Fréttin birtist fyrst á vef Reykjavíkuborgar, 7. febrúar 2024:
Hinsegin fólk býr almennt við verri heilsu og líðan en þau sem eru ekki hinsegin og ljóst er að ráðast þarf í aðgerðir til að bæta þar úr. Þetta sýna niðurstöður rannsóknarinnar Heilsa og líðan hinsegin fólks, sem kynntar voru í Ráðhúsinu í dag.
Rannsóknarverkefnið Heilsa og líðan hinsegin fólks er hluti af aðgerðaáætlun lýðheilsustefnu Reykjavíkur og hlaut verkefnið styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna sumarið 2024. Verkefnið var samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Samtakanna ´78 – Félags hinsegin fólks á Íslandi. Rannsóknin byggði á gögnum úr könnuninni Heilsa og líðan sem embætti landlæknis framkvæmir á fimm ára fresti. Sérstaklega voru skoðaðir lykilþættir á borð við reynslu af ofbeldi, áfengis- og vímuefnaneyslu og geðheilsu og varpaði rannsóknin ljósi á einstakar áskoranir hinsegin samfélagsins á þeim sviðum.
Markmiðið var að komast að því hvort almenn heilsa og líðan hinsegin fólks sé ólík heilsu og líðan sís gagnkynhneigðra, með sérstaka áherslu á áfengis- og vímuefnaneyslu og upplifun af ofbeldi. Erlendar rannsóknir sýna ítrekað fram á að heilsa og líðan hinsegin fólks sé marktækt verri en annarra og eru sterkar vísbendingar um hið sama í íslensku samfélagi.
Niðurstöðurnar nýttar til að móta aðgerðir og styðja við heilsu hinsegin fólks
Hinsegin fólk kom verr út úr nánast öllum lykilþáttum sem kannaðir voru í rannsókninni. Þau upplifa líkamlega og andlega heilsu sína verri en þau sem ekki eru hinsegin og eru líklegri til að hafa upplifað eða verið með síþreytu, kvíða, streitu, áfallastreituröskun og/eða þunglyndi. Þá eru hinsegin einstaklingar líklegri til að hafa orðið fyrir hvers kyns ofbeldi; andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu.
Niðurstöðurnar verða nýttar í að móta markvissari aðgerðir og stefnur til að styðja við lýðheilsu hinsegin fólks. Þar eru forvarnir lykilþáttur en einnig fræðsla um hinsegin málefni innan heilbrigðiskerfisins og aukinn stuðningur við hinsegin samfélagið.