Skip to main content
FréttirTilkynning

Hönnunarsamkeppni Samtakanna ‘78 um tákn fyrir kynhlutlaus rými

By 19. nóvember, 2024nóvember 22nd, 2024No Comments

Samtökin ‘78 í samstarfi við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs og FÍT, Félag íslenskra teiknara, standa fyrir hönnunarsamkeppni um tákn fyrir kynhlutlaus rými, svo sem salerni, búningsklefa, sturtuaðstöðu o.fl. 

 

Verkefnið

Fimm ár eru liðin frá því að lög um kynrænt sjálfræði voru samþykkt og Ísland er fremst í flokki hvað varðar lög sem þessi. Hins vegar er vandað og skýrt tákn fyrir kynhlutlaus rými enn ekki til. Samtökin ’78 fá margar fyrirspurnir frá fyrirtækjum og stofnunum varðandi táknnotkun, bæði hérlendis og erlendis frá. Væntingar standa því til að táknið hljóti athygli víða og komist í alþjóðlega dreifingu.

Markmið og áherslur

Markmiðið er að skapa sterkt tákn sem gengur fyrir öll kyn og hægt að nota hér á landi sem og alþjóðlega. Það á að vera skalanlegt og óháð ákveðinni efnisnotkun (málmur, timbur, steinn, prentun o.fl.). Hönnuðir eru hvattir til að hugsa út fyrir ráðandi kynjatvíhyggju í hönnun sinni.

Áherslur dómnefndar

– Heildaryfirbragð
– Styrkur hugmyndar
– Hagnýting og raunhæfni 

Tímarammi 

2024
19. nóvember // Samkeppni auglýst á alþjóðlega klósettdeginum

2025
13. janúar // Lokað fyrir fyrirspurnir
17. janúar // Fyrirspurnum svarað
3. mars // Umsóknarfrestur rennur út
3. apríl // Niðurstaða samkeppninnar kynnt á sýningu með innsendum tillögum á HönnunarMars 2025

Dómnefnd

Fulltrúar Samtakanna ’78

Bjarndís Helga Tómasdóttir, formaður Samtakanna ‘78
Reyn Alpha, formaður Trans Íslands
Elías Rúni, grafískur hönnuður

Fulltrúar MH&A/FÍT

Hrefna Sigurðardóttir, grafískur hönnuður, lektor í LHÍ
Hjalti Karlsson, grafískur hönnuður, Karlssonwilker NY

Verkefnastjóri og trúnaðarmaður

Gerður Jónsdóttir, Miðstöð hönnunar og arkitektúrs.

Úrslit og verðlaun

Niðurstaða samkeppninnar verður kynnt á HönnunarMars 2025. Veitt verða ein verðlaun að upphæð kr. 1.000.000.-

Skilaform og nafnleynd

Tákni skal skilað inn sem svarthvítu skjali í PDF-sniði í stærðinni A4 ásamt 50–200 orða texta um hugmyndina. Tillögum skal skila á netfangið samkeppni@honnunarmidstod.is 

Nafnleynd ríkir í samkeppninni. Upplýsingar um þátttakendur skulu eingöngu vera í tölvupósti en ekki í innsendum gögnum þ.e. á sjálfu pdf skjalinu.

Tillögu er veitt viðtaka berist hún innan tilgreinds skilafrests og nafnleyndar sé gætt.

Fyrirspurnir

Tekið er við fyrirspurnum til og með 13. janúar á netfangið samkeppni@honnunarmidstod.is. Öllum fyrirspurnum verður svarað í síðasta lagi 17. janúar 2025. 

Skilmálar

Ef dómnefnd telur enga innsenda tillögu koma til greina til nánari útfærslu áskilur hún sér rétt til að hafna öllum tillögum.

Ef tveir eða fleiri keppendur senda inn samskonar útfærslu af verðlaunatillögu þá áskilur dómnefnd sér þann rétta að deila 1. verðlaunum með þeim aðilum. Niðurstaða dómnefndar er endanleg.

Samtökin ‘78, FÍT og Miðstöð hönnunar og arkitektúrs öðlast birtinga-og sýningarrétt á öllum innsendum tillögum og áskilja sér rétt að sýna opinberlega allar eða hluta af innsendum tillögum með nöfnum á höfundum þeirra. 

Með því að senda inn tillögu í samkeppnina ertu að samþykkja ofangreinda samkeppnislýsingu.