Laugardaginn 17. maí 2025 var Hörður Torfason sæmdur heiðursmerki Samtakanna ‘78 við hátíðlega athöfn á Hótel Borg. Margt var um manninn og mikil gleði og þakklæti í loftinu. Um tónlist sáu Elijah Kristinn Tindsson, sigurvegari söngkeppni Samfés 2025, og Egill Andrason, píanóleikari.
Bjarndís Helga Tómasdóttir, formaður Samtakanna ‘78, flutti eftirfarandi ræðu við það tilefni:
Kæru gestir, dásamlega samfélag. Velkomin hingað á Hótel Borg á þessum fallega laugardegi, á alþjóðlegum degi gegn hinsegin fordómum. Stór dagur á alla vegu, veðrið er auðvitað stórkostlegt og í morgun var Hamingjuhlaup Samtakanna haldið í fyrsta, en ekki síðasta sinn – og svo er auðvitað þjóðhátíðardagur Norðmanna! Heija Norge! En ekkert af þessu er þó ástæðan fyrir því að við erum saman komin hér á þessari stundu. Við erum komin hingað til að heiðra mann og heiðra sögu sem hófst fyrir 50 árum síðan. Sögu sýnileika hinsegin fólks í íslensku samfélagi.
Sýnileikinn skiptir máli.
Við endurtökum þessi mikilvægu skilaboð aftur og aftur í allri okkar baráttu fyrir mannréttindum og mannvirðingu. En stundum dofnar merkingin þegar orðin hafa verið endurtekin oftar en við getum talið og því er mikilvægt að staldra við og líta aðeins inn á við. Hvað þýðir sýnileiki fyrir okkur? Hvað hefur sýnileiki lesbía, homma, trans fólks og alls hinsegin fólks gefið okkur?
Sýnileiki er svo margt – síðustu ár tengjum við hann kannski helst við Hinsegin daga og Gleðigönguna – sem er góðra gjalda vert. En sýnileikinn hefur einnig djúpa tengingu við sársauka. Hann er sögulega hættulegur á sama tíma og hann er lífsnauðsynlegur. Sú vá sem tröllreið samfélagi homma á níunda og tíunda áratugnum sýnir okkur það skýrt; plágan tók mörg okkar björtustu ljós, vini og elskhuga. Engu að síður varð alnæmisfaraldurinn til þess að draga samkynhneigð inn í vitund hins almenna borgara, það var ekki lengur hægt að líta undan og láta eins og við værum ekki til.
Okkar erfiðustu augnablik eru einhvern veginn oft þau mikilvægustu. Sársauki og gleði eru samofin í allri okkar réttindabaráttu. Sýnileiki er sterkasta andsvar okkar við kúgun og hatri. Og sýnileikinn er líka ljós.
Það er stundum gert grín að því að hægt sé að þekkja heimili okkar hinsegin fólks á því að við kjósum mjúka birtu frá lömpum og kertum fram yfir skær loftljós, í raun að við hreinlega þolum ekki „stóra ljósið”. Við erum enda rómað stemningsfólk, og jafnvel lýsingin endurspeglar það. En ef ég leyfi mér að gera grínið að myndlíkingu – það er alls ekki alltaf þægilegt þegar kveikt er á „stóra ljósinu“. Birtan stingur stundum í augun – en er samt nauðsynleg. Ljósið gerir okkur sýnileg, ekki bara fyrir öðrum, heldur fyrir hvert öðru. Með öllum okkar kostum og göllum auðvitað – en það er nú eins og það er!
Og í dag stöndum við hér í ljósi sem var kveikt fyrir fimmtíu árum og hefur breytt miklu fyrir okkur sem hér stöndum.
Árið 1975, fyrir fimmtíu árum síðan, var eitt slíkt „stóra ljóss”-augnablik í sögu okkar en þá birtist tímamótaviðtal í Samúel. Ungur maður, þjóðþekktur og vinsæll leikhús- og tónlistarmaður, birtist undir nafni og mynd í opinskáu viðtali og sagði skýrt að hann væri hommi og varð þannig fyrsti maðurinn á Íslandi til að lýsa því yfir opinberlega yfir að hann hneigðist til eigin kyns. Þessi maður var – og er – Hörður Torfason.
