það bil 20 ár, sérstaklega í þessum hefðbundu „karlaboltagreinum“. En staðan í dag er enn þannig að við sjáum ekki mikið um hinsegin íþróttafólk. Stundum er sagt að um það bil 10% fólks sé hinsegin en svo sér maður heilu liðin þar sem enginn er opinberlega hinsegin. Samtökin ‘78 hafa haldið úti fræðslu til þjálfara og fræðslu í grunnskólum, þar sem iðkendurnir eru og við höldum áfram að fræða og vinna ötullega að þessum málum.“

Eðli málsins samkvæmt stendur samstarf íþróttahreyfinga og Samtakanna ‘78 Kára nærri en þó er af nægu að taka og verkefnin framundan mörg. Hann segist taka við góðu búi af Daníel E. Arnarssyni sem var framkvæmdastjóri til sjö ára áður en Kári tók við. 

„Daníel gerði frábæra hluti og á mikinn heiður skilinn fyrir sitt starf með starfsfólki og sjálfboðaliðum og allt það sem gert var að vel ígrunduðu máli hjá Samtökunum á krefjandi tímum. Við erum ólíkir og með ólíkar áherslur en í því er líka fólginn styrkleiki að mínu mati. Framkvæmdastjórastarfið er viðamikið og víðfeðmt. Við erum í öðru sæti á Regnbogakorti ILGA-Europe, sem er fagleg nálgun á stöðu hinsegin réttinda í ríkjum Evrópu og Mið-Asíu. Þarna viljum við að sjálfsögðu vera í fyrsta sæti. Við höfum fengið góða aðstoð frá stjórnvöldum þegar kemur að þáttum eins og breytingum á regluverki, vörnum gegn hatursorðræðu og fleira. Mig langar að opna Samtökin okkar enn meira. Verkefnin hafa verið fjölmörg og flókin og þá hefur kannski minni tími gefist til að sinna fólkinu okkar. Ég vil að við fjölgum sjálfboðaliðunum okkar og gerum félagið aðgengilegra fyrir enn fleiri en við erum að ná til í dag. En það er margt að ganga vel hjá okkur. Hinsegin félagsmiðstöð Samtakanna ‘78 og Tjarnarinnar í Reykjavík hefur til dæmis blómstrað með að meðaltali 120 þátttakendum sem koma víðs vegar að. Eitt af mínum fyrstu verkefnum var að teikna upp einhverskonar fjárhagssýn með það markmið að hafa félagsmiðstöðina opna oftar. 

„Þangað sækja börn sem verða fyrir aðkasti og þurfa öruggt rými, hitta annað fólk sem er hinsegin sem þau geta speglað sig við og talað við. Þetta er oft þung starfsemi og þessi börn þurfa mikinn stuðning.“

Ég myndi vilja sjá þessa starfsemi fullfjármagnaða, opið fyrir yngri hópa og opið oftar. Til lengri tíma myndi ég auðvitað vilja sjá þessi börn í öllum hefðbundnum félagsmiðstöðvum að njóta sín og vera þau sjálf. Vonandi náum við á þann stað í framtíðinni. Ég myndi líka vilja að fræðslumálin færu í þann farveg að vera hluti af fagvitund kennara en ekki endilega að við komum inn með sérstaka fræðslupakka þó kennarar séu mjög ánægðir með stuðninginn sem felst í því. Meðvitund um hinsegin mál ætti einfaldlega að vera hluti af daglegu og faglegu starfi, hluti af námsskrá og ekki komið undir ákvörðun hvers skólastjóra eða fræðslustjóra sveitarfélaga. Það er ömurlegt fyrir öll börn, en ekki síst hinsegin börn, að verða af svona fræðslu.“

Þurfum að vera vakandi og spyrna við fótum
Hinsegin samfélagið hefur átt sérstaklega undir högg að sækja undanfarin ár þar sem réttilega er talað um bakslag í baráttunni. Þó mikill árangur hafi náðst er lítið útlit fyrir lygnan sjó í náinni framtíð og Kári segir mikilvægt að vera vakandi fyrir öflum og orðræðu sem láta á sér kræla í næsta nágrenni við okkur. 

„Staðan sem var áður að teiknast upp í löndum sem við vorum ekki endilega að bera okkur saman við, er allt í einu komin mjög nálægt okkur. Einhvers konar öfgaíhaldssöm og oft andvísindaleg orðræða og öfl sem fá allt of mikinn hljómgrunn á stöðum eins og í Bretlandi og Svíþjóð. Við erum vakandi fyrir þessu hér heima meðal annars í því samhengi hvort stjórnmálafólk er að teygja sig í þessar áttir. Þá þurfum við að geta spyrnt við fótum. Í nánustu framtíð skiptir líka miklu máli að klára þær lagabreytingar sem eru hafnar og þá aðgerðaáætlun sem stjórnvöld fóru af stað með í málefnum hinsegin fólks. Þar er vinna í gangi í flestum ráðuneytunum þar sem við þurfum að eiga aðkomu með okkar sérfræðiþekkingu svo reglunum sé breytt í þágu okkar fólks.“

Flúðir, Eistland og allt þar á milli
Hinseginleikinn er hvorki bundinn við stétt, stöðu eða póstnúmer og því er mikilvægt að fræðsla og þjónusta Samtakanna ‘78 berist sem víðast í þágu þeirra sem á þurfa að halda. 

„Við erum með starfsemi vítt og breytt um landið þó höfuðstöðvarnar séu í Reykjavík. Ráðgjafaþjónustan okkar er að hluta til á netinu en fræðslan okkar er með samninga um allt land, til að mynda eru tveir fræðarar frá okkur að fara á Flúðir í dag. Við tökum þátt í hinsegin hátíðum víðs vegar um landið, meðal annars í Borgarnesi, Hrísey og á Austurlandi nú í sumar og reynum eftir fremsta megni að vera sýnileg og virk á landsbyggðinni. Draumastaðan væri auðvitað að vera með starfsstöð í hverjum landshluta og vonandi verður það einhvern tímann að veruleika. Alþjóðastarf samtakanna er svo mun viðameira en ég gerði mér grein fyrir áður en ég tók við sem framkvæmdastjóri og það líður ekki sú vika að við fáum ekki erindi að utan, núna síðast frá Eistlandi, þar sem við erum beðin um að halda fyrirlestur eða um samstarf í einhverju formi. Það er horft til okkar því við erum komin framarlega í þessum málum og mörg önnur lönd leita til okkar og vilja fá að vita hvernig við gerum hlutina. Við þurfum að halda í þá stöðu.“

Að lokum leggur Kári mikla áherslu á mikilvægi stuðnings Regnbogavina, styrktarsamfélags Samtakanna ‘78.

„Ég veit ekki hvort fólk áttar sig á hversu dýrmætt þeirra framlag er í okkar starfsemi. Sem betur fer náum við í dag að fræða og veita fleirum ráðgjöf, en það er ekki síst Regnbogavinum að þakka og fyrir það erum við óendanlega þakklát.“