Viðtalið braut blað í sögu samkynhneigðra. Það þurfti kjark og áræðni að stíga fram með þessum hætti og segja: „Ég er hér, ég er til, og það er ekkert að mér.” Viðtalið nýtti hann til þess að benda á óréttlætið sem felst í því að neyðast til að vera í felum, og ég vitna hér beint í viðtalið: „Mér finnst of mikið gert af því hér, að ofsækja fólk, vegna þess að það er eitthvað frábrugðið öðrum.” Um þetta erum við örugglega öll sammála, enn í dag.
Þetta átti eftir að draga dilk á eftir sér fyrir Hörð persónulega, en einnig fyrir samfélag homma á Íslandi í heild sinni. Hörður hafði dirfst að segja upphátt og opinberlega, með stolti en ekki skömm: „Ég er eins og ég er,” – og að lokum varð það til þess að Hörður þurfti hreinlega flýja land um langa hríð. En fræi hafði verið sáð – þó uppskeran kæmi ekki strax.
Þremur árum síðar, árið 1978, var Hörður hvatamaður og einn af stofnendum Samtakanna ’78, samtaka homma og lesbía á Íslandi, sem síðar urðu samtök alls hinsegin fólks. Stofnun samtakanna var byltingarkennd og lagði grunninn að þeirri samfélagslegu baráttu sem síðar leiddi til aukinna réttinda, verndar og viðurkenningar fyrir lesbíur, homma, tvíkynhneigða, trans fólk og annað hinsegin fólk. Með því að leggja sitt af mörkum til að skapa skipulagt, öflugt og sýnilegt félag var hann lykilmaður í mótun íslenskrar hinsegin hreyfingar og þeirri vitundarvakningu sem hefur átt sér stað síðan.
Síðar ferðaðist Hörður um landið, hélt tónleika og talaði við fólk, minnti þau á að við værum hér, að við hefðum alltaf verið hér. Hann var rödd, nærvera – og ljós – á tímum sem voru myrkari en margir muna í dag. Sjálf þekki ég homma honum yngri sem minnast þess að hafa hitt Hörð á ferðum sínum – hann skyldi þar sannarlega eftir sig mikilvæg spor.
Herði Torfasyni og ferli hans sem aðgerðasinna verða ekki gerð full skil hér í dag enda hefur hann á löngum ferli sínum látið sig málefni fólks víða varða, hér má til að mynda nefna Búsáhaldarbyltinguna eftir hrunið 2008. Auk þess hefur hann lagt sitt af mörkum í því að varðveita sögu hinsegin fólks á Íslandi. Það gerði hann með því að segja sína eigin sögu í bókinni Tabú sem kom út árið 2008 – og fyrir þau ykkar sem ekki vita er von á endurskoðaðri útgáfu á þeirri bók nú í haust.
Hörður hefur stuðlað með beinum hætti að sýnileika hinsegin fólks. Með því að veita Herði heiðursmerki Samtakanna ‘78 viljum við þakka honum af einlægni fyrir það hugrekki. Fyrir elju hans og framlag til réttindabaráttu hinsegin fólks á Íslandi síðustu fimm áratugi. Um leið og við heiðrum hann sem einstakling, heiðrum við söguna og þann grunn sem hann lagði fyrir samfélag sem í dag getur staðið uppréttara og frjálsara – stolt.
Það er Samtökunum ‘78 – félagi alls hinsegin fólks á Íslandi – sannur heiður að því að mega sæma Hörð Torfason, einn stofnenda félagsins og mikilvæga fyrirmynd, heiðursmerki sínu á þessum degi, 17. maí 2025.
Hörður flutti ávarp þegar hann tók við heiðursmerkinu. Þar sagði hann meðal annars:
Þegar til kom lagði ég af stað upp brekkuna einn með óljósar hugmyndir um að breyta neikvæðu ástandi í jákvætt. Ég stóð í myrkri og óvissu en stefndi í ljósið því einhvers staðar varð að byrja. Ég trúði því að ég myndi örugglega hitta fólk á leiðinni sem væri mér sammála og hefði nægilegt þor, vilja og skilning til að slást í för með mér. Því slíkar hugmyndir framkvæmir maður aldrei einn. Þess vegna erum við hér.